Ég gekk léttfætt til læknisins í dag. Bara að fara í smá blóðprufu. Bara tékk. Á síðasta ári fór ég ævinlega með hnút í maganum og þreytu í hausnum og kveið því að vita niðurstöður þessara prufa sem var alltaf verið að taka. En í dag var ég með hugann við kaffibollann sem ég ætlaði að fá mér þegar ég væri búin að vera hjá lækninum. Eftir hlaupin á bílastæðinu (það er ekki hægt að fá bílastæði fyrir utan Landspítalann!!) tilkynnti ég afgreiðlsukonunni með létti að afsláttarskirteinið mitt væri útrunnið og ég væri ekki komin með nýtt. Þegar ég kom inn á biðstofuna helltist svo yfir mig þessi hræðilega tilfinning að ég væri svikari. Um leið og ég leitaði mér að sæti komst ég ekki hjá því að horfast í augu við fólkið sem sat þarna og beið eftir sprautunum sínum. Fólkið sem sat þarna með klútana um hausinn með ástvini sína sér við hlið. Allir þögulir að blaða í blöðum sem segja frá fólki sem hefur áhyggjur af öldrun húðfruma í andliti. Engar hættulegar frumubreytingar þar. Ég veit ég ætti að vera þakklát fyrir hreysti mitt en þarna inni skammast ég mín hálfpartinn fyrir það. Hvað er ég að kvarta!!! Ég reyni að láta fara lítið fyrir mér og heilsa starfsfólkinu þarna (það var þarna fyrir ári að stinga mig) og hugsa með mér hvílíkar hetjur þetta séu. Þarna fer fram barátta upp á líf og dauða. Allan daginn berjast þessar láglaunuðu hjúkkur með hlýju og umhyggjusemi við skaðvaldinn sem lætur undan hægt og rólega með sársauka og vanlíðan. Þarna á göngudeild blóð og krabbameinslækninga starfa hetjur dagsins í dag.
- Fá tengil
- X
- Tölvupóstur
- Önnur forrit
Ummæli