Undantekningin - Auður Ava Ólafsdóttir



Þetta er önnur bók Auðar Övu um viðbrögð konu við því að maðurinn hennar fer frá henni. Bækurnar eru að sjálfsögðu ekki eins en Undantekningin ber samt örlítið svip Rigningar í nóvember. Ósjálfrátt verða þær bornar saman við lesturinn. Ég man að mér fannst Rigning í nóvember alls ekki ná að sýna nægilega þjáningu við höfnunina. Maðurinn var greinilega hin mesta mannleysa og mér fannst sögunni hálf létt við að hún væri laus úr hjónabandinu. Það er annað með hann Flóka í Undantekningunni. Ég er einhvernvegin líka svolítið skotin í honum þó honum sé ekkert gert hátt undir höfði. Ég hef aftur á móti ekki vitund áhuga á unglingnum í kjallaranum. Nei, hann er víst í næsta húsi. Notaður til að næra hégómann og sýna okkur hvað hún María sé nú eftir allt aðlaðandi. Í kjallaranum býr dvergvaxinn rithöfundur og sálgreinir. Ég hefði miðað við lýsinguna á þessari konu haldið að hún yrði miklu dramatískari í sögunni. En við fáum lítið að skyggnast inn í hennar hugarheim en ég hefði gjarnan viljað að hún hefði verið "opnari" lesandanum. Hún er áhugaverð og fyndin.

Um miðbik bókarinnar fór ægilega í taugarnar á mér hvað börnin voru fyrirferðalítil. Ég á sjálf tvíbura og ég get bara engan vegin séð hvernig hún fór í gegnum tvo sólarhringa án þess að nokkur færi að grenja. Auður Ava hefur gjarnan börn í bókunum sínum og þau eru alltaf svo ótrúlega þæg! Svo varð strákurinn veikur og 'vældi ámátlega'. Ég fann auðvitað til með greyinu og ákvað að hætta þessari tuddamennsku og leyfa bókinni bara vera eins og hún er. Og hún er svakalega vel skrifuð. Dásamelga ótilgerðarlega ljóðræn og með því að gera skáldskap að einu aðalefni bókarinnar opnast gátt fyrir endalausar hugrenningar um fugla án þess að maður fari alveg á límingunum yfir því hvað það gengur nærri því að vera klisja á klisju ofan. Fjaðrafokið allt saman fór svolítið öfugt í mig, eða stóð í mér. Strauk mér öfugt.

„Svanir skilja ekki, en það gerir mannfólkið“

Svo kom í ljós að þeir gera það nú samt. Mér fannst hrafninn í upphafi flott undirbygging um feigð hjónabandsins en svo komu fuglafræðingurinn og tómt hreiður og uglur og voru ekki svölur líka? Örlítið ofhlaðið.
Undir lok bókarinnar var ég algerlega komin á band sögunnar og smjattaði með söknuði á síðustu orðunum. Í skáldskap er allt bæði satt og logið. Afhverju má ekki fegra aðeins í leiðinni?

Ummæli

Vinsælar færslur