Rachel Cusk - A Life´s Work

A Life´s work - On Becoming a Mother kom út árið 2001. Sama ár og ég eignaðist fyrsta son minn. Því miður las ég hana ekki fyrr en núna eftir að hafa heillast af skáldsögum Rachel Cusk. Það hefði hjálpað mér mikið við að skilja þetta nýja hlutverk sem svo margar okkar takast á við. Og engin þorir að segja satt um.

Bókin byggir á reynslu Cusk við að ganga með og eiga fyrsta barnið sitt. Áður en ég keypti bókina hafði ég heyrt hana tala um viðtökurnar við bókini í viðtölum og kveið því svolítið að lesa hana. Cusk var úhrópuð óhæf, hræðileg móðir sem hataði börn. Ég kveið því að lesa bókin vegna þess að ég vissi eiginlega áður en ég byrjaði hvað ég væri að fara að lesa. Ég á þrjú börn og veit að það má ekki segja sannleikann um móðurhlutverkið. Það að eiga barn rústar líkama þínum og lífi þínu og þú ert hamingjusöm með það. Þú mátt kvarta yfir því að fá ekki að sofa í heilt ár eða meira. Þú mátt kvarta örlítið en að segja að það sé hryllingur er bannað. Þú skalt vera þakklát fyrir að missa gersamlega stjórn á tilveru þinni allri því þetta er besta hlutverkið sem þér býðst.

Cusk skrifar af aðdáunarverðu hugrekki og einlægni þar sem hún hlífir sér ekki og afhjúpar blekkinguna sem mæður lifa í. Ég skil vel að fólk hafi ráðist á hana því hún rífur niður leikmyndina sem búin hefur verið til sem á að hylja baráttuna sem mæður há við það að halda saman lífi sem hefur verið tvístrað. Hún skrifar um það þegar líkami hennar verður allt í einu ekki hennar eigin og hræðsluna við fæðinguna. Segir frá því hvernig bækur sem skrifaðar eru um meðgöngu og fæðingu svara ekki spurningum hennar. Segir frá því hvernig það var að reyna að kynnast dóttur sinni án þess að finnast hún í raun vera aðskilin frá henni. Frá hræðslunni um að eitthvað kæmi fyrir hana. Hvernig hún var gersamlega á valdi lítillar veru sem laut engum lögmálum sem henni voru kunnug. Frá brjóstagjöf, svefnleysi og samviskubiti. Hún lýsir móðurástinni sem hálffullri af kvíða, ábyrgð og stolti og svo fyllt upp með ósveigjanlegri þörf til að vernda og kyssa. Þetta er allavega það sem ég les á milli línanna. En margir lesendur eru greinilega ekki tilbúnir að yfirgefa leikhúsið.

Við lesturinn kom upp í huga mér orð sem ítalski rithöfundurinn Elena Ferrante skrifar um í samnefndri bók, Frantumaglia.

„My mother left me að word in her dialect that she used to describe how she felt when she was racked by contradictory sensations that were tearing her apart. She said that inside her she had a frantumaglia, a jumble of fragments. The frantumaglia depressed her. Sometimes it made her dizzy, sometimes it made her mouth taste like iron. It was the word for a disquiet not otherwise definable, it reffered to a miscellaneous crowd of things in her head, depris in a muddy water of the brain. The frantumaglia was mysterious, it provoked mysterious actions, it was the source of all suffering not traceable to a single obvious cause.“

Cusk segir frá því í bókinni að hún hafi lesið blaðagreinar eftir karla þar sem þeir lýsa í örvæntingu hvernig föðurhlutverkið hafi fjötrað frelsi þeirra og hún stillir þessari grein upp sem andstæðu við bækur um meðgöngu og upplýsingabæklinga til nýbakaðra mæðra. Hún furðar sig á því hvernig þeir leyfa sér að að tala um hlutskipti sitt án þess að hræðast úthróp um vanhæfi og hatur. Hún veltir því líka fyrir sér hvernig Emma Bovary gat sent dóttur sína að sjúga brjóst annarrar konu. Ferrante skrifar líka um móðurhlutverkið í bók Gústafs Flaubert þegar hún trúir ekki að nokkur kona hefði getað skrifað eins og Flaubert skrifar Emmu;

C´est une chose étrange comme cette enfantest laide!

„furðulegt hvað þetta barn er ljótt“ hugsar Emma um dóttur sína. Þegar Berthe skríður í átt að henni og nær taki á svuntuböndunum hennar segir hún: „Láttu mig vera! Láttu mig vera! Ah! Láttu mig vera!“

„Laisse-moi! Laisse-moi! Eh! Laisse-moi donc!“

Báðar gera þær Cusk og Ferrante sér grein fyrir því að mæður mega ekki segja það sem þær hugsa og velta því fyrir sér hvað þær hugsi þá í raun og veru. Ferrante þýðir orð Emmu yfir á ítölsku og mátar þau í munn sinnar móður, comm´é brutta chesta bambina
Þegar ég kalla son minn fallegan sakar hann mig annaðhvort um ég sé að ljúga eða ég sjái bara ekki „raunverulega“ vegna þess að ég er mamma hans. Það er óhugsandi að mér þyki hann ekki fallegur. Ef mér þætti hann ljótur mætti ég aldrei segja það. Vegna þess að ég elska hann mest tekur hann ekki mark á hvað mér finnst. 

Eins og Cusk hef ég velt því fyrir mér hvort leikmyndin hangi nauðsynlega uppi vegna þess að annars myndu konur ekki eignast börn. Ef svo væri myndu þær aldrei eignast annað barn. Það er því óhætt að segja sannleikann. Það er hugsanlegt að með því að segja satt um móðurhlutverkið muni heimurinn fá öðruvísi mæður. Það skapar öryggistilfinningu að fá að lifa í heimi sem tekur mark á því hvernig þú upplifir hann. Þær verða líklega sterkari og örugglega háværari en eins og við erum augljóslega allar sammála um, verða þær enn hálffullar af ósveigjanlegri tilfinningu til að vernda og kyssa.

P.S. Rachel Cusk á tvær dætur.









Ummæli

Vinsælar færslur