Hvernig gat hann látið þetta gerast?

Hvernig gat hann látið hana draga sig svona á asnaeyrunum? Svo merkilegt hvernig hann lét það vera að hugsa sig tvisvar um. Rétt eins og hann gæti alltaf snúið við. Synt aftur upp lækjarsprænuna og samsamað sig aftur fljótinu. Notið þess að berast með því stefnulaust. Hann hafði tapað stjórninni. Nú var ekki aftur snúið, aldrei. Stefnan hafði verið tekin. En hún sem hafði gabbað hann var komin aftur. Og nú hafði hún annan boðskap fram að færa. Nú hvíslaði hún öðrum orðum, orgaði innra með honum þar til hann hélt hann þyrfti að rífa úr sér hjartað. Hann þóttist geta sungið það sem honum sýndist. En það var ekki aftur snúið svo söngurinn var óvelkominn, en svo hávær að ógjörningur var að þagga niður í honum. Og svo samviskubitið yfir því að hafa hundsað hann þegar hann byrjaði blíðlega að hljóma. Svo sakleysislegur í fyrstu. Hvernig gat hann látið þetta gerast?

Ummæli

Vinsælar færslur