Barry Schwartz
Barry Schwartz ræðir hér í öðrum fyrirlestri sínum á Ted um dygðir og þýðingu þeirra í mannlegu samlífi. Hann bendir á ýmsa vankanta þess að horfa á manneskjuna út frá forsendum hagfæðinnar sem hámarkandi eiginhagsmunaseggi og heldur því fram að með því að treysta fólki aðeins til þess að hugsa um sinn eigin rass og nota reglur og hvata til þess að fá fólk til að geta lifað saman í samfélagi muni aldrei ná farsælli lendingu því það sé ekki hægt að finna réttu reglurnar, gulræturnar og pota með réttu prikunum. Schwartz bendir á gleymdan hæfileika mannskepnunnar til að setja sig inn í aðstæður, draga ályktanir, líta á hagsmuni í stærra samhengi og hafa tilfinningu og þekkingu á réttlæti og réttri breytni.
Í grein skrifaðri til varnar kapítalismanum skrifar Fareed Zakaria fjármálakreppuna að stórum hluta á reikning makróhagfræði, þ.e.a.s. á lága vexti bandaríska seðlabankans og þenslunnar sem þeir ollu. Áhugaverðara er að hann, þrátt fyrir að hafa reynt að horfa fram hjá því, endar á því að segja kreppuna hvíla á siðferðilegum grunni. Hann segir það sem gerðist hafa verið löglegt en siðlaust og segir að bankamenn hafi áður litið á sig sem varðmenn fjármálanna og fundist þeir ættu að fara með fjármuni annarra af ábyrgð. Þeir hafi í seinni tíð beint sjónum sínum einkum að gróða, óvissir um framtíð sína og fyrirtækisins og sagt viðskiptavinum einfaldlega það sem þeir vildu heyra. Hvatakerfi bankanna hafði ekki þau áhrif að bankamenn vildu sérstaklega standa vörð um hagsmuni viðskiptavina heldur voru þeir í stöðugri samkeppni sín á milli um að "selja" sem mesta peninga.
Frægt er dæmið sem fjallað er um í Freakonomics um vanda leikskóla við að fá foreldra til að sækja börnin á réttum tíma en ekki of seint. Þannig var ákveðið að sekta foreldra fyrir að koma of seint og hvetja þá þannig til að virða dagvistunarsamninginn. Það sem gerðist hins vegar að foreldrar juku þessa óæskilegu hegðun sína. Sektin varð þannig til þess að í stað þess að foreldrar reyndu að sækja á réttum tíma eins mögulega og þeir gátu þá litu þeir á sektirnar sem eins konar þjónustu eða gjald fyrir trassaskapinn og höfðu því ekki samviskubit yfir því að vera að skvíkja leikskólakennarana og höfðu því ekki hvata til að standa við sitt.
Jafnvel þegar hvatar virðast virka vel til auka tíðni hegðunar þá draga þeir oft úr henni til lengri tíma litið vegna þess þeir eyðileggja upprunalegu hvatana. Rannsakendur hafa komist að því að hægt er að auka lestur bóka hjá börnum með því að bjóða þeim pítsur í verðlaun fyrir lesturinn. Aftur á móti hætta þau að lesa um leið og pítsa hættir að vera í verðlaun fyrir lestur. Það sem verra er að þegar pítsuverðlaunum sleppir dregur úr lestri bóka hjá þeim börnum sem áður höfðu gaman af því að lesa bækur. Á meðan á pítsuverðlaunaleiknum stendur endurskilgreina lestrarhestarnir ástæðuna fyrir lestrinum (þau gera það til að fá pítsu) og þegar leiknum lýkur hætta þau að lesa því þau hafa ekki lengur upprunalegu ástæðuna fyrir lestrinum (þau hafa gaman af bóklestri)tiltæka. Þetta er kallað overjustification effect og gefur ástæðu til að fara mjög varlega í hvatakerfi sem byggja á verðlaunum fyrir hegðun sem koma hegðuninni sjálfri ekkert við því til lengri tíma litið gæti ekki aðeins dregið úr hegðuninni heldur getur hvatakerfið eytt ánægjunni af hegðuninni sjálfri.
Schwarts vill endurvekja dygðasiðferði Aristótelesar en eitt er víst að ef á að lokka eða lemja fólk til ákveðinnar breytni þá verður að nota annað sjónarhorn en eiginhagsmunasýn hagfræðinnar.
Schwarts vill endurvekja dygðasiðferði Aristótelesar en eitt er víst að ef á að lokka eða lemja fólk til ákveðinnar breytni þá verður að nota annað sjónarhorn en eiginhagsmunasýn hagfræðinnar.
Ummæli