10 ráð til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp

Titillinn er léleg eftiröpun á bíómyndatitli. Ég hef það á tilfinningunni að betri titill hafi verið í boði. Sé fyrir mér hvernig þessi hefur komið upp í einhverju fimmauruahúmorskasti og svo setið fastur við bókina. Hún var víst skrifuð bæði á ensku og íslensku samtímis. Ég veit ekki hvort höfundurinn hefur haft það í huga að bókin verði bíómynd eða hvort bíómyndaramminn er bara orðin svona yfirgnæfandi að til að bækur seljist þurfi þær að vera eins og bíómyndir. Mér leiðist samt þetta glæponna æði. Nú verða allar sögur að vera glæpasögur. Bæði Hallgrímur og Auður skrifa um glæpi þó sögurnar séu ekki glæpasögur. Sem betur fer. Í stíl við markaðssetningu mannlífsins verða rithöfundar að selja sig og þóknast kúnnanum. Og kúnnar vilja glæpi. Annað sem heillar þá eru hryllingssögur frá stríðshrjáðum löndum. Best ef islam og múslimskur menningarheimur kemur líka við sögu.

Jæja hvað um það. Það sem Hallgrímur kann aftur á móti er að skrifa skemmtilegan texta. Hann er smá mistækur og stundum hef ég það á tilfinningunni að hann skrifi brandara sem hann þarf svo að koma inn í textann einhvernvegin þannig að stundum flýgur hann hátt og tekur svo dýfur sitt á hvað. Svona eins og markaðurinn. Maður finnur svo vel hvað hann hefur gaman af tungumálinu. Ég vona að það tapist ekki í enskunni. Því þá er ekkert voðalega mikil eftir af bókinni. Persónurnar eru svo sem alveg lifandi en allar óviðkunnanlegar ef ekki ógeðfelldar. Hallgímur reyndar skirfar alltaf um leiðinlega ömurlega karla en það væri gaman ef hann reyndi við konur! Jú já auðvitað Þetta er allt að koma. Hún er um stelpu. Var búin að gleyma henni. Sú var nú meiri munnræpan.

Ég þarf eiginlega að komast yfir Rokland því það er eina bókin eftir Hallgrím held ég sem ég hef ekki lesið. Eða gert tilraun til. Min minnir ég hafi ekki klárað Herra alheim. Alveg skelfilega leiðinleg. Eða ég ekki upplögð fyrir leiðinlega karla. Man ekki alveg hvernig þetta var. En ég klára yfirleitt alltaf bækur svo ég mun þegar ég finn hana í geymslunni gera aðra tilraun. Ætti líka að lesa Höfund Íslands afur því ég las hana í eftirfæðingarþoku og man voða lítið eftir henni.

Ummæli

Vinsælar færslur