Feneyjatvíæringurinn 2024

 


Ég heimsótti Feneyjatvíæringinn á tveimur fallegum dögum í október. Sextugasti tvíæringurinn bar yfirskriftina Foreigners Everywhere eða Stranieri Ovunque á ítölsku. Sýningarstjóri alþjóðlega hlutans var Adriano Pedrosa. Hann er brasilískur og starfar í Brasilíu. Hugmyndin við sýningargerðina var að draga fram allt sem hefur kallast annarlegt (e. Strange) í honum verstræna lístheimi. Listamennnir sem hann valdi eru (eða voru) flestir frá suðurhluta heimsins, frá suður Ameríku, suður Afríku eða Asíu og hafa fæstir átt verk á tvíæringnum áður. Þá var sérstaklega gefinn gaumur að listamönnum sem standa utan við hefðina varðandi kynhneigð, aðferðir og uppruna. Til að mynda var hortf til listamanna af frumbyggjaættum og þeirra sem ekki eru gagnkynhneigðir. 


Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast. Ég var búin að sjá glefsur af sýningunni á youtube en hafði það frelsi að þekkja ekki til sýningastjórans, þekkja ekki sögu tvíæringsins, vera ómenntuð í myndlist og vera bara alveg fyrir utan listaheiminn eins og hann leggur sig. Það er frelsandi að vera hluti af pöpulnum sem þarf ekki að taka afstöðu. Viss um að ekkert af þessu var gert með mig í huga. En ég bý við þau forréttindi að geta keypt mér flug- og lestarmiða, hótelherbergi og aðgangsmiða að sýningunni. Búin forvitni um hvað fer þarna fram. 


Sannarlega var ég útlendingur og þó að ég falli ekki  undir þann annarleika sem sýningarstjóri hafði í huga við sýninguna þá upplifði ég mig á skjön. Miðaldra kerling að álpast ein út í óvissuna að skoða eitthvað sem hún veit ekkert um. En ég var sannarlega ekki ein á staðnum. Ég hélt að þar sem það væri stutt eftir af sýningartímanum að flestir sem ætluðu sér að sjá sýninguna hefðu þegar gert það en þarna var múgur og margmenni. Aðallega ítalir en líka  margir þjóðverjar og frakkar. Líklega bjuggu flestir í ferðatösku eins og ég á meðan á heimsókninni stóð. En fæstir voru einir. Þarna var fullt af fólki eins og ég sem fer í ferðalag til að skoða listasýningu og ég reyndi aldrei að ná sambandi við það. Ég gaf bresku pari tissjú í röð við kaffiteríuna í garðinum þar sem fugl hafði skitið á karlinn en annars var ég bara að horfa og hlusta á fólk. Horfa og horfa og hlusta. Það átti bara vel við mig. 


Fólkið var alls konar. Á öllum aldri af öllum stærðum og gerðum. En mjög margir voru kúl. Báru sig af öryggi í kring um listaverkin og klæddust fötum sem voru nægilega áberandi til að vekja athygli en samt það óáberandi að þau voru ekki tilgerðarleg. Konur í litasamsetningum sem voru svo fallegar að þær gátu ekki verið tilviljun og karlar með trefla úr dýrum efnum. Grænar víðar flauélsbuxur við dökkrauða kápu þar sem sást glitta í bleik og rauðröndótta skyrtu. Brún taska með gylltu bandi sem var ekki útbýjað í merki sem ég þekkti. Bara brúnt leður og ekkert tildur. Til allrar hamingju var skýjað svo fólk var ekki fáklætt. Miklu skemmtilegra að horfa á karla í skyrtum og yfirhöfnum en einhverjum teygðum stuttermabolum. 



 Ég setti  niður hugmyndir um hvernig ég ætlaði að nálgast sýninguna eins konar reglur fyrir list:

  1. Fegurð, er þetta fallegt? er þetta vel gert? Handverk til að dást að? 
  2. Áhrif? Er þetta áhrifamikið? Hvaða tilfinningar vekur þetta upp? er ég áhugasöm?
  3. Hugmynd, skil ég þessa hugmynd? er það hún sem skiptir mestu máli? er veriði að hreyfa við tilfinningum mínum með hugmynd? 
  4. Er þetta banalt? Hef ég séð þetta of oft áður? 

Ættu litir að vera hluti af þessu? Skipta þeir máli? Þar sem þemað er útlendingar alls staðar og ég veit að list sýningarstjórans er mjög mikið gömul list frá suður ameríku, asíu og örðum svæðum sem ekki teljast til vestrænnar listar. Það er örugglega gott að hafa liti í huga. Sérstaklega þar sem mér þykja þeir líka svo áhugaverðir. 

Svo er spurning hvort það sem mér finnst skipti máli. Það er búið að rústa gersamlega öllum hugmyndum um menningu með því að hengja hana í smekk og langanir einstaklingsins. Ef einstaklingurinn er snauður af menninngarlegu læsi, er ekkert að því að menning eigi að staulast niður á hans plan. Hann skammast sín ekki fyrir lágkúrulegan smekk sinn heldur skýlir sér á bak við hann. Hann segist nú bara vera svona einfaldur í eðli sínu og skammast sín ekki fyrir að fúlsa við dýpri og merkingarbærari menningu. Hann segist vera fyrir lágmenningu eins og það sé eitthvað sem hægt sé að stæra sig af. 


Það er búið að taka menninguna af stallinum og það eina sem skiptir máli er að fanga athygli einstaklinganna. Og það er auðveldara ef fjöldinn er heimskur, illa lesinn og hefur engan smekk fyrir einu eða neinu. Sko, ég er ekki alveg ómenntuð, ég hef reynt að lesa mig til og læra sitthvað um list. En aðallega nýrri list sem höfðar meira til mín. Já, er ég ekki bara nákvæmlega eins og öll þau sem vilja bara að til þeirra sé talað? 


Hvaðan kemur áhugi? Hvar verður hann til? Getur áhugi sprottið upp úr einhverju sem ekki er til? Þarf ekki að sá fræjum til að hann blómstri? Þarf ekki að hlúa að honum og vökva? Hvernig getur hann bara dottið úr fólki? Það missir áhugann eins og það hafi verið að reyna að halda á honum. Bera hann eitthvert, eða bara bera hann með sér en svo missir það hann. Og hann bara splundrast í jörðinni. Ekki hægt að taka hann upp aftur og tjasla saman.  


Núna er trúin sú að til að fá fólk til að missa ekki áhugann sé að skemmta því. Fólk missir ekki það sem er skemmtilegt. Svo listin þarf að vera skemmtileg. Skemmtandi öllu heldur. Vekja upp kátínu, gleði, eða amk fanga athyglina. Og þá er best að vera ögrandi. Það er erfitt að byggja á fegurðinni þar sem fegurðarskyn er eitthvað sem þarf að þroska. En skemmtun geta allir pikkað upp. Og sérstaklega þar sem allir eru þjálfaðir í því að pikka upp skemmtun. Ef það er ekki gaman eftir 20 sekúndur þá nær þetta ekki til mín. Ef ég skil ekki starx þá missi ég áhugann. Ég get bara svæpað til að fá í næstu hendingu eitthvað sem höfðar til mín. Ég hef aldrei þurft að horfa á eitthvað sem ég skil ekki strax og aldrei þurft að sitja með einhverju sem er kannski aðeins fyrir ofan minn skilning en gæti komið til mín seinna. 

Svo ég sit í lægsta mögulega samnefnara fyrir list. Lægsta mögulega samnefnara fyrir mennningu. En á endanum vil ég bara að tillit sé tekið til mín. Ég er bara svona. Einföld, heimsk og sljó. 

Verð ég þannig gestur á tvíæringnum? Sem skilur ekkert veit ekkert og mun ekki gera neinn greinarmun á því sem er gott eða vont. Sem vill bara taka þátt í einhverju sem mér hefur verið talið trú um að sé töff og ég vilji bara tékka í boxið um að vera menningarlega sinnuð. 



Ég verð einmitt að byrja á að segja hvað upplifunin var gersamlega yfirþyrmandi. Ég vissi að ég myndi ganga mig upp að hnjám en ég náði varla að veita því athygli fyrr en ég var komin upp á hóterherbergi. Ég byrjaði á því a fara í garðinn (Giardini) sem var einn og sér mjög fallegur og andrúmsloftið var svo dásamlegt og svo gaman að vera þarna með öllu þessu fólki. Og ég labbaði í gegn um alþjóðlegu sýninguna. Hún er bæði þarna í garðinum og svo í Arsenale hlutanum sem ég heimsótti daginn eftir. Hún kom mér á óvart þrátt fyrir yfirskriftina. Ég hélt ég væri að fara á mun nútímalegri sýningu, en verkin voru mjög mörg eftir látna listamenn. Mér fannst þetta hálfpartinn eins og ég væri að ganga í gegnum argrúa verka sem hafði þann tilgang að “leiðrétta” listasögu 20. aldarinnar.  Mikið var um textílverk og “tvívíð”. Það var mjög gaman að sjá mjög fjölbreytt viðfangsefni oft smá homoerótísk og portret af örðum kynþáttum en hvítum. Minna var um konseptlist en ég átti von á og sýningin í heild meira gamaldags sem skýrist auðvitað af því að líklega helmingur listamannanna dregur ekki andann lengur. Mér þótti sérstaklega gaman að sjá salinn þar sem verkunum var raðað eftir hugmynd Linu Bo Bardi sem sjá má hér fyrir ofan og neðan. 




En það voru skálarnir sem mér þótti skemmtilegast að sjá. Þeir voru ýmist í garðinum og þá í sér húsum, ekki skálar eins og við finnum uppi á heiðum á Íslandi heldur glæsilegar byggingar, eða hluti af Arsenale skemmunni þar sem til dæmis Íslenski skálinn var. Ég ætla ekki að tjá mig frekar um innsetningu Hildigunnar Birgisdóttur That´s a Very Large Number — A Commerzbau. 




Það var í skálunum sem mér fannst sérstaklega verið að reyna að hafa áhrif á mig. Stórar innsetningar með drungalegum hljóðum. Það lá eitthvað í loftinu sem átti að kalla fram ef ekki ótta þá svona smá óþægindatilfinningu. Ég sá ekki Ástralska skálann, sem var verðlaunaður sem sá besti,  því það var svo löng biðröð að ég ætlaði að koma aftur seinna og steingleymdi því svo. 


Tékknenski skálinn bar yfirskriftina The Heart og a Giraffe in Captivity is Twelve Kilos Lighter og þar mátti ganga í gegnum gíraffann sem var bólstraður um innyflin. Japanski skálinn var öllu bjartari en þar kom hljóðið frá rotnandi ávöxtum og dropandi vatnsdropum.




Feneyski skálinn og svo sá Sádi Arabíski voru með stórbrotnum teikningum sem mér fannst verulega fallegar en Manal AlDowayan í Sádi Arabíska skálanum vann líka með tónlist og bar innsetningin yfirskriftina Shifting Sands: A Battlesong. Oft var nefninlega ekki bara unnið með hljóð heldur beinlísnis tónlist. Írski skálinn snérist um óperu og Breski skálinn sem ég verð að segja að hafi verið minn uppáhalds bar yfirskriftina Listening All Night to the Rain




Ítalski skálinn vann þó tónlistarverðlaunin í mínum eyrum en hann bar yfirskriftina To Hear og þar var gengið (meðal annars) í gegnum óvenjulegt pípuorgel og hlustað á tónlist eftir Caterina Barbieri og Kali Malone. Ekki að tólisin hafi verið eitthvað stórkostleg heldur var upplifunin nýstárleg og annarleg og dansaði vel á mörkum tónlistar og innsetningar. 



Skálar Þýskalands og Grikklands vöktu hjá mér strekar heimsendatilfinningar og eru kannski þess vegna sérlega eftirminnilegir. Þýski skálinn var samansettur af mismunandi þemum sem báru yfirskriftina Thersholds. Hugsanir um forgengileika menningar mannkynsins settu ástandið í nútímanum í áríðandi samhengi. Það var líka eitthvað sérstaklega áríðandi við hikstandi  tilburði vökvunarmaskínunar í Gríska skálanum. Vatnið virtist vera af skronum skammti en samt var því illa dreift um sama hringinn. Yfirskrift innsetningarinnar var Dryland sem er einning nafn bæjarins (Xirómero) sem við fáum að fylgjast með í kring. 



John Akomfrah var höfundur innsetningarinnar í Breska skálanum. Vatn rennur eins og tíminn líður í gegnum innsetninguna sem bar nafnið Listening All Night to the Rain. Enn og aftur gengdi hljóð og tónlist miklu hlutverki við að kanna minni og minningar. Kynþátta misrétti og upplifun innflytjenda í heimi sem glímir við loftslagsbreytingar. Videóverk á mörgum skjáum sem runnu saman í skynjuninni. 



Það var því miður ýmislegt sem fór fram hjá mér. Ég lét símann ekki þvælast fyrir mér og þess vegna tók ég tilviljanakenndar myndir. Á þriðja degi í listaþrammi var erfiðara að halda einbeitingunni en mér fannst suðið í hausnum á mér dásamlegt. Eins og það væri búið að fylla á hann. Hann var yfirfullur og langaði ekkert að gera sér upp skoðanir um gott eða slæmt. Fegurð, áhrif, hugmyndir og eitthvað banalt. Gaman að fá að kynnast þessari mennsku. Heyra niðinn og reyna að finna fyrir lífinu í hugum annarra. Búin að tékka í boxið og búa til nýtt box fyrir 2026.





Ummæli

Vinsælar færslur