Hvað höfum við gert til að hafa það svona gott?
Ragnar Kjartansson í Gallerí i8. Heimsótt 16. og 18. mars 2025.
Í fremra herberginu er annað verk á litlum skjá. Þar má sjá Ragnar Kjartansson og Sögu Garðarsdóttur í angustarfullri óperu sitja föst í sársauka (verkið heitir Swertz upp á þýsku). Harmleikurinn fer fram í bjálkahúsi sem lítur út fyrir að vera frá örðum tíma rétt eins og búningarnir við undirleik Kristínar Önnu Valtýsdóttur píanóleikara. Húsið er staðsett á því sem virðist vera einhverskonar sumarfrísstaður í samtímanum. Vatn með vaggandi bátum, grasflöt með göngustíg og trjágróðri á mjóum ramma utan um húsið. Baðfataklætt fólk breiðir út handklæði fyrir sólbað og heyra má ánægjulegar raddir barna í leik.
Inni í bjálkahúsinu lifa persónurnar aftur á móti sama sársaukann aftur og aftur þar sem Karlinn endurtekur “Was hab ich gemacht” og konan svarar “nein!”.
Tónlistin virðist vera spunnin sem ætti að halda athygli minni en ég vil frekar vera inni í stærri salnum þar sem annað verk fyllir heilan vegg. Kannski er það stærðin sem kallar. Kannski er ég að flýja sársaukann. Eða eru það sjálfumglöðu þægindin í verkinu sem kalla á mig?
Við horfum inn í fágaða skandinavíska stofu með stórfenglegu útsýni sem gefur til kynna að húsið sem við erum stödd í standi á dýrmætri lóð en íburðurinn í stofunni gefur til kynna einbýlishús. Útsýnið er út á blátt haf og sjólin skín á tré eða vegg klæddan sældarlegri klifurplöntu. Tekksófi með grænum pullum, líklega eftir norrænan hönnuð er staðsettur fyrir framan lágt sófaborð, í útjaðri sjónsviðs okkar sjáum við mublu sem geymir forláta plötuspilara og á jaðrinum næst okkur er barborð á hjólum með glerplötu með glösum og skreyttri karöflu sem geymir koníakslitaðan mjöð.
Hjónin í myndinni virða fyrir sér útsýnið og færa sig um stofuna af kæruleysislegum þægindum. Þau eru að njóta eins og sagt er upp á íslensku og þau furða sig sjálfumgleðilega á hvað þau hafi það nú gott. Það er það eina sem þau segja við hvert annað.
“Hvad har vi dog gjort to ha de so godt?”
Þau brosa og hlægja við en segja ekkert. Nema við og við þessa sömu setningu. Þannig eru þau föst í þessari undrun. Þessari skemmtilegu stemningu að hafa gert eitthvað til að hafa það svona gott. Hvað höfum við gert til að hafa það svona gott? Spurningin hangir í loftinu og þau setja plötu á fóninn. Sömu plötuna að spila sama lagið aftur og aftur; “Hver dag er en sjælden gave” (sérhverdagur er sjaldgæf gjöf”, 1939) í flutningi söngkonunnar Elsu Sigfúsdóttur.
Hugsanlega kallar verkið fram hugrenningar hjá einhverjum um mikilvægi þess að njóta lífsíns. Einhverskonar memento mori. Hver dagur er gjöf til að lifa. Einhversstaðar í hringiðu hamstrahjólsmenningarinnar begmálar þessi setning sem á ekkert skilið við lífsgæðakapphlaupið. En þau hafa sigrað lífsgæðakapphlaupið og hvíla lúin bein í í fínheitunum og velta því fyrir sér hvað þau hafi gert til að verðskulda þetta.
Komið náttúrunni á þannig heljarþröm að næstu kynslóðir muni spyrja sig hvað þær geti gert til að lifa af?
Hagnast á heimskerfi sem heldur milljónum manneskja við þannig lífsskilyrði að þær geti ekkert gert nema þrælað fyrir kapítalið sem borgaði fyrir fínheitin?
Já, hvað hafa þau gert? Allveg örugglega ekki borgað sinn hluta af sköttum til þjóðfélagsins.
Í 11 klukkustundir og 5 mínútur eru þau fangar fínheitanna og spurningarinnar um hvað þau hafi gert.
Ummæli