Vinkona mín ein hefur oft talað um hvað þessi og hin er mikill karakter að afþakka súkkulaðimola eða rúsínu. Ég hef alltaf skilið það sem svo að karakterinn felist í því að neita sér um sætindin og sigrast þannig á löngunum sínum. Vinur minn sagði eitt sinn um feita stelpu að hann skildi ómögulega hvernig nokkur manneskja geti leyft sé að verða svona feit. Þessi orð hans ómuðu í hausnum á mér um daginn þegar ég virti fyrir mér feita stelpu á förnum vegi. Hún var með risastór brjóst og mjúkan maga, gerðarlega handleggi og fallegt andlit. Hún virtist ekkert vera voðalega leið yfir því að bjóða samferðarmönnum sínum upp á að horfa á sig. Bað engann afsökunar. Þá hvarflaði það að mér að hún þyrfti nú að vera ansi mikill karakter að vera bara hún sjálf. Þó hún ætti samkvæmt flestu að skammast sín fyrir að vera svona feit. Já það þarf trúlega mikinn karakter í það að sigrast á áliti annarra.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
fnuss... karakter að hafna nammi... það eru bara karekterleysin sem ekkert éta. Því meira sem það er að fólkinu, því meira er að elska af því... ekki satt? big is beautiful
Nafnlaus sagði…
Í þessu viðhorfi felst hætta á því að kunna því betur við fólk sem það er breyskara og að líta niður á þá sem sýna viðleitni til sjálfbetrunar. Löngunin til að réttlæta eigin breyskleika gæti verið öflugur hvati á bak við slíkt viðhorf. Já, hinn gullni meðalvegur á milli meinlætis og hóglífis, sjálfsafneitunar og ofneyslu, er vandrataður. En ég hugsa að við Vesturlandabúar séum nú flest ofneyslumegin við meðalveginn. Og ég hugsa að það sé ekki tilviljun að á sama tíma og offita verður algengari verður átröskun það líka. Allt er best í hófi. Jæja, þetta er orðið hóflega langt hjá mér.

Vinsælar færslur