Forsetakosningar 2012

Á laugardag verður kosið til embættis forseta Íslands. Áhugavert við kosningabaráttuna er að frambjóðendur hafa mismunandi sýn á hvert hlutverk forsetans er og þá greinir á um grundvallaratriði eins og hinn fræga málskotsrétt og hvað þarf að koma til til þess að hann verði nýttur. Ég verð að viðurkenna að allt þetta tal um vald fólksins til að hafa áhrif á forsetann með undirskriftum stuðar mig örlítið. Til þess að safna undirskriftum þarftu að hafa bolmagn til að komast í fjölmiðla og kynna málið, halda utan um batteríið og allt það. Þá er gott að eiga peninga eða hafa aðgang að fjölmiðlum. Þetta er vissuelga vald einhvers fólks en ekki endilega með svo lýðræðislegum stipmli eins og þetta er látið hljóma. Það er í öllu falli bagalegt og bjánalegt að hlutverk embættisins sé ekki skýrt.

Andstæðingar Ólafs Ragnars hafa bent á þátt hans í efnahagshruninu. Það þótti ástæða til að fjalla sérstaklega um hlut forsetans í Rannsóknarskýrslu Alþingis og þar kemur fram að hann átti mikinn þátt í því að móta hugmyndir um afburðafærni íslenskra viðskiptamanna og koma þeim í samband við umheiminn. Hann átti þátt í því að móta orðræðuna sem ef ekki leiddi okkur á villigötur, þá í það minnsta kom í veg fyrir að hægt væri að sjá hvað raunverulega var í gangi. Þetta þykir mér býsna alvarlegt og ef þetta er ekki ástæða til að láta Ólaf Ragnar bera pólitíska ábyrgð á laugardag þá er eitthvað ekki í lagi með lýðræðið.

Í tengslum við lokaverkefnið mitt spurði ég fólk um þátt forsetans í efnahagshruninu. Listinn var lagður fyrir í febrúar 2012. Annars vegar var spurt um störf forseta Íslands og hins vegar um þátt forsetans og þá var honum stillt upp meðal stjórnmálamanna, ústrásarvíkinga, seðlabankastjóra, ríkisstjórna, almennings, fjármálaeftirlitsins og fl. Niðurstöðurnar voru að fólk telur almennt forsetann og störf hans ekki eiga mikinn þátt í efnahagshruninu.

Hve mikinn eða lítinn þátt telur þú að eftirfarandi hafi átt í efnahagshruninu?
Störf forseta Íslands
                                  %
Mjög mikinn þátt     6,0
Frekar mikinn þátt   12,5
Hvorki / né               37,0
Frekar lítinn þátt      25,0
Mjög lítinn þátt        19,6

Hve mikinn eða lítinn þátt áttu eftirfarandi í efnahagshruninu að þínu mati?
Forseti Íslands
                                  %
Mjög mikinn þátt     5,4
Frekar mikinn þátt   18,8
Hvorki / né               40,3
Frekar lítinn þátt      20,04
Mjög lítinn þátt        15,1

Þetta er ekki svo undarlegt þar sem forsetanum er stillt upp meðal útrásarvíkinga, bankastjóra viðskiptabankanna, stjórnmálamanna og fleiri. Áhugavert er samt að þegar spurningar um þátt mismunandi aðila eru þáttagreindar þá hleður þáttur forsetans með þætti almennings, fjölmiðla og starfsfólks banka en ekki með þætti stjórnmálamanna og stofnanna stjórnsýslunnar (stjórnmálamenn, fjármálaeftirlitið, ríkisstjórnin árið 2007 og seðlabankastjórar). (Þáttagreininguna í heild má sjá í lokaverkefninu bls 22-23). Þetta gefur vísbendingu um það að fólk líti á forsetaembættið sem valdalítið í pólitísku samhengi. Það felast samt völd í því að fá að skilgreina samstöðu þjóðarinnar og halda á þjóðarímyndinni í orðræðunni. Ólafur Ragnar leiddi okkur kannski út úr efnahagshruninu en gleymum því ekki að hann leiddi okkur inn í það líka.

Mig langar að hvetja fólk til að leggja þessari rannsókn lið og taka þátt í kosingunum eins og um mörg mismunandi kosningakerfi væri að ræða. Fyrir rannsóknir á lýðræði er afskaplega mikilvægt að gera sér grein fyrir hvaða áhrif kosningakerfi hefur á niðurstöður kosninga. Kjósið hér.

Ummæli

Vinsælar færslur