Illska - Eiríkur Örn Norðdahl

Undarlegt þetta puð við að treina sér síðustu blaðsíðurnar í skáldsögu. Skólabækur eru kláraðar með glöðu geði en síðustu blaðsíðurnar úr skáldsögu eru skammtaðar og varðaðar með alls konar útúrdúrum... Drekka einn kaffibolla og fara aðeins á Facebook, sofa, klára á morgun, eiga eitthvað aðeins eftir fyrir morgundaginn. -Svo leiðinlegt að þurfa að kveðja persónurnar og sætta sig við það að sagan hættir smám saman að snúast í hausnum á manni.



Það er vissuelga mikið af Illsku í bókinni en ekkert endilega meira en í venjulegum degi. Mér fannst svolítið stuðandi að þurfa að plæja í gegnum þessar óþægilegu staðreyndir um stríð í upphafi. Hafði miklu meiri áhuga á að kynnast persónum Agnesi og Ómari. Ég á svakalega erfitt með stríð, þau eru einhvernvegin bara ofar mínum skilningi og þau fá mig til að líða illa og ég reyni alltaf að slökkva á mér þegar talað er um stríð. Ég hef aldrei skilið áhuga fólks á skriðdrekum. Svo ég svona hálfpartinn ætlaði að komast upp með að lesa bara hálfa bókina. En það auðvitað tókst ekkert á endanum. Það samt snerti mig minna en var undarlegur rammi utan um streðið í Reykjavík. Tengingin við sögupersónurnar er flott en ég er ekki viss um hvaða áhrif það hefur að stilla óhugnaðinum upp mitt á milli sögunnar á Íslandi. Mér finnst það hvorki gera angistina á Íslandi hjákátlega né veita henni meiri dýpt. Kannski hugsanlega gera mann meira dofinn fyrir óskapnaðinum.

Sagan er sögð í litlum brotum sem raðast sitt á hvað og er það listilega gert þannig að alltaf skilst hver er að tala án þess að það trufli nokkuð. Það myndar skemmtilega heild þannig að lesandinn kynnist öllum á þeirra eigin forsendum en samt í belg og biðu. Sérstaklega eru kaflarnir, þar sem barnið talar eða til þess er talað, fallegir inn á milli sögunnar og mynda alveg sérstaka sýn á söguna. Bæði er barnið stærri persóna í bókinni fyrir vikið og svo er þetta frábær meðhöndlun á því hvernig maður gæti hugsað sér að ungabarn sjái heiminn. Fyndið og dásamlegt. Alveg þess virði að lesa alla bókina bara fyrir þennan hluta.

Bókin skilur eftir sig tilfinningu fyrir því hvað það er skelfielga erfitt að elska. Hvað það er skelfilegt að elska. Flestir virðast eyða mestri orku í að fyrirlíta sjálfa sig. Ég held að fólk ætti að reyna að ríða minna og einbeita sér meira að því að finna raunverulega fyrir öðru fólki. Ekki bara velta því fyrir sér hvað því finnist um það sjálft. Það er svo miklu betra að vera „við“ en að vera „ég“. En kannski segir bókin okkur alls ekkert það. Kannski segir hún okkur frekar að hugsanlega er það versta sem við getum gert fólki, er að elska það.

Ummæli

Vinsælar færslur