Skaparinn - Guðrún Eva Mínervudóttir
Hvort sem það eru góð meðmæli eða ekki þá var töluverður léttir að klára bókina. Spennuþrungið andrúmsloft nær alla bókina í gegn og þá ekki vegna æsispennandi söguþráðs heldur tilfinningaflækju persónanna. Einmannaleikinn er áþreifanlegur. Guðrún Eva nær ótrúlega vel að komast hjá klisjum í skrifum sínum um kynlífsdúkkugerðarmanninn. Hann er tómlega fráhrindandi en sannfærandi sem handverksmaðurinn sem hefur strandað einn á báti. Hann virðist una sér við vinnu sína en hefur tapað flestu öðru af sjálfum sér. Einstæða móðirin er óþægilega vonlaus í basli sínu með sjálfa sig og börnin. Það var gott að kveðja hana við lestur bókarinnar því þá þarf ég ekki að finna meira til með henni. Sambandsleysi þeirra tveggja er algert og er kannski angist lesandans mest þegar hann fylgist með þeim sitt í hvoru lagi í gegnum atburðina. Átakanleg samskiptin kristallast svo í kynlífsdúkkunni fullkomnu. Hún er sú persóna bókarinnar sem vekur þó einna mestan hrylling. Fullkomlega dauð virðist hún ná að setja lífið í annarlegan farveg.
Ummæli