Sylvia von Harden - Otto Dix



Þetta málverk eftir þýska málarann Otto Dix heillaði mig fyrst þegar ég sá það í einhverri listaverkabók. Rauði liturinn ljáir því dramatískan blæ og konan í rauðum kjól með rauðan varalit. Hringur á fingri með rauðum steini. Sígarettuboxið hennar rautt og merkt henni svo við eigum að sjá að hún var ekki bara tákn um eitthvað heldur alvöru manneskja. Sylvia von Harden var þýsk blaðakona og myndin er máluð árið 1926 í Berlin. Á millistríðsárunum var mikil ringulreið í Berlin, fyrri heimsstyrjöldin skyldi eftir sig hrylling i hugum málaranna og Dix var hluti af hópi sem notaði listina til að afhjúpa blekkinguna um mannlegt líf sem fallegt og heilbrigt. Listin átti að vera spegill sem sýndi sjúkleika samfélagsins og drægi fram subbuleg lífsmynstur fólks.

von Harden er föl með gular tennur og stórar karlmannlegar hendur og þó hún sé með krosslagða fætur þá glennir hún út fingurna eins og hún ætli sér að krafsa í heiminn með þeim. Hún situr ekki þarna upp á punt og lætur horfa á sig heldur er hún að tala. Það er sársauki í augum hennar svo hún hefur séð eitthvað, hún veit um hvað hún er að tala um. Og mig langar til að hlusta. Einhvers staðar las ég um að krumpaður nælonsokkurinn væri til merkis um misheppnaðan kvenleika en ég sem horfi á úr nútímanum sé bara að henni er slétt sama um krumpaðan sokkinn. Það sést ekki á myndinni en mig grunar jafnvel að hún sé ekki í hælaháum skóm.*

Ég hlakka til að heimsækja von Harden aftur í Pompidou safnið í París. Mig langar að setjast hjá henni og heyra hvað hún hefur að segja. Ímynda mér að ég sitji á fallega útskornum stól og sötri kokkteil. Spyrja hana út í lífið á tímum Weimar-lýðveldisins. Mögulega ræða við hana um hamfarahlýnun eða Covid.



*Flestir kvenskór á þessum tíma voru með hæl, en þó miklu lægri en konum er boðið upp á í dag.






Ummæli

Vinsælar færslur