Nina Leger - The Collection
Það er ljóst að ég fer ekki til Parísar í ár. Þess vegna var kærkomið að lesa bók Ninu Leger frá árinu 2014 sem heitir á frummálinu Mise en piéces. Hún gerist í París Þó hún gerist aðallega í höfði sögupersónunnar Jeanne sem safnar minningum í höllina sína eins og hún kallar minnisbanka sinn um typpi. Bókin hefur ekki eiginlegan söguþráð og ekki eiginlega sögupersónu heldur. Við fáum aðeins getgátur um aldur og fyrri störf Jeanne en hún flýtur frá okkur í lýsingum sínum af hótelherbergjum og líkamspörtum. Andrúmsloftið er mettað ópersónulegri fróun og þjáningu einsemdar. Textinn er hálfkaraður og hrein unun að lesa milli línanna og týnast í furðulegri nautninni á sama tíma og man upplifir viðbjóð líka.
Bók Leger minnir mig á bækur Houellebecq. Sögupersónur sem eru svo firrtar og úr tengslum við umheiminn að þær geta ekkert annað en smættað samferðafólk sitt niður í kynfæri. Löngu búnar að gefa sig á vald þjáningar og ótta. Fyrir lesanda sem þráir tengsl en er búin að missa trúna á ástina er þetta því bæði nærandi og hrollvekjandi lesning. Er það þá þetta sem þú vilt?
Ég heyrði viðtal við Leger um bókina og viðtökur hennar en hún hlaut Prix Anais nin verðlaunin árið 2019. Hún sagði karla hafa tekið bókinni sérstaklega illa sem kemur kannski ekki á óvart hlutgerfing karla er ekki algeng í bókmenntum og það er ekki ánægjulegt að lesa um kyn sitt hlutgert. Velkomnir í hópinn vinir! Þetta fannst mér þó mjög hressandi og hún segir þetta hafa verið eitt aðalviðfangsefni bókarinnar, að snúa hlutgerfingunni á hvolf. Leger sagði líka að hún hefði ævinlega verið spurð að því atburðir bókarinnar væru sannir og það er eins og það skipti meira máli vegna viðfangsefnisins. Ég skrifaði árið 2012 sögur sem voru allar hreinn uppspuni, enda er það markmiðið með því að skálda ekki satt? Ég kallaði sögurnar Kaffisögur og þær má finna hér á síðunni. Ég var í háskólanum á þessum tíma og skrifaði þar þurran fræðilegan texta og mig langaði að sleppa mér lausri og skrifaði því stuttar ærslafullar lýsingar sem voru sumar svolítið ögrandi líka. Ég geri nú ekki ráð fyrir að margir hafi lesið þetta en margir spurðu hvort þetta væri satt. Fyrrverandi mágkona mín skrifaði mér og fannst þessi skrif mjög ósæmileg vegna strákanna minna og ég fékk óviðeignadi skilaboð frá körlum. Fyrrverandi kærastanum mínum var seinna (2015) svo misboðið að ég neyddist til að eyða þessu af síðunni. Ég skil viðbrögð þeirra allra ef ekki hefði verið um skáldskap að ræða. Ég er líka gröð, tepra með minnimáttarkennd.
Tilfinningin sem bókin kallar helst fram hjá mér er hvað það þarf mikið hugrekki til að elska. Hugrekki til að samþykkja ekki gamlar lummur um ástina og þor til að kanna hana þá á nýjum forsendum. Að taka með alla fordómana, bábiljurnar, sársaukann og vonbrigðin, ásamt von og kærleika. Og trú á að þarna búi undir nýr sannleikur um mannlegt samneyti. Það þarf hugrekki til að búa hann til.
Ummæli