Ópera

Þetta viðtal við Peter Gelb stjórnanda Metropolitan Óperuhússins í New York er ansi hressandi. Hann viðurkennir fúslega "elítisma" klassískrar tónlistar, hann víkur ekki einu sinni í viðtalinu að því að Bítlarnir séu náttúrulega klassísk popptónlist og svo fram eftir götunum. Hann segir einfaldlega að óperutónlist sé ekki fyrir alla. Þetta finnst mér gott. Ekkert niðursoðið takk fyrir.

Ég er ekki óperuunnandi. Ég hef séð þrjár óperur í Íslensku Óperunni. Carmina Burana, Cosi fan Tutti og Flagari í Framsókn (Stravinskij).
Fyrir mig, fædda á seinni hluta tuttugustu aldar er töluvert erfiði að fylgja "da capo"formi Mozarts. Ég er vön að horfa á hraðar bíómyndir og þarf svo að setja mig inní það að persónan geti verið harmi slegin í þrjátíu og sex takta og svo aftur í sömu þrjátíu og sex taktana. Með sama textanum. En þetta vandamál er ekki óperunnar. Það er mitt. Það er ekki Íslensku Óperunnar að koma til móts við mig af því ég "skil ekki alveg hvernig þetta virkar". Það væri fáránlegt að óperan kæmi niður á mitt plan, bara af því að ég borga aðgöngumiðann.

Fyrir þau sem ekki hafa löngun í að hlusta(og horfa) á allt viðtalið þá er þessi málsgrein hérna fyrir ofan að öllu leyti mín. Í viðtalinu er meðal annars komið inn á bíósýningar óperunnar og hvaða áhrif þær hafa á aðsókn í húsið sjálft.

Hér er linkur á opnunaratriði Die soldaten eftir Zimmermann. (Þessi uppfærsla kemur ekki frá Mertopolitan Óperunni). Ótrúlega brjálað og alls ekki fyrir viðkvæm eyru. Og svo meira um þá uppfæsrlu:





Það að vilja endalausar Mozart óperur í Íslensku Óperuna er eins og að krefjast þess að sjá bara Rambó og Grease í bíó. Tónlist er framsækin eins og aðrar listir. Það er ekki hennar að segja sömu brandarana aftur og aftur. Það er okkar að skilja grínið. Annars verðskuldum við ekki að hlæja.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Núh, ég hélt að óperustjórinn vildi helst bara setja upp Carmen. Og svo Carmen, Og Carmen einu sinni enn...
Það getur verið. En sem betur fer eru fleiri en eitt óperuhús í New York.

(Karen)
Nafnlaus sagði…
heh, ég er nú reyndar að tala um núverandi óperustjóra Íslensku Óperunnar!

Vinsælar færslur