Kanill - Sigríður Jónsdóttir



"Ég hef alltaf verið mikið fyrir að klæmast"

Mér þótti afar hressandi að sjá viðtal við Sigríði Jónsdóttur bónda og skáld í Kiljunni á miðvikudag.* Eftir að hafa horft á svona venjulegt intró þar sem farið er út á land og þar er auðvitað rok og snjór og auðn og okkur er sýnt blátt skilti með bæjarnafninu til að halda okkur í. Þá sitjum við í eldhúsi í sveitinni, við sjáum mynd af hvítu bárujárnshúsi (það er ekki með rauðu þaki) og svo alveg nákvæmlega þannig konu sem býr í svona húsi. Það er auðvitað kaffi á borðum en engar kleinur og hún afsakar ekkert krásaleysið heldur segir bara þessa blákalt framan í okkur í kuldanum að hún hafi gaman af því að klæmast. Jebbs, og það var ekkert hægt að sýna Egil vandræðalegan að borða kleinu því það voru engar kleinur. Hér myndi Hallgrímur Helgason ekki stilla sig um að bæta við: "hann fór bara í kleinu í staðinn". Nei, sko ljóðabókin heitir Kanill og titillinn er vísun í ljóðið Innihald í bókinni.** Þetta virðist vera krúttlega tilgerðarlegt þar sem kanill er krydd í tilveruna eins og kynlíf og ég á að vera vonsvikin því þetta er ekki nógu orginal og myndhverfingin klisja. En ég verð að viðurkenna að þetta kitlar mig þar sem ég er alin upp við heilu hlössin af grjónagraut. Skelfilega fegin að hún lét ekki kynlífið vera rúsínurnar. (Ég er nefninlega ekkert fyrir rúsínur í grautinn) Það hefði verið alvöru klisja!? Þess vegna finnst mér þetta frekar vera hreinskilni en klisja. Hafa ekki allir eytt degi í íslenskri sveit með vindinn í eyrunum? Hvernig getur kanill verið klisja í því samhengi?

Það er fer fyrir brjóstið á mér er að hún notar ekki orðið píka. Ég sjálf áttaði mig á því allt of seint um síðir að ég gat með engu móti nefnt kynfæri mín neinu nafni sem aðgreindi þau frá kynfærum karla. Ég hafði talað um klofið á mér eins og hún gerir í bókinni en bæði konur og karlar hafa klof samanber Snöru.is "klyftir, skref, bil milli fótanna (afturfóta á ferfætlingum) efst".

Ég hef líka fengið Skilaboð að handan.*** Ég vil ekki éta upp eftir henni orðin af hræðslu við að brjóta höfundarrétt en hún nær vel að koma orðum að því sem pirrar svona venjulegar stelpur sem þekkja rokið og grasið endalaus boð og bönn.

"Þessir fjötrar
sniðnir af umhyggju og saumaðir af ást
að líkama og sál
áttu að fara mér svo vel.
....
....
...
Ég braust um í haftinu og þetta óþjála efni
fordómar og heimska
sem tilheyrðu öðrum tíma og öðruvísi fólki
hertist að ökklunum
....
...."

Það skaut því skökku við að í viðtalinu sagðist hún ekki lesa ljóð úr bókinni fyrir Egil nema hann giftist henni. Ok,ok,ok það var reyndar fyndið en ég held að ég geti sagt með fullri virðingu fyrir ljóðunum að þau geta verið lesin utan hjónabands. En hugmyndin um að þau væru það ekki var vissulega daðursleg. Eða kannski bara hreinskilin líka?

Kanillinn er kynlíf
sykurinn er ástin
...
...

...
...
Þó eigum við kanil einan á bauk
að grípa til bragðbætis

Þessi kanill verður blandaður sykri.
Þannig er hann bestur.**


*Tilvitnun er eftir minni
**Sigríður Jónsdóttir (2011) Kanill
. Sæmundur bls.7.
*** Sama bls. 14.

Ummæli

Vinsælar færslur