Minningar
Ég hugsa þess vegna er ég sagði Descartes. Hann hefði eiginlega átt að segja ég man þess vegna er ég. Það að finna fyrir vitundinni hugsandi hvílir á því að minnið skrái og haldi til haga tilfinningunni fyrir vitundinni. Þú ert það sem þú manst. Margir tengja minnið fyrst og fremst við það að læra og að muna eftir því að gera eitthvað en það sem heillar mig mest er atburðaminni og æviminningar. Merkingarminni og framlitsminni eru auðvitað mikilvæg í daglegu lífi og fólk hefur stöðugt áhyggjur af því að muna ekki að gera hluti eða hafa ekki nægar upplýsingar í hausnum en atburðaminnið er það sem ræður því hvernig fólk hugsar og hvernig það bregst við í mismunandi aðstæðum. Það skapar reynsluna sem stýrir okkur. Minningar eru líka svo ótrúlega heildstæður tilbúningur hvers og eins. Þær byggja á skapi, tilfinningum og upplifun við skrásetningu og svo hvernig farið er með þær þegar þær eru rifjaðar upp. Þannig breytast minningar við hverja upprifjun.
“Rifjaðu upp!”
það hefur enga merkingu að gefa svona fyrirmæli því það þarf alltaf eitthvert vísbendi til að upprifjun eigi sér stað. Og aðstæðurnar hafa mikið um það að segja hvað er rifjað upp þó vísbendin séu þau sömu. Heitt kakó kallar núna fram minninguna um brennda tungu á jólatónleikum sem ég sótti nokkur ár og eftir að hafa hlýtt á sama prógrammið ár eftir ár fór ég í hléinu og fékk allt of heitt kakó sem brenndi tunguna svo hún var rétt að jafna sig fyrir jólasteikina. Tungubruninn kallaði fram svo ljúfar jólaminningar að ég næstum viljandi varaði mig ekki á kakóinu heita til að halda við hefðinni og auðvitað halda við jólaminningunni. Hugsi ég um heitt kakó í febrúar mun ég hins vegar frekar kalla fram minningar um skjálfandi andartök þeirrar trúar að nú væri þetta allt saman búið því tilfinningin í tánum væri með öllu horfin og því væri nú allt í lagi að stela sér fjórum til fimm auka sykurpúðum í kakóið. Þettta væri hvort eð er það síðasta. Drekka svo nærri allt kakóið undan sykurpúðunum til að eiga þá með síðasta sopanum sem var tekinn þegar ljóst var að tærnar héldu lífi og þar með allur kroppurinn.
“Bíddu, ég kem þér ekki alveg fyrir mig”
úff, eitt það neyðarlegasta sem við lendum í. Það er ófyrirgefanlegt að muna ekki eftir fólki. Það borgar sig því að nota “Bíddu” og bíða eftir fleiri vísbendum til að kalla fram minningu um manneskjuna.
Ef ég rifja upp kórferðalag sem ég fór í þegar ég var 11 ára með nokkrum gömlum kórfélögum berst talið fljótlega að kórferðalaginu með Evróvísjónpartýinu eftirminnilega. Og ég man eftir því að Rikka fótbrotnaði í partýinu og þurfti að fara heim. En annar kórfélagi segir mér að hún hafi fótbrotnað daginn sem við komum og hafi alls ekkert verið í partýinu. Útlistar fyrir mér hvernig Rikka hafi í hamagangi dottið niður nokkur þrep rétt eftir að við vorum kominn á staðinn og grátið þungum tárum vegna sársauka og svekkelsis yfir að þurfa að fara heim. Ég verð því að éta ofan í mig það sem mér finnst ég samt muna svo vel að hún hafi dottið í partýinu og farið heim. Ég man eftir hamagangi og hlaupum og að hafa horft yfir fullt af stelpukollum sem stumruðu yfir slösuðu Rikku sem reyndi allt hvað hún gat að láta karlmannlega mitt í öllu stelpugerinu. Við Rikka vorum ekki bestu vinkonur eins og félagi minn sem rifjar upp með mér svo ég man ekki eftir grátinum þunga sem hún hafði geymt þangað til hún var komin inn á herbergi og beið eftir foreldrum sínum sem komu að sækja hana. Ég man bara eftir svaka hamagangi og hlaupum um langa ganga í ókunnugum skóla úti á landi þar sem var svaka spennandi að hlaupa beint af augum og telja sér trú um að nú væri maður rammvilltur í myrkrinu. Fjörutíu stelpur í myrkvuðum skóla úti á landi sem sungu sig hásar í náttkjólum og ullarsokkum með kroppinn yfirfullan af sælgæti. Kórfélagi minn man vel að tárunum var grátið daginn áður því tónleikadagurinn var svona dagur sem við allar fjörutíu geymdum í höfðinu og rifjuðum oft oft upp. Því það var svo gaman. Fyrir mér rennur þetta allt saman því ég man ekki tárin. Ég sá þau aldrei.
(nújæja, þetta er ekki sönn minning heldur dæmi byggt á tveimur minningum. Annars vegar úr sumarbúðum og hins vegar úr kórferðalagi)
Við erum mjög léleg í að muna tímasetningar. Ég get hugsanlega sagt til um hvaða ár kórferðalagið var vegna þess að ég man hvaða lag var að keppa fyrir Ísland eða ég veit það var annað árið sem ég var í kór en það hleypur enginn í geðshræringu um myrkvaða ganga og skrásetur “vá, ég held að stelpurnar séu að ná mér og ég veit ekkert hvert ég er að fara en ég veit að það er árið 1988 og það er geðveikt stuð!”
Eitt sem ekki er fjallað um í minnisfræðunum er það sem plagar mig gjarnan og það er að fá lag á heilann. Það er ótrúlegt hvað lög og laglínur geta sungið í hausnum heilu og hálfu dagana og ég raula gjarnan og blístra og því get ég hæglega gert sjálfa mig og aðra bilaða. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé einhverskonar bilun í hljóðkerfislykkju vinnsluminnisins? Eða undarleg gerð af þráhyggju? Það liggja víst ekki fyrir neinar rannsóknir á þessu fyrirbæri. Það er í öllu falli verulega óþægilegt að átta sig á því að maður er búinn að syngja hið óvirðulega lag um Bjössa á mjólkurbílnum í tvo sólarhringa. Og líklega með texta og trukki!
Ummæli
Gleðileg jól!