Katla by Genki
Í morgun hlustaði ég á kynningu Ólafs Bjarka Bogasonar á fyrirtækinu Genki. Kynningin var hluti af samstarfi CCP og Rannsóknarmiðstöðvar skapandi greina um samtal í skapandi greinum. Ég hafði ekki kynnt mér fyrirtækið áður en ég mætti á staðinn. Katla er synthesizer eða hljóðgervill sem kynntur var sem fyrsti íslenski syntinn. Eftir að hafa farið í gegnum fyrirhugaða notendur tækisins sem mér heyrðist fyrirlesarinn kalla sugar daddies og átti við miðaldra karlmenn með þykka buddu áttaði ég mig á að það var ekki mjög mikið íslenskt við hljóðgervilinn.
Það vill svo til að í gærkvöld byrjaði ég að endurlesa No Logo frá árinu 1999 eftir Naomi Klein. Þar lýsir Klein því hvernig Bandarísk fyrirtæki fóru alfarið að snúa sér að því að selja vörumerki og hættu að framleiða nokkurn skapaðan hlut. Með því að borga fólki í fjarlægum löndum nánast ekki neitt fyrir að framleiða það sem bandarískum almenningi var selt sem bandarísk vörumerki var hægt að græða á tá og fingri. Þetta er saga sem flest okkar þekkja í dag. Stórfyrirtæki kaupa vörur af öðrum fyrirtækjum sem sjá um að halda starfsfólkinu rétt upp við hungurmörk og fría sig af ábyrgðinni.
Það var sem sagt þegar Ólafur Bjarki fór með okkur á glærunum til Lettlands sem ég áttaði mig á að þar átti hljóðgervillinn raunverulega að vera framleiddur. Þetta er auðvitað alvanalegt en það sem fór fyrir brjóstið á mér var að svo fór hann með okkur til Kína þar sem við sáum fólk við færiband að vinna við einhverja tölvuhluta og hann útskýrði að þarna væri “fólk að vinna fyrir $3 að reyna að vinna sig upp í millistéttina.“
Það er enginn, ekki einu sinni í Kína, að “vinna sig upp” fyrir þrjá dollara. Ég hélt að hann hefði sagt okkur frá þessu vegna þess hann ætlaði að segja okkur svo að Genki ætlaði að borga þessu fólki mannsæmandi laun. Það hefði verið eitthvað til að monta sig af. En áhuga hans á starfsfólkinu lauk við þessa setningu þar sem hann útskýrði aðra mynd á glærunni sem var af stafla brúnrauðum flíkum sem hann sagði að væru jakkar sem þeir keyptu líka í ferðinni. Svo máttu áhorfendur átta sig á að hann var í brúnrauðum jakka. Hvað ætli sumakonurnar hafi fengið á tímann?
Einhverntíma hefðu aðstæður starfsfólksins í Kína alls ekkert verið nefndar í fyrirlestri sem þessum. Þá kunni fólk allavega að skammast sín örlítið.
Það sem er íslenskt við hljóðgervilinn er nafnið og markaðsetningin. Eftir fyrirspurn eftir fyrirlesturinn kom reyndar fram að hljóðheimurinn á að líkja eftir eldgosi en það kom fram í fyrirlestrinum að Ólafi Bjarka finnst að íslendingar eigi að nota veruleika sinn (mig minnir hann hafi orðað það þannig) í nýsköpun. Þá eiga hraunmolar beinlínis að halda tækinu uppi en á myndinni hér má sjá hvernig dökkspreyjað grjót (er ekki viss um þetta sé hraun eða bara líki eftir því) er í forgrunni. Þetta er býsna töff.
Fyrirlesarinn sagði að upp hefði komið sú hugmynd að sannfæra kaupendur um að þeir væru að kaupa "a piece of Iceland". En sagði svo að það væri ekki í farvatninu. Enda Trump aftur orðin forseti BNA og brandarinn um að kaupa lönd svolítið súr orðinn.
Það er vissulega svo að ekkert af vörum margra íslenskra hönnunarfyrirtækja eins og Farmers Market, KronKron og M eru íslensk framleiðsla. Föt Volcano merkisins í Systrum og mökum eru saumuð á Íslandi en efnin eru ekki íslensk. Kannski eru hugsanlega hægt að fá lopapeysu prjónaða úr íslenskri ull af íslenskri prjónamanneskju?
Við sitjum því miður uppi með Bandaríska framleiðslumódelið sem Nike kenndi heiminum. Það er kannski þess vegna sem Ólafur Bjarki sýndi okkur mynd af jakkanum sínum. Hann hefur líklega aldrei komist í þvílíka nálægð við framleiðslu á fötunum sínum og það er merkilegt.
Er ekki kominn tími til að hoppa af Ameríska græðigisvagningum og punda upp íslenska stolið og segja:
"þetta kínverska verkafólk fékk áður borgað þrjá dollara á tímann en fyrir að búa til Kötlu vær það $100 á tímann"
Ummæli