Ósjálfrátt, Kjarval & Hvítfeld - Kristín Eiríksdóttir og Auður Jónsdóttir


Í dag var haldið upp á 40 ára afmæli Kjarvalstaða og ég notaði mér aðgangseyrisleysið og skoðaði safnið. Frábær sýning í gangi sem breytist stöðugt og þó ég hafi skoðað Kjarvalstaði fyrir örfáum vikum var allt önnur sýning þar núna. Ólafur Gíslason listfræðingur sagði nokkur orð um list Kjarvals sem glöddu mig óendanlega. Hann sagði frá steini í Gálgahrauni sem Kjarval málaði aftur og aftur. Hann sagði hann ekki gera það vegna þess að steinninn hefði einhverja sérstaka merkingu. Hann sagði list Kjarvals ekki snúast um það sem er séð heldur þá veru sem skynjað er með sjóninni. Þannig hættir listin að vera um það sem er sýnilegt og verður um það sem er skynjað og hann skynjar sama steininn alltaf á nýjan hátt og því er hægt að mála hann á marga marga mismunandi vegu. Hann talaði reyndar um „veru“ sem er heimspekilegt orð sem ég skil líkt og skynjun í sálfræði. Skilningur verður til í skynjun.

Svo fer skynjunin í minnið. Eða ekki. Eða hvað? Það verða til sögur. “Svona var þetta. Þetta gerðist svona. Og þá fór/sagði/gerði/fannst/heyrði,,,,,,, ég...“
Við erum svo sjálfhverf. Og á sama tíma trúum við því að allir séu að horfa á okkur,,, en þeir eru bara með nefið í sínu eigin freti.


Hvítfeld Kristínar Eiríksdóttur fjallar um lygi. Eða kannski fjallar hún um sannleika. Um það sem ekki má segja og um það sem má segja. Hún fjallar um sögur sem fólk segir af sjálfu sér. Hér er fjallað um það hvort fólk sögurnar sem það segir af sjálfu sér. Hvort það sé hægt að vera til án þess að hafa sögu. Er hægt að segja sanna sögu? Man hana einhver?
Það er gott að lesa sögu af konu sem greinilega lýgur hverri setningu en á sama tíma vekur það upp spurningar um sannleiksgildi allra annarra setninga. Það er hægt að ljúga sannleika? Það er hægt að skynja lygi sem sannleika. Sannleika sem lygi. Á endanum snýst þetta um að umbera sannleika sem enginn vill trúa. Ég trúi því.

Ólafur Gíslason sagði aðra sögu. Af sér. Og fyrstu minningu hans um Kjarval. Hann var 10 ára. Sko Ólafur. Maðurinn greinilega fullorðinn með harðgerð gleraugu og framstæða ístru. Í snjáðum strigaskóm, ekki til að vera töffari, heldur vegna þess að honum er slétt sama. Hann langaði að segja okkur sögu og alls ekki til að ljúga að okkur.

Hann átti 10 ára afmæli þegar sagan gerðist. Hann hafði fengið fallega rautt hjól í afmælisgjöf og var í hjólatúr en á Sóleyjargötu rak hann augun í helsærðan hrossagauk. Hann leggur frá sér spánýja hjólið og fer að hlúa að fuglinum þegar að kemur leigubíll og út stígur Kjarval. Honum er brugðið þegar hann sér fuglinn og spyr hvað hafi komið fyrir. Strákurinn hefur engin svör um það en Kjarval býður báðum í leigubílinn og segist munu fara með þá á slysavarðstofuna. Á leiðinni býsnast hann. Hann segist ekki botna í þeim sið þjóðarinnar að leggjast í flugvélaförmum í ferðir í sólböð til maljorka. Þá voru nýhafin leiguflug í þessum tilgangi og íslendingar flugu víst í heilu förmunum til sólarinnar, upplýsir sögumaður okkur um. Kjarval segir það væri nær að fylla flugvélar af köttum og senda í burtu til þess að fuglarnir, sem hafa mikið fyrir því að koma til Íslands, gætu notið sumarsins á Íslandi.
Sagan var skemmtilega sögð og það var notalegt að hlusta á hann innan um alla þessa dásamlegu list. Sagan breytti skynjuninni á myndunum. Já, hann Kjarval var svona sniðugur og skondinn stundum. Og svo var hann alltaf að mála sama steininn, ekki til að sýna okkur hann betur og betur, eða búa til fullkomnari mynd af honum, heldur til að sýna okkur mismunandi sýnir á steininn. Segja okkur nýja og nýja sögu. Allar sannar.



Hugsanlega er samt best að trúa því að yfirleitt sé logið að okkur. Það er a.m.k. huggun ef sagan er óhugnanleg. Það var furðulega óþægilegt að lesa sögu Auðar Jóndsóttur um Eyju og hafa það á tilfinningunni að hvert einasta orð væri dagsatt! Engin fegrun á sannleikanum með það í huga að láta hlutina hljóma betur, hlífa viðkvæmum sálum eða sýna persónunum nærgætni. Þetta er samt alls enginn groddaskapur heldur hugrökk einlægni. Það er kannski dónalegt að halda því fram að persónurnar séu svo ljóslifandi að þær geti engan vegin verið uppspunnar. Eða kannski er sagan gott dæmi um það að er oft svo erfitt að horfast í augu við sannleikann að maður þarf að skýla sér bak við skálskap til að þora að segja frá.  




Ummæli

Vinsælar færslur