Að drepa öskubusku

Það þurfti ansi mikið til að fá mig til að rjúfa bíóbindindið mitt. Ekki það að ég hafi hætt að fara í bíó vegna þess að það sé eitthvað óhollt fyrir mig og ég hafi þurft að beita mig miklum aga til að fara ekki. Þar er bara ekkert sem mig langar til að sjá. En hvað um það. Ég fór að sjá myndina Sex and the City um þessar persónur sem ég hef svo oft skemmt mér við að horfa á. Þættirnir löguðu svefnleysið mitt þegar þeir voru allir sýndir kl 11 á kvöldin á Skjá einum. Eftirvæntingin var því töluverð og vonbrigðin eftir því. Þó ég hafi hlegið og skemmt mér ágætlega svona í heildina séð þá skil ég ekki hvernig þeim (handritshöfundum) datt í hug að láta myndina enda illa.

Enn í dag má lesa um áhrif þáttanna á sjálfmynd kvenna. Þeir hafi sýnt konum að þær geti lifað kynlífi án þess að skammast sín fyrir það og að það sé til annað líf fyrir konur en "bak við eldavélina". Þegar þættirnir voru að renna sitt skeið á enda las ég vangaveltur um hvort það væru ekki réttu skilaboðin, þ.e.a.s. í samræmi við kokhraust umfjöllunarefni þáttanna og efnistök, að allar konurnar "enduðu einhleypar". Hjónabandið í lok myndarinnar er því eins og að drepa öskubusku. Carrie er sem sagt ekki gáfaðri og sjálfstæðari en svo að hún giftist manninum sem er búinn að dunda sér við það að hrella hana, kvelja og pína í 6 þáttaraðir. Öskubuska vissi þó ekki að prinsinn var hálfviti. Ekki eru allir menn hálfvitar.

Fylgdarkona mín í bíóinu var búin að biðja mig um að tempra bræðina. Þetta væri ekki þess virði að pirra sig yfir því svo ég ætla ekki að fara út í aðra sorgarsálma í myndinni. Bara eitt:

Love and Labels.

Merkjadýrkunin í myndinni var að sjálfsögðu fyrirséð og ég verð að viðurkenna að þeir (handritshöfundarnir aftur) hittu naglann á höfuðið þegar Carrie segir við aðstoðarkonuna sína að skilnaði:
"Thank you, you really saved my soul"
og aðstoðarkonan svarar:
"and you gave me Louis Vuitton"

Þetta hljómar við fyrstu heyrn alveg svakalega heimskulega en er í raun lýsandi fyrir ítök merkjaímyndarinnar. Hún fer heim með töskuna og það merkir að hún hafi "meikað" það. Í einhverju blaðanna í dag er svo fjallað um það að Ítalir ætli að taka upp himinháar sektir fyrir að bera falsaða merkjavöru. Það á sem sagt að verja ímyndirnar með kjafti og klóm. Ég legg til að öll sú vinna og fjármunir sem eiga að fara í það að hrella ferðamenn með Rolex úr fari í að koma í veg fyrir að fölsuð lyf séu í umferð. Það skiptir töluvert meira máli.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Skemmtilega tvíeggjað hrós, „þættirnir löguðu svefnleysið mitt!“ : )

Vinsælar færslur