Ekki einu sinni mölfluga

Nú í vor á gangi í Mosfellsbæ varð á vegi mínum kona sem vakti upp minningar. Hún var mjög venjulega útlítandi. Trúlega á leið í Bónus. Örugglega að kaupa bleijur. Hún virtist ekkert uppveðruð yfir að sjá mig, en ég sá að þarna var hún. Marthröð unglingsáranna. En samt flaug ekkert einasta fiðrildi um magann. Ekki einu sinni mölfluga. En ég man þetta nú samt vel. Ég var örugglega 12 ára þegar ég hætti að geta gengið óhrædd um hverfið. Og samt hafði ég ekki tekið eftir neinu þegar það gerðist. Vinkonur mínar sögðu mér það seinna.
"hún ætlar að berja þig"
"hver?" spyr ég eins og álka og fatta alls ekki alvöru málsins.
"Sessa" svara þær
Ég hefði alveg eins getað endurtekið spurninguna því ég var engu nær en þær eru fyrri til
"þú skvettir á hana vatni í sundinu.........og hún ætlar að berja þig."
Svo þurftu þær náttúrulega að útskýra fyrir mér að hún Sessa væri sko unglingur og væri í 10 bekk og alltaf að berja einhverjar. Gott ef þær sögðu ekki vandræðaunglingur því upp frá þessu var ég logandi hrædd við einhverja Sessu sem ætlaði að berja mig.
Vinkonur mínar gengdu stærra hlutverki því þær þurftu svo náttúrulega að benda mér á skaðræðisskepnuna. Ég man ekki alveg eftir því hvað okkur fór á milli því þá var fiðrlildahaf í maganum á mér og adrenalínið hefur trúlega haft aðeins skekkjandi áhrif á það sem fór fram. En ég man eftir voðalegu glottinu á andlitinu á henni og að hún var með stein í nefinu og hún var í mosagrænni unglingaúlpu. Svoleiðis flíkur klæddu flest alla unglinga í Mosfellsbæ á þessum tíma. Alveg hrikalega ljótir jakkar sem að bæði stelpur og strákar voru í. Svona eins konar skólabúningur. Svolítið Maoískt.
En eftir þetta var ég enn hræddari. Nú hafði ég séð hana og hún ætlaði vissulega að berja mig. Hún sagði það örugglega. Ég var ekki betur inn í gengjafræðum en það að ég áttaði mig ekki á að ofbeldið er oftast ekki framkvæmt. Ógnunin þykir næg, sérstaklega þegar viðfangið er minnimáttar. Það hefði ekkert verið sérstaklega kúl að berja ræfil eins og mig þó það væri kúl að gera mig skíthrædda.
Ég sakna þessarar ungæðislegu hræðslu. Nú hræðist ég aðra hluti. Sessa hljómar næstum alveg eins og skessa og ég sé fyrir mér glottið á grýlu og steinninn í nefinu verður að kýli. En ég var sem sagt ekkert barin. Það sem ég hafði upp úr þessu eru penari sundvenjur. Hef meira að segja ekkert gaman af að fara í sund lengur. Það gæti alltaf komið skvetta.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
O boy, ég man líka eftir Sessu Skessu og var líka hrædd við hana, þó svo að hún hafði aldrei ætla að berja mig... allavega ekki svo ég muni.

En hún sprautaði á mig hvítu vatni fyrsta daginn í skólanum, var sem sagt "busuð" af henni. Var sagt að þetta færi ALDREI af, væri málning. Hvíta vatnið þornaði á leið heim í skólabílnum og skildi ekki eftir sig neinn blett.
Nafnlaus sagði…
sem sagt ég, Marín!
Nafnlaus sagði…
hehehe það er aldeilis að þið voruð viðkvæmar......ég hitti Sessu nánast á hverjum degi því drengirnir okkar eru saman á deild í leikskólanum og eru mjög góðir vinir. Á ég að skila kveðju????? hehehe - kv.María

Vinsælar færslur