Teresa Esposti & Pupi Solari


Upp á síðkastið hef ég verið að velta fyrir mér nægjusemi. 

Hvað þarf ég að eiga mikið til að geta lifað lífinu sem ég vil lifa? 

Hvað þarf ég mikið pláss? 

Hvernig væri að eiga bara 33 flíkur í fataskápnum? 

Hvers myndi ég sakna ef ég missti allt dótið sem ég á?

Er þetta dót að þjóna mér eða er ég að þjóna því? 

Eru hlutir besta leiðin til að gera heiminn skemmtilegri? 

Það virðist allavega gleðja þessa konu það sem kemur upp úr kassanum. Rödd hennar minnir mig á Línuna og ég er sammála henni um það sem hún segir um fegurð bóka. Það að læra er það sem gerir lífið bærilegt. Konan æpandi á köttinn sinn með rauðan varalit gerði allavega daginn minn skemmtilegri. 


Einhversstaðar las ég að fólk þyrfti bara 7 hluti til að lifa af, það getur ekki verið satt?

Það er nú ekki alveg bara upp á síðkastið sem ég hef verið að velta fyrir mér hlutum, ég á bækur sem heita Consumed (Barber, 2007) og Affluenza (James, 2007) og las mig í gegnum hlass af hamingjurannsóknum sem fjalla um samband mental well-being og veraldlegra gæða (aðallega innkomu). Hún er bara svo vel innprentuð í samtímann sú hugmynd að hlutir og peningar veiti fólki fullnægju. 

Það versta við þetta allt saman er að það er ekki vitað hve mikið er nóg. Manneskjan virðist ekki vera fær um að skynja hvenær hún þarf ekki meira. Svo ég er að reyna að hugleiða það sjálf í mínu eigin lífi hvað þetta nóg er. Spurningin er: "þarf ég þetta?" Og oftar en ekki er svarið: "nei". 

Empire of Things (Trentmann, 2016) fjallar um fæðingu neysluhyggju og þróun neyslu frá 15. öld til þeirrar tuttugustu og fyrstu. Það sem vakti athygli mína sérstaklega við lesturinn er hvað "yfirvöld" voru í upphafi andsnúin velsælda lifnaði og lengi framan af voru alls konar lög um það hvað fólk mátti eiga. Til dæmis voru lög um það í Þýskalandi (minnir mig, eða þar um bil í Evrópu) að brúðhjón mættu ekki fá hnífapör fyrir fleiri en sex manneskjur. Kaþólska kirkjan leit líka mjög niður á auðsöfnun og átti til að mynda Medici-ættin erfitt uppdráttar í fyrstu með að láta berast á. Allur íburður skyldi vera tileinkaður kirkjunni. 

Annað sem vakti athygli mína við lesturinn er hvað þessi saga neysluhyggjunnar er í raun stutt. Árið 1957 náði hlutfall þeirra heimila sem áttu ísskáp í Frakklandi og Bretlandi ekki 5%. Hlutfallið var 27% í Bandaríkjunum á sama tíma. Ferlið sem er að sliga jörðina núna var auðvitað hafið fyrr en það virðist sem svo að neyslustökkbreytingin hafi hafist fyrir alvöru eftir seinni heimsstyrjöldina. Það er ekki lengra síðan en það er nú þegar kominn tími til að vinda ofan af vitleysunni. Það verður ekki sársaukalaust þar sem efnahagskerfi heimsins þarf að blása endalaust út til að standa undir lána- og vaxtakerfinu. En það er ekkert sem stoppar okkur í því að hugsa upp líf sem byggist ekki eins skammarlega á neyslu. 

            ----------------------------------------------------------   

"ég vil frekar vin en tvo vasa"

Pupi segist á þessum tímapunkti í lífinu meta vinskap meira en hluti. Segir hlutina sína vera gjafir frá vinum og það gleðji hana. Hún segist líka vera hrifnari af stórum hlutum en litlum. Það er eitthvað stórkostlega fyndið við það hvað hún er lítið hrifin af litla gula borðinu. Svo enn skondnara þegar þau fara að fjölga sér í kring um hana og hún reynir að gera gott úr öllu með því að skreyta þau með hesti og fílum. Mér finnst guli liturinn svo hressandi, vantar mig ekki eitthvað gult á heimili mitt? 

Þarf ég það? Og þegar ég hef fengið það er það þá nóg? Er guli liturinn nóg til að gera mig glaða? 

 

Ummæli

Vinsælar færslur