Kýr Stalíns - Sofi Oksanen



Það sem kom oftast upp í huga mér við lestur bókarinnar var hvað heimurinn hennar Önnu er mér framandi. Ef hún gefur raunsanna mynd af lotugræðgi þá áttaði ég mig ekki á því að sjúkdómurinn er ekki síður fíkn í mat en sjúkleg óbeit á líkamanum. Ég viðurkenni að ég get ómögulega skilið hvernig hægt er að láta heiminn snúast í einu og öllu um mat og líkamlega kvöl hans en mér finnst samt eins og sjúkdómurinn hvíli ekki bara á sjálfshatri heldur almennri óbeit á lífinu. Það að langa bara ekkert að vera til. Að langa frekar að hverfa en að elska. Verulega átakanlegt. Ég var svo oft búin að reyna að koma höndunum um örmjóan kroppinn hennar Önnu að ég þarf eiginlega að einhver komi og knúsi mig. Já takk. Þið vitið hvar mig er að finna.

Svo er það Sovétheimurinn og þjóðernisleg skömm, skortur og lygileg sjálfsbjargarviðleitni. Allt þetta er mér framandi. Þó svo að ég hafi alist upp við sögur af moldarkofum og heimóttarlegum tilburðum Íslendinga þá fylgdi sögunni alltaf stolt yfir framförum og baráttu fyrir sjálfstæði og betra lífi. Grundvöllur hugarfarsins var (og er?) að allt muni ávalt verða betra. Framfarir eru alltaf til góðs, næsta kynslóð mun hafa það betra en sú sem nú sest í helgan stein. Við þurfum bara að halda áfram að leggja okkur fram. Það má alveg kvarta og kveina pínulítið en svo þegar viðmælandinn verður þreyttur á barlómnum þarf hann bara að segja eina setningu til að skipta um umræðuefni: "já, já, það er alveg satt, en það er nú stutt síðan við skriðum úr moldarkofunum og sjáðu hvar við stöndum núna". Jebbs, bara nefna moldarkofa og íslendingshjartað slær örar nokkur slög og það er hægt að fara að ræða veðrið.

En sú þjóðarsál sem hefur verið beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi stendur ekki jafn keik og sú íslenska. Fólk sem hefur logið upp á nágranna sína til að halda lífi hefur ekki mikla ástæðu til að treysta og trúa á framfarir og betra líf. Sérstaklega þar sem það hefur líka upplifað skort. Ég man ekki eftir að hafa séð tómt kjötborð og verð öskuill þegar ég finn ekki fagurgrænt og ferskt brokkólí í þeirri búð sem mér hentar að ganga inn í. Og allt þetta tal um raðir og mútur. Það er trúlega ekki skemmandi í sjálfu sér að standa í röð en óttinn um að fá ekki hlýtur að vera nagandi. Að finna hvernig hinir þvælast fyrir manni og hræðast að verða undir í barningnum. Það sem er kannski undarlegra er hvernig við í ofgnóttinni náum samt að verða svona gráðug. Mér finnst alltaf eins og við séum ekki að spyrja réttu spurninganna þegar við tölum um framfarir og bjarta framtíð. Í skortinum er ekkert svo erfitt að skilja að hægt er að skipta á kynlífi og sokkabuxum og svitalyktareyði. En í ofgnóttinni er oft eins og við kærum okkur ekkert um kynlífið og drekkjum okkur frekar í sokkabuxum og svitalyktareyði þó svo að engir fætur séu sokkalausir og enginn sviti til að lykta af. Svo erum við nagandi óhamingjusöm af því okkur vantar svo einhvern að knúsa.

"Mál kvenlíkamans eru jafn mikilvæg og landamæri ríkisins. Nákvæmlega skilgreind og breytingar á þeim þykja alltaf fréttaefni"*

Að skammast sín fyrir hver maður er. Það er hverri manneskju nauðsynlegt að finna til sín. Að finna og vita að hún er verðug fyrir eitthvað og einhvern. Skilgreiningar á verðugleika eru sem betur fer margbreytilegar. En það að upplifa sig sem óverðuga/n getur ekki verið heillavænlegt. Það er erfitt að skammast sín og leyfa einhverjum að knúsa sig á sama tíma.

*Sofi Oksanen (2011) Kýr Stalíns. bls. 170.

Ummæli

Vinsælar færslur