Peggy Guggenheim

 Fyrir nokkrum árum á erfiðum tíma í lífinu las ég bók Judith Mackrell The Unfinished Palazzo. Bókin er saga þriggja kvenna sem áttu það sameiginlegt að kaupa og búa í sama húsinu í Feneyjum. Palazzo Venier dei Leoni var heimili greifynjunnar Luisu Casati, Doris Castlerosse og Peggy Guggenheim. Þær áttu það líka sameiginlegt að vera ríkar og búa einhleypar í Feneysku höllinni. Þegar ég las bókina fyst heillaðist ég sérstaklega að Luisu og Peggy vegna þess þær fóru sínar eigin leiðir og storkuðu viðteknum venjum. 

Árið 1920 fékk Peggy vinnu í lítilli bókabúð sem hét Sunwise Turn í New York. Þar kynnist hún fólki sem var stolt af sérviskulegum háttum sínum. Þar hitti hún listamenn eins og Elsu von Freytag-Loringhoven og abstrakt list Georgiu O´keeffe. 


Á þessum tíma streymdu ungir listrænir ameríkanar til Evrópu þar sem mátti komast undan vaxandi efnishyggju í bandarískum gildum til lífsviðurværis sem kostaði helmingi minna en í Bandaríkjunum. 

Fyrsti eiginmaður Peggyar og síðar barnsfaðir var listamaðurinn Laurens Vail og þau fóru ástfangin til Parísar. Þau sökktu sér í bóhemíska lífið í París og vöndu komur sínar á Rotonde og og Avant garde næturklúbbinn Boeuf sur le Toit. 




Peggy fylgdi tískunni. Hún varð sér úti um langt og elegant sígarettumunnstykki til að reykja með. Málaði varirnar með vermilion varalit sem bar nafnið Eternal Wound og rakaði af sér augabrúnirnar og teiknaði aðrar örmjóar í staðinn. 


Eftir ferðalag til Ísrael og Egyptalands með Laurens leigðu þau íbúð og Boulevard Saint-Germain rétt við Café de Flore kaffihúsið fræga. Peggy komst að innsta kjarna listalífsins í París. Hún sótti salon samkomur Natalie Barney og Gertrude Stein og Rússnenska ballettinn kendan við Diaghilev. Hún kynntist Man Ray og Nancy Cunard og hélt partý fyrir Isadoru Duncan þar sem gestirnir  voru meðal annars Jean Cocteau, Ernest Hemingway, Ezra Pound, André Gide, Marcel Duchamp og Janet Flanner.  


Peggy klippti hárið á sér stutt eins og var í tísku (bobbed short) og Laurens varð brjálaður. Hann sagði það vera kynæsandi og náttúrulegt að konur væru með sítt hár. 


Peggy og Laurens höfðu ímyndað sér að frelsi og hamingja biðu þeirra í París en þau glímdu við innbyggðan tómleika daganna og tóku frústrasjónirnar út á hvoru öðru. Ekki bætti úr skák að Peggy komst á bragðið með að drekka áfengi sem jók á róstursamleg rifrildi þeirra. Laurens sá ekkert að því að hann gamnaði sér með öðrum konum þó hann héldi hatrömmu eignarhaldi á konu sinni. Ofbeldið og skilnaðurinn vekja ekki áhuga minn, svo ég velti mér ekki upp úr því hér. 


Árið 1928 keypti Peggy villu fyrir vinkonu sína Emmu Goldman að búa í. Hún var alin upp við það að peningunum fylgdu kvaðir um að gefa af sér, láta gott af sér leiða. Emma var 59 ára og hafði barist fyrir femínisma og sósíalisma og heillaðist af lífsvilja Guggenheim og leit hennar að lífsfyllingu. Hugmyndir Emmu um ástina sem heimslulegt rómantískt fangelsi fyrir konur gerðu það að verkum að hún spurði Peggy hvort hún vildi í alvöru lifa lífinu í ofbeldi með Laurens. Peggy var (réttilega) hrædd um að missa forræði fyrir börnunum sínum og hryllti ekki síður við að lifa lífinu karlmannslaus. Það var því ekki fyrr en hún var búin að finna annan karl sem hún hætti sér til að skila við Laurens. 

Þegar það samband hafði líka runnið sitt skeið fór hún til Feneyja árið 1936 til að sleikja sárin. Þá áttaði hún sig loks á því sem Goldman hafði verið að segja við hana. Hún varð að bera ábyrgð á hamingju sinni sjálf. “It never occurd to me before that I could be happy alone”. 



Það var undir áhrifum frelsisins sem hún ákvað að opna gallerí. Hún hafði vit á því að nýta sér samböndin sem hún hafði komið sér upp í París til að fá ráðgjöf og þegar Duchamp fór með hana á vinustofu Jean Arp til að sjá hann vinna féll hún í stafi yfir því að sjá listaverk verða til. Hana langaði samstundis að handleika verkið og varð að eignast það. Guggenheim jeune opnaði í London 24. janúar 1938.  Galleríið vakti athygli og öðlaðist strax sess fyrir framsækni. 

Þrátt fyrir velgengnina í London þurfti frændi hennar Solomon í New York að herða á yfirburðum sínum þegar Peggy bauðst til að selja honum verk eftir Kandinsky sem hún vissi að hann ásældist. Þá fékk hún skilaboð um að Solomon og hans stóra stofnun myndi aldrei eiga viðskipti við “einhverja lita búð”. Peggy ætti að skammast sín fyrir að spyrða Guggenheim nafnið við meðalmennsku og rusl. 


Peggy Guggenheim var auðug og þó hún væri í París þá var hún gyðingur og stríðið hafði strax áhrif á hana og fólkið í kring um hana. Ástarlíf hennar hélt áfram að þvælast fyrir henni þó hún hafi líst því yfir að hún ætlaði ekki að fórna sjálfstæði sínu fyrir kynlíf. Í hremmingum stríðsins keypti hún stærsta hluta listaverkasafn síns. Hún gerði það bæði til að halda lífi í listamönnunum og til að byggja upp safnið sitt en hún hefði aldrei komist yfir öll verkin hefði stríðsástandið ekki rýrt verðgildi þeirra og hert á neyð listamannana. Það er reyndar svo að það var ekki fyrr en eftir heimsstyrjöldina að listaverkasöfnun fór að snúast meira um peninga en listina sjálfa. 


Þegar Hitler nálgaðist Frakkland fór Peggy í “björgunarleiðangur” þar sem hún fór um, oft með ráðgjafa sínum Howard Putzel og reyndi að kaupa eins mörg verk og hún gat. Markmiðið var að kaupa eitt verk á dag. Peggy nýtti líka fjárráð sín til að koma listamönnum í skjól í stríðinu, til dæmis André Breton og fjölskyldu og með henni til New York fóru fyrrverandi eiginmaður hennar Vail oog ástkona, börnin þeirra tvö og Max Ernst. 


Þegar til New York var komið hélt hún áfram að kaupa list og styðja við listamenn. Árið 1942 opnaði hún galleríið Art of This Century á 57 stræti á Manhattan. Peggy átti gríðarlega mikinn þátt í að koma listamönnum New York skólans á framfæri. Peggy var líka óhrædd við að taka sér pláss sem manneskja en ekki vera eingöngu í hlutverki miðaldra konunnar með peningana og í ofnunarhófinu klæddist hún hvítum kjól sem skyldi lítið eftir fyrir ímyndunaraflið og skartaði eyrnalokkum eftir Alexander Calder í öðru eyra og Yves Tanguy í hinu. 

Árið 1943 setti Guggenheim upp sýningu sem bar titilinn “Exhibition by 31 Women” með verkum eftir Leonoru Carrington, Méret Oppenheim og Fridu Khalo. Georgia O´keefe afþakkaði að taka þátt í sýningunni þar sem henni fannst hún hafa þegar hlotið ákveðna viðurkenningu og vildi ekki setja sig niður á meðal kvenlistamanna. 


Á þessum tíma náðu sögusagnir um einkalíf Peggy Guggenheim miklum hæðum. Var frjálslyndi hennar litið hornauga af bandarískum samborgurum hennar og enn meira hneykslan mættu viðhorf hennar þegar hún lét ekki skammast sín. Konur máttu ekki haga sér svona. Til að bæta gráu ofan á svart gaf hún út æviminningar sínar og reyndi að samræma karlrembuna að lífsviðhorfum sínum. Hún barðist klunnalega fyrir tilveru sinni, dóttir hennar átti í miklu vandræðum með sig og árið 1947 fer hún til Ítalíu. Feneyjar höfðu langa sögu og andrúmsloft sem var ódæmandi. Andrúmsloftið var þrungið af dolce far niente og Peggy sá fyrir sér að hún gæti endurskapað lifið eins og hún hafði alltaf viljað hafa það. 



Feneyjar voru í sárum eftir stríðið og húsnæði ódýrt. Peggy tekur þátt í feneyjatvíæringnum sem var endurreistur  eftir stríðsárin og sýndi hún hluta safns síns í Gríska skálanum. Hún keypti Palazzo de Venier á slikk og hóf endurbyggingu árið 1949. Húsið átti að verða heimili hennar og listaverkanna og var það endurskipulagt með það í huga. Hún fékk Alexander Calder til að gera forláta rúmgafl úr silfri og kom fyrir skúlptúrum í garðinum. Á stéttina sem snýr út að kanalnum kom hún fyrir skúlptúr eftir Marino Marini sem ber nafnið The Angel of the City þar sem býsperrt fígúra bíður gestum opinn faðminn á álíka sperrtum hesti og til að kóróna allt skartar fígúran sperrtum lim í þokkabót. Peggy var því ekki lengi að stugga við nýjum nágrönnum sínum en skúptúrinn var þannig útbúinn að hægt er að skrúa liminn af ef von væri á viðkvæmum gestum. 

Peggy kom sér vel fyrir ásamt hundum og málverkum og tók á móti getum og gangandi. Harmurinn lét hana ekki í friði og Pegeen dóttir hennar dó af sjálfsvöldum og ungur ástmaður hennar dó í bílslysi. 


Árið 1959 fór Peggy Manhattan til að vera við opnun á safni frænda síns sem hafði verið teiknað af Frank Lloyd Wright. Henni brá við að sjá breytingarnar á lífinu í Bandaríkjunum þar sem listaverk höfðu hækkað gríðarlega í verði og listaverkakaup voru farin að snúast um að komast undan því að borga skatt. Listasenan hafði með orðum Peggyar “Gone to hell”


Helen Frankenthaler um Peggy í Feneyjum; 

Áhugaverðari (en Tvíæringurinn) er höllin hennar Peggy Guggenheim við kanalinn. Peggy er stórfurðuleg; örlát & sjálfselsk, aðlaðandi & ljót, áhugaverð & leiðinleg. Hún heldur flottustu boðin. 




Peggy fór þó ekki tómhent heim því hún heimsótti vinnustofu Grace Hartigan sem sökum kyns síns hefur verið skrifuð út úr listasögunni en lét þó mikið til sín taka. Verkið Ireland prýddi salon stofu Peggyar í Feneyjum og hangir þar enn. 



Peningar gerðu Peggy Guggenheim kleypt að búa sér til tilveru meðal listaverka og listamanna. En þeir eitruðu líka sambönd hennar við fólkið sem hún elskaði. Bæði Djuna Barnes og Emma Goldman nuru góðs af auðæfum Peggyar og reyndust henni góðir vinir en Peggy átti það til að finnast fólk ekki kunna að meta hana og það sem hún gerði og taka peningana hennar sem sjálfsagða. Stuðningur hennar við Jackson Polloc og Lee Krasner var þeim ómetanlegur en Peggy fannst þau (og fleiri í New York) ekki gefa sér nógu mikið kredit fyrir framlag sitt til listasenunnar og þegar Lee vildi heimsækja Peggy eftir andlát Jacksons snéri Peggy baki við henni. 




Síðustu ár Peggyar opnaði hún heimili sitt fyrir almenningi og vann að varðveislu listaverkasafnsins í framtíðinni. Hún gekk um Feneyjar eins lengi og hún hafði heilsu til. Á endanum lokaði hún sig af í svefnherberginu og las uppáhalds bækurnar sínar og hlustaði á klassíska tónlist. 


Peggy Guggenheim lést árið 1979 og er grafin í garðinum við Palazzo dei Leoni við hlið hundanna sinna. Enn þann dag í dag er hægt að heimsækja safnið og setjast í hásætið í garðinum og ímynda sér smáhundana trítla um. 

Ummæli

Vinsælar færslur