Small is beautiful, hagfræði eða lúðrasveitir?

Ég hef verið að lesa þá dásamlegustu bók um hagfræði sem ég hef komist í en hún heitir Small is Beautiful: A study of Economics as if People Mattered og er eftir E. F Schumacher. Ég vildi helst pikka upp langar runur af texta upp úr bókinni en það sem er best er að hann skoðar með gagnrýnu hugarfari grunnstoðir hagfræðinnar um mannlegt samfélag.

„Economics is being taught without any awareness of the view of human nature that underlies present-day economic theory. In fact, a view is implicit in their teaching and that nearly all their theories would have to change if that view changed“.*

Ég væri alveg ægilega uppnumin og spennt yfir þessu ef höfundurinn hefði ekki dáið árið sem ég fæddist. Bókin kom fyrst út árið 1973. Schumacher var búinn að skrifa flest það sem ég hugsa um hagfræði áður en ég kom í punginn á pabba mínum. Það dregur verulega úr bjartsýninni á það að nú höfum við dottið niður á eitthvað sem hægt er að byggja á og taka lengra. Þetta er bara gamall sannleikur sem gleður mig svona. Ævaforn.

Annað sem hefur náð huga mínum er þetta myndband með sálfræðingnum, rithöfundinum og fyrirlesaranum Jonathan Haidt. Hann veltir því fyrir sér því sama og heillar mig svo en það er hamingjan,  siðferði, stjórnmál og samfélag. Mig þyrstir í að skoða hvers vegna mannlegt samfélag er eins og það er og hvað það er sem greinir okkur að í pólitískum skoðunum. Hvernig getur það verið að við sem erum öll svona fáránlega eins og kindur í sama farveginum og gersamlega ófær um að horfa sjálfstæðum augum á lífið höfum samt, þegar að er gáð, svo ólíka sýn á grundvallaratriði um mannlegt samfélag eins og stjórmál?

Haidt talar um trú. Hann er að tala um það þegar fólk sameinast um eitthvað sem er stærra og meira en það sjálft og auðvitað er nærtækast að sækja í trúarbrögð. Ef maður hlustar hins vegar á það sem hann er að segja í raun er hann að tala um upplifunina af mannlegum samskiptum og það að gleyma sjálfum sér og útblásna sjálfinu sem vill athygli og aðdáun annarra. Það er a.m.k. það sem ég heyri hann segja. Ég held að hann sé að tala um það að spila í lúðrasveit. Í lúðrasveit er ekki mikil samkeppni en þeim mun meiri gleði yfir sameiningunni í tónlistinni. Það vantar allt yfirlæti í  lúðrasveitartónlist og þess vegna er hún sérlega heppileg til þess að taka á móti fólki sem hefur gaman af því að koma saman og spila til að hafa gaman. Leggja sig fram, æfa sig og sameinast í smá stund.

Hugsanlega er ég komin út á hálan ís. Tónlist er ekki trúarbrögð, tónlist þarf engin brögð til að lokka fólk og dáleiða. Hehe, jebbs kokhreystin uppmáluð. En ég held að hann sé á réttri slóð með það að segja að fólk gangi fyrir upplifuninni með öðru fólki. Hvort sem við viljum gróða eða tónlist þá viljum við vera saman?
*Schumacher. E.F. (2011). Small is beautiful: a study of economics as if people mattered. London: Vintage Books, bls. 73.

Ummæli

Gonzo sagði…
Richard Dawkins um þennan fyrirlestur: "What a maddening, infuriating, enraging talk, a talk as badly misguided as it is well delivered". :-)

Athugasemd hans í heild
hehe, svonasvona, hann þarf nú bara aðeins að læra að sleppa sér; er ekki hægt að kenna honum á lúður?

Vinsælar færslur