Volodos á Litahátíð 2012 „Ég man ekki eftir tyggjói eftir hlé“


Það er svolítið skondið að ég skrifa aldrei um tónleika sem sæki. Það er erfitt að skirfa um tónlist á Íslandi þar sem maður þekkir nærri því alla. Nú get ég þó ekki orða bundist, vá, vá hvað það var gaman að hlusta á Volodos! Ég er svo heppin að hafa varla hundsvit á píanóleik svo ég gat bara setið þarna og hlustað á tónlistina án þess að vera að velta mér uppúr pedalnotkun eða vægi vinstri versus hægri handar og hvað það nú er sem píanistar spá í. Tempó, það sem er svo viðkævmt fyrir öllum tímasetningum. Ég var komin þarna í þennan eldrauða sal að hlusta á einmanna flygil á þessu stóra sviði og vonandi fengi ég að heyra eitthvað dásamlegt. Mér fannst efnisskráin vera svolítið eins og hún væri saman sett fyrir píanista. Ég hefði alveg verið til í að heyra eitthvað eftir Ravel, Shostakóvits eða Prókofiev í stað sónötunnar eftir Schubert en það var ágætt að láta hana koma manni í gírinn. Ég lét hugann reika og velti fyrir mér hvort það hefði verið betra að taka stóra blómavasann sem var á sviðinu í burtu. Fannst hann um stund vera skelfilega hallærislegur eins og svona lítið innigos sem maður sér stundum á gamlárskvöld nema bara frosinn og eitthvað svona óþægilega staðsettur fyrir aftan píanistann. Og svona til að halda áfram að vera eins og alvöru gagnrýnandi þá fann sessunautur minn málvillu í efnisskránni og hóst og ræskingar voru gríðarlega áberandi. Ég þori varla að velta því upp hvort það geti verið hún ástsæla Eldborg sem magnar svona upp öndunarfæraskjúkdóma áheyrenda. Ég man varla eftir því að hafa heyrt hóstakjöltur fjarlægs áheyranda svo kristaltært. Þetta er auðvitað merki um afburðagóðan hljómburð.

Ég verð að segja ykkur frá manninum sem fékk sér tyggjó. Ég sat í svona „hliðarsæti“ svo ég hafði einstakt útsýni yfir meðhlustendur mína og þó að ég hefði mjög gaman af því að horfa aftan á stórskorna píanistann og munstrið í klæðningu Eldborgar þá hafði ég gætur á manninum með tyggjóið alla tónleikana. Skrájfið í bréfinu náði líka athygli sessunauta minna svo það var ekki ég sem lét gjörninginn glepja mig. Skjáfið hljómaði gríðarhátt og ég fann að hann hafði ætlað að nota „bara ljúka þessu af“ aðferðina og rífa bréfið hratt og örugglega þó það væri nokkuð áberandi í smá stund. En hann hefur trúlega fundið augu mín og annarra hlustenda á sér því hann hikaði rétt áður en molinn var frjáls úr bréfinu en áttaði sig svo á því að hann gat ekki setið grafkyrr fram að hléi með skrjáfandi bréfið í höndunum svo hann lauk þessu af. Með enn meira skrjáfi. Öll athygli mín var næstu andartök á manninum til að sjá hvort erfiðið við bréfið hefði verið þess virði. Ég man ekki einu sinni í hvaða kafla þetta var. En í stað þess að sjá andlit mannsins ummyndast í alsælu súkkulaðis þá bara tuggði hann þurrkuntulega. Næstum í takt. Og tuggði. Þetta var tyggjó, gat ég uppfrætt sessunauta mína um í hléinu. Ég veit ekki með ykkur en ég læt bjóða mér upp á truflun vegna súkkulaðis en ekki tyggjós. Maður hefur samúð með fólki sem elskar súkkulaði en ekki því sem þarf að fá sér tyggjó á tónleikum eins besta píanista í heiminum...

Mér finnst enn undarlegt að fara á tónleika í þessu húsi. Það er óskaplega fallegt en það er líka eins og maður eigi að vanda sig að vera svaka fínn með sig. Við þann vanda átti Háskólabíó aldrei við að etja. Eftir hlé var svakalega skemmtilegt. Ég hafði svakalega gaman af Lizt og það kom mér í opna skjöldu hvað ég þekkti verkið vel. Ég man eftir því að Víkingur spilaði sónötuna á Einleikaraprófstónleikunum sínum og kona fék NOKIA símhringingu þrisvar sinnum í lok sónötunnar og var nærri drepin af Peter fyrir vankunnáttu sína á símtæki. Hún rústaði tónleikunum, fyrir mér amk, þetta er það sem ég man. Gott að Víkingur hefur margsannað sig eftir þetta. Örugglega verið farið verr með Lizt fyrr og síðar…

Ég gersamlega tapaði mér í tónlistinni. Maðurinn hefði getað fengið sér heilan pakka af tyggjói án þess að ég hefði tekið eftir því. Það góða við að tapa sér í tónlist er að hún er ekki í orðum. Maðurinn var hættur að tyggja. Tónlist er svona eins og blóðið í æðunum á manni og það sem kemur upp í hugann við hlustun er annað hvort órithæft eða skelfilega klisjukennt. Líkamleg upplifun með öllu taugakerfinu. Og ég brosi alltaf. Jafnvel hlæ. Og það gerði ég þarna af mörgum ástæðum. Elsku lesandi ég vildi ég væri að segja þér hárnákvæmt frá því hvernig tempóið flæddi í einhverjum kafla eða ég gæti sagt frá geggjaðri tæknifærni sem kennarinn minn hefði rausað um í mörg ár yfir mér en ég býð ekkert betra en bros og hlátur. Og það segir auðvitað ekki rassgat nema frá því að hægt er að brosa og hlægja yfir tónlist, og að einhver hafi hætt að tyggja tyggjó sem hann kraflaði sárskaukafullt úr pappír fyrir hlé. Kannski hennti hann klessunni í ruslið í hléi til að geta notið hvítvínsins í hléinu. Ég veit ekki. En ég man ekki eftir tyggjói eftir hlé.

Aukalög kalla á heilt blogg fyrir sig. Alltaf eitthvað spennandi við það sem fellur utan rammans. Eru það lögin sem flytjendur langaði að spila? Eru það lögin sem voru ekki nógu vel æfð? Pössuðu ekki inn í mínútufjölann? Voru alltaf til uppfyllingar og í raun ekki neitt neitt, þú spilar það á tónleikum það sem þig langar að spila og hitt er bara drasl…? Það sem þú hefur spilað inn á hlómplötur og alla langar að heyra en þú ert komin með upp í kok á að spila? Eitthvað sem hlustendur elska, „ eitthvað íslenskt“, eða það sem þeir hafa reynt að glamra sjálfir…?

Aukalögin:   

1.Lizt – Nocturne „En rěve“

2. Mompou-Volodos „Solo las flores sobre tí“

3. Lecuone – Volodos : Malagueña

4. Schubert Menuet og trio

sko. Fyrir það fyrsta þá eru aukalög yfirleitt ekki fjögur. Flestir láta að nægja eitt. Þeir sem halda að þeir séu sérlega góðir og elskaðir spila tvö. Þeir sem eru góðir með sig þrjú. En þá sem langar að spila, þeir spila fjögur og ég hef það á tilfinningunni að við hefðum getað fengið fleiri. Og það var sko í aukalögunum sem ég virkilega hugsaði um að hann elskaði tónlist trúlega jafn mikið og ég. Ég veit hann hefur æft sig skrilljón sinnnum meira en ég og lifir lífinu í ferðatösku en maður situr alltaf uppi með hugmyndina um að hann já vilji bara að allir hylli hann af því hann er svo svakalega góður píanisti. En ég held ég hafi fundið fyrir þeim sem ekki er bara svakalega góður píanisti og vill klapp og klapp og lof heldur þann sem elskar tónlist. 


Ummæli

Vinsælar færslur