Chris Martenson

Kúrsinn hans er auðvitað ekki yfir gagnrýni hafinn. Martenson er að reyna að koma sínu sjónarhorni á framfæri og er mikið í mun að sannfæra aðra um það sem hann telur sig vera nokkuð viss um að verði framhaldið. Það sem aftur á móti snertir mig er að hann deilir með mér undrun á því hvernig hagkerfi heimsins er byggt upp. Í viðtali hjá Agli Helgasyni lýsir hann því undrandi hvernig peningar verða til í hagkerfinu og segir það ekki vera kennt í háskólum. Ég sat námskeið í hagfræði fyrir stjórnmálafræðinema sem er bara nokkuð venjulegt þjóðhagfræði námskeið með hraðri yfirferð í öðrum atriðum hagfræðinnar mínus útreikingar. Bókin sem var kennd er kennd í hagfræðideild líka, svo og í Háskólanum í Reykjavík og á Bifröst. Þar er peningarmargfaldarinn kenndur eins og hvert annað atriði í hagfræði og þegar ég fletti upp í bókinni minni hafði ég meira að segja skrifað við kaflann "kunna vel" svo kennarinn hefur meira að segja lagt áherslu á að við kynnum þetta. Málið er að enginn gerði neina sérstaka athugasemd við kaflann. Venjulega er talað um að ríkisstjórnir "prenti peninga" (og þær hafa vissulega aðferðir til þess) en þarna í hagfræðibókinni er bara talað um það hvernig peningar verða til í bankakerfinu og svo hvernig seðlabankar geta haft áhrif á peningamagn í umferð með vöxtum. Peningar verða til með lánum.

Hvaðan koma vextir?
Ég spurði hagfræðikennarann um þetta í tíma en hann svaraði mér ekki. Ég man ekki hvort hann röflaði eitthvað um framtíðina en honum fannst þetta greinilega ekki merkilegt umræðuefni og hafði meiri áhuga á að við næðum því örugglega hvernig hin ýmsu líkön virkuðu í hinu svo eftirskóknaverða equilibrium. Vextir eru ávísun á peninga framtíðarinnar. Kerfið er þannig byggt upp að þensla er nauðsyn. Það er ekkert skrýtið við það að trúa á hagvöxt sem hinn eina réttláta veg mannlífsins ef hann er gersamlega nauðsynlegur til þess að kerfið haldist gangandi. Hagkerfi verða að þenjast stöðugt út, það verður að framleiða meira, það verður að lána meira, það verður að búa til stöðugt meiri skuldir til þess að standa undir vöxtunum.

Mér finnst þetta biluð hugmynd! Rétt eins og ég get ekki skilið að það sé góð hugmynd að hafa gjaldmiðla fljótandi. Ég kæri mig bara ekkert um að virði peninganna sem ég vinn mér inn velti á spákaupmennsku einhverra karla úti í heimi. Mér finnst það fáránlegt að virði bankainnistæðunnar minnar minnki vegna þess að tveir karlar "bjuggu til" svakalega mikla peninga með því að selja á milli sín sama flugfélagið. Hlutabréf byggja á sama loftbúskapnum. Hagfræðingar tala um "traust", en þeir meina í raun "trú".

Hannes Hólmsteinn eyðir miklu púðri í að verja einkaeignarréttinn í bók sinni Hvar á maðurinn heima? og þegar hann reynir að sannfæra lesendur um að skattheimta sé í raun þjófnaður þá segir hann félagsfræðinginn Buchanan viðurkenna að félagsleg réttindi séu háð því að fólk sé viljugt til að vinna. Auðvitað sé líka hægt að skylda það til vinnu en það þrælahald brjóti á frelsi fólks. Hannes segir að munurinn á þrælahaldi fyrr á tímum sé að þá hafi það verið áskapað en fólk sem búi í ríki þar sem skattheimta sé stunduð sé þrælahaldið skilorðsbundið. Þannig geti fólk komist undan skattheimtu með því að minnka við sig vinnu. Þá hafa þó verið skert tækifæri þess til að taka þátt í samfélaginu. Hann vitnar að lokum í George Bernhard Shaw þar sem hann á að hafa sagt um framtíðarríkið að þar muni alls engin leti verða leyfð. Allir munu þurfa að leggja sitt af mörkum. Einhvernvegin finnst mér að framríðarríkið sé okkar nútímaríki þar sem fólk þrælar bæði fyrir sköttum og vöxtum, fullkomlega frjálst!?!

Ummæli

Vinsælar færslur