Dekkjaverkstæði

Af jafnréttishugsjónum gat ég ekki haft það af mér að komast undan því að fara með bílinn á dekkjaverkstæði. Ég hef áður farið með bílinn í smurningu og kunni ekki alveg við mig sem svona viðskiptavinur en harkaði af mér . Þegar ég var búin að bíða í tvo og hálfan tíma eftir að mér kæmi í röðinni var ég eins og gefur að skilja löngu hætt að velta því fyrir mér hvernig ég ætti að haga mér þarna inni. Hvort mér tækist að stoppa á réttum stað eða keyrði niður karlinn sem stæði valdsmannslegur í bláum samfestingi og benti mér hingað og þangað. Ég vildi bara komast á réttum tíma að sækja börnin í skóla.
Nú en þar sem ég er búin að bíða í tvo og hálfan klukkutíma er mér líka alveg svakalega mál að pissa. Svo þegar ég klöngrast út úr bílnum spyr ég hvar snyrtingin sé og vippa mér svo á milli skítugra verkfæranna í áttina sem strákurinn bendir mér. En ég staðnæmist í dyrinum og verð að beita mig hörku til að æpa ekki upp yfir mig. Aldrei hef ég séð svona skítugt klósett áður. Já og vask og baðherbergisgólf og og og... nema kannski í bíómyndum. Kannski. Þegar ég svo skrönglast með æluna upp í hálsi til baka segi ég næstum afsakandi við strákinn " nei takk". "ég hélt ekki" segir hann glottandi, hafði greinilega verið að fylgjast með viðbrögðum mínum og virtist vera nokkuð skemmt. Þá eru hinir þegar farnir að bjástra við að ná dekkjunum af bílnum mínum og ég stend þarna á gólfinu og finnst ég vera fyrir. Sé þá hálfgert glerbúr og tekst að flýja þangað. Þar er greinilega afgreiðluborðið en allt svo grútskítugt að ég passa mig að standa á miðju gólfinu til að rekast ekki í neitt. Ég man ekki hvort það var stóll fyrir bílstjóra "viðskiptavinarins" að setjast í enda hefði mér aldrei dottið það í hug. Á veggnum er dagatal með konu í sundfötum að glenna sig. Nei gott ef þetta er ekki auglýsing fyrir eitthvað. Ég er greinilega með fordóma fyrir dagatölum á verkstæðum. Svo kemur strákurinn inn og segir mér að bílinn sé tilbúinn og ég sé eftir því um leið og ég segi að ég sé ekki búin að borga. Hann horfir í smástund hálf pirraður á skítugar hendurnar sínar. (Hvað er þessi kona að vesenast, sér hún ekki að það bíður hálfur bærinn eftir vetrardekkjum) Hann fer svo og kallar í einhvern. Inn kemur eldri maður og horfir á mig eins og vandræðagemling og sest svo og fer að fikta við posa. Þegar ég rétti að honum kortið sé ég að hann er engu hreinni um hendurnar en strákurinn. Mér dettur í hug að athuga hvort ég gæti ekki fengið að millifæra en ég er þegar komin með kortið á loft og strákurinn með augun í hnakkanum á mér að bíða eftir að ég hipji mig. Svo er ég alveg að pissa í mig og vil helst af öllu ljúka þessu af sem fyrst. Sem ég og geri. Geng svo í flasið á strákunum og spyr þá hvort ég megi þá fara núna. "jájá þú mátt fara núna " segir salernisvísan og bætir svo við "við erum einmitt að bíða eftir því" og allir jánka því á meðan þeir mæna á mig klifra inn í bílinn. Segir svo fleðulega rétt áður en ég næ að setjast "ekki að höfum eitthvað verið að bíða eftir því" og ætlar svo að halda áfram en trúlega hef ég sent honum of fallegt augnarráð.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Karen...
ef einhver er góður penni, þá ert það þú...Öll fjölskyldan mín búin að hlæja að þessari færslu þinni sem mér fannst þess virði að lesa upphátt fyrir þau.
sjáumst vonandi á fimmtudaginn**

knús
Sveinhildur
Nafnlaus sagði…
he he he... hefðir bara átt að sleppa því að borga :)
luv ya Marín
Nafnlaus sagði…
ææ, verst að ég hafi ekki fengið þessa hugmynd fyrir lokaverkefnið, Dekkjaverkstæði/spa/heilsulind, þar sem þú gætir speglað þig á marmaragólfi og nudd og andlitsmeðferð kæmi með hverrjum dekkja umskiptum á bíl:)

Vinsælar færslur