Mindset

Í kjölfar hræringanna eftir lestur bókarinnar eftir James Martin ákvað ég að finna fleiri bækur sem velta fyrir sér framtíðinni. Í máli og menninngu fann ég bók eftir John Naisbitt og eftir að hafa gluggað lítillega í hana keypti ég hana og las. Þvílík vonbrigði! Bókin inniheldur einhverskonar leiðarvísa að framtíðinni. Kennir aðferðir til að rýna í framtíðina. Höfundur notar svo þessar aðferðir til að sýna okkur hans sýn á framtíðina. Aðferðirnar eru kenndar við svokölluð "mindsets". Hann bendir á að það hvernig fólk stillir hugann hefur mikið með það að gera hvernig það upplifir nútíðina. Þessar stillingar á svo að nota til að rýna í slóðina sem framtíðin fetar.

Þetta eru allt saman ágætar pælingar hjá honum en eftir lestur fyrstu blaðsíðanna áttaði ég mig á því að áhuginn á framtíðinni snýr einungis að því hver græðir mestu peningana og hvernig. Framtíðin er peningar.

Framtíðin er peningar og dót. Þar höfum við það!

Það versta er að þetta kemur ekki einu sinni á óvart. Ég er sjálf partur af þessari framtíð og veit að hún liggur í flatskjá og Gucci-tösku. Ég veit líka að á banabeðinu mun ég ekki þakka fyrir hamingjuna sem streymdi úr flatskjánum, en ég mun þakka fyrir farsælt líf. Það er skilgreint þannig að börnin mín gengu í diesel- gallabuxum innan um fína heimilismuni sem ég var alla ævina að vinna fyrir. Þegar fólk hætti að þurfa að strita myrkranna á milli til þess eins að komast af þá heldur það stritinu áfram til að safna óþarfa dóti. Það er eitthvað meira en lítið bogið við þetta. Eða er það ekki?

Það versta er að þetta kemur mér við. Það er voða auðvelt að ætla að hefja sig yfir "alla hina" með því að týna til ágæti síns eigin lífs. Ég er óvenjulega mikið heima með börnunum mínum. Ég hef yndi af tónlist og bókum og svo framvegis. En ég hef samt sem áður að miklu leyti alveg sama gildismat og "hinir". Ég þori þó að segja að ég hef ekki sama gildismat og John Naisbitt. Í hans augum er ég aumur evrópu-sósíalisti.

Það alversta er að Naisbitt virðist að einhverju leyti gera sér grein fyrir gallanum á lífssýninni. Nei, nú er í tísku að segja lífsstílnum. Síðasta málsgreinin í bókinni hans er eitthvað svo ótrúlega dapurlegur vitnisburður um framtíðarhugsjónina. Hann segir frá því að vinur hans hafi komið til hans með bréf sem Charles Darwin á að hafa skrifað við ævilok sín (er fólki nokkuð hent í fangelsi fyrir að birta svona beint upp úr bók á netinu?):

"up to the age of 30, or beyond it, poetry gave me great pleasure. But now for many years I cannot endure to read a line of poetry. My mind seems to have become a kind of a machine for grinding general laws out of large collections of facts, and if I had to live my life again, I would have made a rule to read some poetry and listen to soma music several times every week. The loss of these tastes is a loss of happiness, and may possibly be injurious to the intellect and more probably to the moral character, by enfeebling the emotional part of our nature."

Til þess að lesa ljóð þarf tíma og einbeitingu. Ég voga mér næstum því að segja þekkingu. Fólk kýs aftur á móti að vinna til þess að eignast dót.

Svo tökum við bara pillu til að vera kát!

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Suma daga og flesta daga vildi ég bara vera með stelpunum mínum og mínum nánustu og njóta þess. Markmiðið er að hafa þær aldrei meira en 6 tíma í gæslu á dag, en þessir helv. peningar stjórna manni alltof mikið. Og þar sem manni finnst ALLT vera að hækka er óhjákvæmilegt að vinna og vinna helst meira en 100 % vinnu til að hafa í sig og á. En svo er líka alveg fullt fullt sem maður þarf sko ALLS ekkert á að halda eins og flatskjár og sjónvarp í bílnum - þvílíkt bull!
En er að lesa bókina eftir Ingólf "þú átt nóg af peningum - þú þarf bara að finna þá" og ætla mér að vera hrikalega skynsöm í peningamálunum í framtíðinni ;-)
Nafnlaus sagði…
Húrra fyrir skynseminni!

Mér finnst ég oft þurfa eitthvað gott námsskeið í nægjusemi ;)

Kerla

Vinsælar færslur