Lýðræðisleg rökræða

A 2006 study by Charles Taber and Milton Lodge at Stony Brook University showed that politically sophisticated thinkers were even less open to new information than less sophisticated types. These people may be factually right about 90 percent of things, but their confidence makes it nearly impossible to correct the 10 percent on which they’re totally wrong. Taber and Lodge found this alarming, because engaged, sophisticated thinkers are “the very folks on whom democratic theory relies most heavily.”

Þessi grein eftir Joe Keohane snertir eitt grundvallaratriðið sem lýðræðið hvílir á. Þar rekur hann niðurstöður rannsókna sem koma heldur illa við þá skoðun að stjórnmál snúist um að fólk meti kosti sem eru í boði og kjósi svo um besta kostinn. Flokkshollusta er skammaryrði sem enginn vill kannast nokkuð við í nútímanum nema helst í tengslum við gamla fólkið sem hugsar ekki upp á eigin spýtur öll mál til hlítar eins og við unga fólkið.Ég skrifaði ritgerð um lýðræðislega rökræðu í vetur og hún kemur nokkuð inn á umræðuefnið



Völd yfir fólki og landsvæðum hafa verið eftirsótt í gegnum söguna. Styr hefur staðið og stendur enn um það hver á að hafa þessi völd, á hvaða forsendum og hvernig valdinu skal vera beitt. Með hugmyndinni um fullvalda ríki, sem er rakin til Vestfalíafriðarins (Peace of Westphalia) árið 1648, urðu til landsvæði sem höfðu viðurkennt vald yfir sjálfum sér (Hague og Harrop 2007, 24). Þá urðu sem sagt til einingar eða landsvæði sem áttu að mynda eina heild, en hvernig áttu þessar einingar að vera skipulagðar? Hver skyldi fara með stjórnina og hvaðan skyldi valdið koma? Árið 1689 kom út ritið Tvær ritgerðir um ríkisvald eftir John Locke. Þar setur hann fram hugmyndir sínar um náttúrulegan rétt manna og samkomulag þeirra um samvist í þjóðfélögum. Hann taldi valdið ekki vera komið frá Guði sem veitir konungi það heldur væri það í höndum einstaklinganna í sameiningu. Vegna þessa gerðu einstaklingarnir með sér sáttmála um skipan valdsins og hann taldi að þá ætti meirihluti einstaklinganna að ráða valdinu. Meirihlutinn skuli hafa úrslitavald um það hvaða fulltrúar skuli fara með valdið (Skribekk og Gilje 1999, 313 og 322-323). Eftir hræringar í gegnum tímann er orðið til nútíma fulltrúalýðræði og lýðræðisleg stjórnskipan. Þó er alls ekki eining um það hvað lýðræðisleg stjórnskipan feli í sér. Jafnvel er tekist á um hvernig skilgreina eigi lýðræði og af hverju það gagnist stjórnskipan vel. Bandaríski stjórnmálafræðingurinn Robert Dahl fellur í flokk þeirra sem telja lýðræði gott vegna þeirra afleiðinga sem það hefur á samfélög. Hann segir lýðræði hjálpa til við að hindra harðstjórn og gera fólki kleift að verja grundvallarhagsmuni sína. Lýðræði tryggi grundvallarréttindi og víðtækt persónufrelsi, stuðli að pólitískum jöfnuði og samábyrgð í siðferðismálum. Það veiti fólki færi á að nýta sér sjálfsákvörðunarrétt sinn og stuðli að mannlegum þroska. Hann segir íbúa lýðræðisríkja búa við meiri velmegun og að lýðræðisríki heyi ekki stríð hvert gegn öðru (Gunnar Helgi Kristinsson 2007, 28). Þá eru það aðrir sem segja lýðræði heppilegt og gott vegna þess að það sé eitthvað í hinu lýðræðislega ferli sem komi samfélögum vel. Þá er það ekki vegna þess að afleiðingarnar séu góðar heldur sé eitthvað gott og réttlátt við ferlið sjálft sama hverjar afleiðingarnar séu. Þá er því gjarnan haldið fram að hið lýðræðislega ferli sé réttlátt og komist að lögmætum sannleika um óskir borgara (Farrelly 2004). Eitt það mikilvægasta í hinu lýðræðislega ferli er rökræða. Rökræða er tæki sem gefur kost á að hugmyndir séu viðraðar og rök sett fram, og þau vegin og metin áður en ákvörðun er tekin. Hér verður lýðræðisleg rökræða skoðuð sem tæki til að komast að góðum niðurstöðum. Hvers má vænta af henni og hvað þarf hið pólitíska samfélag til að uppfylla kröfur hennar.

Rökræða verður strax mikilvægt hugtak þegar fleiri en einn koma að ákvarðanatöku um hvaðeina. Settar eru fram óskir og ástæður þeirra og þær metnar áður en ákvörðun er tekin. Þá má hugsa sér borgara ákveðins samfélags koma saman og taka sameiginlega ákvarðanir líkt og íbúar í fjölbýlishúsi koma saman til að ræða viðhald byggingarinnar. Málin vandast hins vegar mikið þegar um er að ræða stórar einingar. Það er tiltölulega einfalt fyrir íbúa í fjölbýlishúsi að koma því þannig fyrir að allir íbúar hafi tækifæri til að koma sínum óskum og skoðunum á framfæri og þegar þær hafa verið ræddar er hægt að kjósa á milli þeirra kosta sem hafa verið mótaðir í umræðunni. Eftir því sem einingarnar sem málin varða verða stærri og málin sem taka þarf ákvörðun um verða fleiri, flóknari og viðameiri verður erfiðara að halda úti skipulagi sem byggir á fundahaldi allra sem málin varða. Einnig verður líklegra að hagsmunalegur klofningur myndist þar sem ekki allir telji sig hafa sömu hagsmuna að gæta. Rousseau taldi að lýðræði væri einungis mögulegt í litlum einingum vegna þess að einungis þannig væri hægt að greina almannavilja. (Gunnar Helgi Kristinsson 2008, 94 og 101).

Gæði rökræðu
Þýski félagsfræðingurinn Jürgen Habermas leggur áherslu á nauðsyn þess að skapa rökræðu ákjósanleg skilyrði til að sem flest sjónarmið komist á framfæri. Hann segir rökræðuna vera viðkvæma fyrir félagslegum þáttum eins og valdi. Þar sem rökræðan er ferli þar sem ekki einungis eru settar fram skoðanir og þær rökstuddar heldur verður hugmyndin um hvað sé almannaheill til í rökræðunni er mikilvægt að vera á varðbergi gagnvart hinum félagslega veruleika þegar aðstæður rökræðunnar eru mótaðar. Habermas setti fram nokkur grundvallarskilyrði sem rökræða ætti að uppfylla. Í fyrsta lagi að hverjum þeim sem á hlut að máli ætti að vera leyft að taka til máls. Í öðru lagi að hvaðeina megi staðhæfa og að allar fullyrðingar megi draga í efa. Í þriðja lagi að allir megi tjá skoðanir sínar, þarfir og óskir, og að lokum að ekki megi hindra neinn í því að taka þátt í rökræðunni (Farrelly 2004, 145). Steenberg og fleiri hafa sett fram sex forsendur þess að rökræða geti talist vönduð. Þær eru að hún ætti að vera öllum opin og einkennist af einlægni. Að fullyrðingar byggist á rökstuðningi og réttlætingum sem geti talist viðeigandi og þær vísi að einhverju leyti til almannahags. Að þátttakendur sýni hver öðrum virðingu og að minnsta kosti lágmarksviðleitni til að ná skynsamlegri samstöðu. Þarna er komið tæki sem hægt er að nota til að mæla hvort umræða geti talist vönduð (Gunnar Helgi Kristinsson 2008, 100).

Bächtiger, Spöndli, Steenbergen og Steiner notuðu kerfi til innihaldsgreiningar rökræðu sem svipar til forsenda Steenbergs og félaga. Þeir skoðuðu áhrif og hlutverk rökræðu við pólitíska ákvarðanatöku löggjafarsamkunda (e. legislatures) í Sviss, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Bretlandi. Var reynt að greina hvaða áhrif mismunandi skipulag stofnananna hefði á rökræðuna, þ.e. hvaða áhrif þingræði hefði eða forsetaræði, hvort væri munur á gæði rökræða í efri og neðri deild og þar fram eftir götunum. Valdar voru 52 rökræður frá níunda og tíunda áratugnum sem vörðuðu bæði má sem búast mátti við að samstaða væru um og umdeild mál (e. polarized). Notast var við mælingu sem mældi gæði rökræðunnar þar sem ákveðnir þættir voru greindir (Discourse Quality Index). Innihaldsgreiningin var kóðuð eftir því hvort þátttaka var opin og ótrufluð. Hvort réttlætingar byggðu á þróuðum rökstuðningi eða væru ófullnægjandi. Hvort innihald rökstuðnings vísaði til sérhagsmuna eða ekki og á því hvort þeir væru í nytjastefnusamhengi eða réttlætissamhengi. Hvort virðing var borin fyrir hópi og hvort borin var virðing fyrir kröfum annarra. Þá hvort virðing var borin fyrir mótrökum og þau meðtekin og virt eða þau hunsuð og lítið gert úr þeim. Og að lokum hvort haldið var fast í fyrri afstöðu eða miðlunartillaga borin fram. Niðurstöðurnar voru að virðing var viðkvæmust fyrir mismunandi gerð stofnana og því hvað ágreiningur um mál var klofinn. Réttlæting var frekar til staðar þegar þeir sem rökræddu vissu að rökræðan kom fyrir augu almennings og að þá var líka líklegra að vísað væri til almannahags. Það hvort haldið var fast í fyrri afstöðu eða opnað fyrir einhverskonar málamiðlun fór minnst eftir því af hvaða gerð stofnunin var. Fyrir lýðræðislega ákvarðanatöku er þó áhugaverðast að fundið var sterkt samband milli niðurstaða og gæði rökræðunnar að því leyti að niðurstöður voru marktækt oftar samhljóða þegar gæði rökræðunnar voru mikil. Rökræðan hafði því þau áhrif að oftar var hægt að finna lausn sem allir gátu komið sér saman um. Aftur á móti studdu niðurstöðurnar ekki þá hugmynd að góð rökræða leiði frekar til ákvarðana sem einkennist af jafnræði. Þvert á móti voru ákvarðanir sem leiddu til ójafnræðis (e. inegalitarian) líklegri eftir gæðamikla rökræðu. Í heildina tekið var ekki hægt að sýna fram á neitt marktækt samband milli gæða rökræðu og áþreifanlegra áhrifa á niðurstöður (e. substantive decision outcomes). Næðist ekki samstaða um niðurstöðu, réði hið pólitíska vald útkomunni og gæði rökræðunnar hafði ekki áhrif á þá niðurstöðu (Bächtiger o. fl. 2007). Samband lýðræðis við réttlæti hefur verið þeim hugleikið sem vilja binda hinn lýðræðislega veruleika í þann grunn sem allir geta talið réttlátan og þannig komið í veg fyrir harðræði meirihlutans. Margir stjórnmálafræðingar virðast sannfærðir um að einhver þeirra komist að þeim grundvallarviðmiðum um réttlæti sem allir geta sameinast um. Vandkvæðin við þá hugmynd er að þá er vegið að lýðræðinu (Farrelly 2004, 138).

Rökræðulýðræði
Þeir sem hafa talað fyrir rökræðulýðræði (e. deliberative democracy) eiga það sameiginlegt að hafa fært hugmyndina um rökræðu frá því að vera eitthvað sem stjórnmálamenn sem sækjast eftir völdum nota til að öðlast fylgi kjósenda, til þátttakenda í lýðræðissamfélagi í víðum skilningi. Rökræðan á að vera opin öllum á jafnræðisgrundvelli. Þá er litið svo á að venjulegar kosningar þar sem óskir meirihluta ráða niðurstöðu sé ófullkomin leið vegna þess að hún uppfyllir ekki nægjanlega skilyrði um upplýsta þátttöku allra í rökræðunni. Niðurstaðan er bara fengin með því að leggja saman óskir og finna út hvaða óskir hafa flesta fylgismenn en ekki reynt að komast að því hvaða óskir allir geta sameinast um. Kosningar eru því ekki nægjanleg athöfn til að uppfylla þátttöku borgara í lýðræðisskipulagi. Robert Dahl hefur sett fram fimm skilyrði sem ferli ákvarðanatöku verður að uppfylla til að geta talist lýðræðisleg. Þau tvö fyrstu snúa að viðamikilli þátttöku (e. effective participation) og að öll atkvæði vegi jafn þungt (e. equality in voting). Það þriðja er að upplýstum skilningi hafi verið náð (e. gaining enlightened understanding). Í fjórða lagi að ákvarðanatakan hafi áhrif á lokaniðurstöðu (e. exercising final control over the agenda). Og að lokum þurfi að tryggja þátttöku fullorðinna (e. inclusion of adults)( Farrelly 2004, 138). Rökræðulýðræði uppfyllir flest skilyrðin vel en það fjórða vekur upp spurningar um það hversu víðtæk áhrif rökræðurnar eigi að hafa á niðurstöður og hvort lýðræðislegum ákvörðunum þurfi ekki að setja neinar skorður til að tryggja réttlæti og jafnræði. Þar sem ein grunnstoð rökræðulýðræðis er að einungis með réttu ferli verði réttlát niðurstaða fengin er það nauðsynlegt að ferlið hafi lokaáhrif á niðurstöðu. Þó eru ekki allir sannfærðir um að þessu skilyrði ætti að fylgja því ekki er hægt að tryggja að við lokaákvarðanatöku um réttlætismál muni öllum verða gert jafn hátt undir höfði. Borgarar gætu hæglega sett reglur sem koma þeim sjálfum vel en ekki öðrum. Þetta býður því hættunni á lögleiðingu óréttlátra reglna heim. Siðfræðingurinn John Rawls reynir að komast fram hjá þessum vandkvæðum með því að setja fram reglu um frelsi og reglu um jafræði byggða á hugsunartilraun (e. hypothetical). Í ímynduðu hlutleysisástandi þar sem menn væru settir undir huliðsblæju sem gerði þeim ókleift að sjá aðstæður sínar í samfélagi sem þeir sjálfir ættu að eiga þátt í að skapa, myndu þeir vilja tryggja lágmarksréttindi sín. Hann segir að væru menn settir í þær aðstæður að eiga að rökræða og komast að niðurstöðu um grundvallar reglur um samfélag mannanna og ekki hafa hugmynd um hvar þeir myndu lenda í skipulaginu, myndu þeir koma sér saman um reglu um frelsi og reglu um jöfnuð. (Farrelly 2004, 144). Því vilja þeir sem aðhyllast stjórnarskrárbundið lýðræðisskipulag (e. contitutional democrats) takmarkanir á fjórða skilyrði Dahls um áhrif á lokaniðurstöðu. Það er líka augljóst að ef rökræða á að vera opin öllum og á jafnréttisgrundvelli verða að vera til staðar réttindi sem veita borgurum rétt til þátttöku sem ekki er hægt að afnema með niðurstöðu eftir lýðræðislega rökræðu. Það er þó í andstöðu við það grundvallaratriði rökræðulýðræðis sem segir góðar og réttmæta niðurstöðu einungis verða til eftir opna rökræðu. Það myndast því togstreita um það á hvaða grunni hin lýðræðislega rökræða skuli hvíla. Iris Marion Young hefur gagnrýnt þá sem vilja rökræðuna byggða ofan á grunnviðmið samfélagsins á þeim forsendum að þá verði sjónarmið þeirra sem gagnrýna samfélagslega hefð sjálfkrafa útilokuð því þau samræmist ekki hefðbundnum skilningi á samfélaginu. Young vill því víkka út hugmyndina um pólitísk samskipti þannig að ekki verði sjálfsagt að gengið verði út frá sjónarmiðum hins ráðandi hóps og að rökræðan muni ekki gera ráð fyrir því að þegar hinu pólitíska karpi sleppi hafi fólk einhverja sameiginlega sýn á samfélagið sem ekki megi hreyfa við (Farrelly 2004, 149-150).

Eigi ekki að byggja rökræðuna á grunnviðmiðum samfélagsins heldur grafa rætur hennar dýpra má spyrja þeirrar spurningar hvernig það eigi að vera gert? Er mögulegt að fjöldinn geti tekið þátt í lýðræðislegri rökræðu á opinberum vettvangi? Walzer svarar þeirri spurningu hiklaust neitandi. Nánar verður fjallað um hugmyndir fræðimanna um fjöldarökræður hér á eftir en annað vandamál er að það er engin trygging fyrir því að jafnvel þó að rökræður fari fram með hinum ýmsu skilyrðum að nokkur niðurstaða fáist án þess að meirihlutinn hafi sitt fram. Eigi að uppfylla skilyrði um samhljóma niðurstöðu mun trúlega oft engin niðurstaða fást í málum. Þannig mun ákvarðanataka verða gríðarlega hæg og óskilvirk með væntanlega slæmum afleiðingum fyrir samfélagið (Farrelly 2004, 150-152).

Efasemdarmenn
Til eru þeir sem ekki meta lýðræðislega rökræðu mikils og segja hana ekki neinu máli skipta til að halda lýðræðislegu skipulagi. Austuríski hagfræðingurinn Schumpeter hafði áhyggjur af því að kapitalismanum myndi ekki farnast vel með því sem hann kallar klassískt lýðræði; það að framkvæma vilja fólksins. Hann segir allt tal um sameiginlega hagsmuni (e. common good) vera merkingarleysu þar sem bæði óskir og þarfir fólks séu mjög ólíkar og einfaldlega ekki hægt að setja þær saman í eitthvað sem mætti kalla sameiginlega hagsmuni. Hann segir ágreining um þetta valda því að sameiginlegur vilji fólksins sé sama marki brenndur; að vera óskhyggja sem ekki eigi sér stoð í raunveruleikanum. Raunverulega takist pólitískar elítur á um völdin með því að keppast um atkvæði kjósenda. Lýðræði sé aðferð til að koma óhæfum stjórnendum frá völdum. Hann segir kjósendur vera óhæfa til að fjalla um málefni sín og hagsmuni sína. Þeir hlaupi á eftir hvers konar gylliboðum og auðvelt sé að móta skoðanir þeirra með auglýsingum. Rökræða er því eitthvað sem aðeins er á færi sérfræðinga um pólitísk málefni og á ekki erindi við lýðræðið. Það er þó undarlegt hvernig Schumpeter treystir almennum kjósendum samt til að koma í veg fyrir harðstjórn. Hann segir kjósendur ganga í barndóm þegar þeir meta raunverulega hagsmuni sína en samt eiga þeir að geta komið óhæfum stjórnendum frá völdum (Held 2006, 141-149 og Shumpeter 1976, 250-262).

Árið 1964 skrifaði bandaríski sálfræðingurinn Converse grein sem hafði mikil áhrif á viðhorf stjórnmálanna til kjósenda. Hann sagði almenna kjósendur ekki hafa nægilega getu til að halda utan um flókið samansafn hugmynda sem þarf til að geta staðsett sig innan ákveðins skoðanakerfis (e. belief system). Hann talaði því um endalok skoðanakerfa sem klofningsþáttar í stjórnmálum. Hann sagði skoðanakerfi samanstanda af hugmyndum og viðhorfum bundnum saman af einhvers konar innbyrðis samræmi. Tiltekin hugmynd þarf því að hafa áhrif á margar aðrar og breyting á einni staðreynd krefst breytingar á annarri. Converse sagði skoðanakerfin mynduð og mótuð af hámenntuðum sérfræðingum, eða elítu, og berst frá henni til almennings. Með athugunum sínum komst hann að því að þegar skoðanakerfi ferðast niður frá elítunni, minnkar innra samræmi kerfisins og gloppur myndast. Meira samræmi væri í skoðanakerfum þeirra menntuðu og ríku og þeir væru líklegri til að vera íhaldssamir (e. conservative). Þeir verr menntuðu og fátækari ættu frekar að vilja kjósa frjálslynda (e. liberals) þar sem þeir væru líklegri til að standa vörð um hagsuni þeirra verr settu en þeir væru óáreiðanlegur kjósendahópur sökum menntunarleysis. Ennfremur segir hann elítuna gera greinarmun á því að stjórnmálaflokkar setji fram leiðir að markmiðum en í meðförum almennra kjósenda verði stjórnmálaflokkarnir aðal markmiðið í sjálfu sér en ekki einungis tæki til þess að ná þeim. Þannig fari kjósendur að halda með ákveðnum stjórnmálaflokkum sama hvað þeir hafi fram að bjóða (Converse 1964). Converse er því á svipuðum slóðum og Schumpeter þegar hann segir þá minna menntuðu ekki geta varið hagsmuni sína vegna þess hve illa skoðanakerfi þeirra hangir saman. Hann heldur því þó ekki fram að ekki megi upplýsa og fræða kjósendur en ef þeir halda með stjórnmálaflokkum eins og íþróttaliði er ekki mikil von til þess að rökræða megi sín mikils. Árið 2006 skrifar stjórnmálasálfræðingurinn John Jost grein sem andsvar við grein Converse þar sem hann hnykkir á því að spá hans um endalok hugmyndafræðinnar hafi allt annað en ræst, þvert á móti hafi hert á þeim djúpa ágreiningi sem er á milli frjálslyndra og íhaldssamra í Bandaríkjunum. Hann segir Converse hafa skilgreint hugmyndafræði í burtu með því að hafa skilgreininguna of þrönga. Það skipti ekki máli hvort fólk geti tjáð sig um hugmyndir sínar þannig að þær passi inn í ákveðið skoðanakerfi, það er nóg að fólk hafi tilfinningu og trú á því hvar það stendur í pólitík. Þetta styður hann meðal annars með því að það sé sterk fylgni ( r = 0,90 ) á milli þess hvort fólk segist vera frjálslynt eða íhaldssamt og hvort það kýs demókrata eða repúblikana. Hann segir ennfremur að fólk sé fætt með mismikla þörf fyrir öryggi og vissu. Fjöldi rannsókna hefur sýnt að íhaldssamir eru stífari og sýna meiri hugarlokun (e. closed-mindedness) en frjálslyndir. Þeir hafa meiri þörf fyrir röð og reglu, lítið þol gagnvart óvissu og tvíræðni og eru ekki eins opnir fyrir nýrri reynslu og hugmyndum. Þeir eru næmari fyrir ótta. Þó að venjulegt fólk standist ekki ströng próf um notkun hugmyndafræði, þá upplifir það, hugsar og hegðar sér í samræmi við hugmyndafræði (Jost 2006).

Hugmyndafræði og samfélagsgerð
Hugmyndir um hugmyndafræði og hvaða áhrif hún hefur á fólk geta líka haft áhrif á hugmyndir um rökræðu. Amy Gutmann og Dennis Thompson segja skilyrði um hlutlausar aðstæður rökræðu, tilbúna af þeim sem hafa abstrakt hugmyndir um framgang hinnar fullkomnu rökræðu, marklaus. Ómögulegt sé að komast hjá hinu mannlega eðli. Fólk verði ekki óeigingjarnt og upplýst bara við það að vera sagt að leggja hagsmuni sína til hliðar og vera hlutlaust (Held 2006, 241-242). Sýn á mannlegt eðli og tilkomu þess skiptir miklu máli þegar skoðað er hvers má vænta af rökræðu. Ýmislegt bendir til þess að mannlegt eðli sé ekki eins stöðugt og margir vilja trúa. Það er sérstaklega athyglisvert að rannsóknir á hagfræðinemum sýna að þeir nemar sem eru lengra komnir í hagfræðináminu hegða sér frekar í samræmi við forsenduna um eiginhagsmunagæslu en þeir nemar sem styttra eru komnir í náminu (Frank, Gilovich og Regan 1993). Þetta er sérstaklega áhugavert vegna tilhneigingar hagfræðinnar til að líta á eiginhagsmunagæslu sem hluta af hinu áskapaða, mannlega eðli (Mankiw og Taylor 2008). Fólk hegðar sér í samræmi við það sem það telur vera æskilegt og eðlilegt og hugmyndir þess um hvað sé æskilegt og eðlilegt fær það úr umhverfinu. Diego Gambetta fer þá leið að reyna að spá fyrir um afdrif lýðræðislegrar rökræðu með því að greina mismunandi skilning þjóðfélaga á þekkingu. Hann segir samræðuhefðir hvíla á því hvernig fólk öðlast þekkingu og greinir tvær mismunandi hugmyndir um þekkingu. Hann segir hugmyndir sumra þjóðfélaga um þekkingu byggða á því að þekking sé heildræn og samstæð. Þannig tali vitur manneskja af þekkingu um hvaðeina vegna þess að hún hefur viskuna. Komi til þess að sú manneskja viti ekki eitthvað hefur hún tapað viskunni. Þannig er ómögulegt að hafa þekkingu um ákveðin málefni en vita ekkert um önnur, því þekkingin er annaðhvort á öllu eða engu. Hin sýnin á þekkingu byggir á því að þekkingu megi öðlast með reynslu. Með reynslu á ákveðnu sviði má öðlast ákveðna þekkingu en hún nær þó einungis eins langt og reynslan og því er þekkingin brotakennd og óheildstæð. Hafi manneskja þekkingu á einu sviði þýðir það ekki að hún hafi þekkingu á öðru. Þá skiptir máli að þekkinguna megi öðlast með vangaveltum og hugmyndum sem hugsanlega gætu verið rangar. Þekkingin er afsprengi ferlis þar sem fullyrðingar eru metnar og þær studdar eða dregnar í efa. Möguleikar rökræðu til að blómstra eru mun meiri þegar litið er svo á í þjóðfélaginu að þekkingu megi finna með reynslunni. Þegar litið er svo á að þeir sem hafi viskuna taki góðar ákvarðanir um alla hluti, er minni hvati til að leita góðra lausna með samræðu. Í fyrsta lagi hafi fólk tilheigingu til að hafa sterka skoðun á öllum málum og í stað þess að vera tilbúið til að endurskoða hug sinn muni það berjast fyrir fyrri skoðun. Afleiðingin verði eins konar öskurkeppni. Líti fólk svo á að það sé því til minnkunar að skipta um skoðun muni það hvorki virða þá sem það gera né láta slíkt henda það sjálft. Rökræða muni því ekki skila miklu (Gambetta) .

Rökræðusamkundur
Hér á undan var bent á það vandamál sem þeir standa frammi fyrir, sem vilja víkka út þann hóp sem tekur þátt í hinni lýðræðislegu rökræðu. Það getur verið erfitt að halda utan um rökræður íbúa í þokkalegu húsfélagi og að ætla að rökræður geti átt sér stað í stórum þjóðfélögum kann að hljóma eins og staðleysa. Þeir sem aðhyllast rökræðulýðræði eru þó sannfærðir um að rökræðan sé lýðræðinu nauðsynleg og hafa því velt upp hugmyndum um hinar ýmsu stofnanir sem geti þjónað lýðræðislegri rökræðu. James Fiskin hefur meðal annarra talað fyrir einskonar blöndu af skoðanakönnun og rökræðu þar sem fólk er dregið í könnunina af handahófi líkt og í venjulegum skoðanakönnunum (e. deliberative polls). Þá er fólk í upphafi spurt um skoðanir sínar á tilteknum málefnum og svo fer fram opin umræða í einhvern tíma, jafnvel nokkra daga, þar sem fólki gefst kostur á að bera skoðanir sínar saman við skoðanir annarra og ef til vill endurmeta þær. Eftir umræðurnar er svo aftur gerð könnun á skoðunum og niðurstöður kannananna tveggja bornar saman. Fiskin bendir á nokkra lýðræðislega eiginleika þessarar aðferðar sem hann segir ljá henni lýðræðislegt lögmæti sem geti haft áhrif langt út fyrir úrtakið sem tók þátt í rökræðunum. Hann segir að það að úrtakið sé valið með tilviljanakenndri leið endurspegli jafnræði borgaranna þar sem allir hafa jafn mikla möguleika á að vera valdir. Að auki hafi það góð áhrif að fólk sé hvatt til þess að velta skoðunum sínum fyrir sér og skipta þeim út fyrir aðrar standist þær ekki umhugsunina (Held 2006, 246-248). Einnig leggja þeir Fiskin og Acerman til að rökræðukönnunin verði víkkuð út og lagður verði heill dagur undir rökræðuna í öllu þjóðfélaginu (e. deliberative day) (Held 2006, 246-248 og Farrelly 2004, 153-154). Fleiri leiðir hafa verið farnar til að auka áhrif almennra borgara og þar á meðal borgarakviðdómur (e. citizen jurie). Þannig hefur verið leitað álits borgara á ýmsum málefnum, til dæmis forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu, erfðabreyttum matvælum og borgarskipulagi. Álit þetta hefur þó aldrei verið bindandi og það notað einungis til leiðbeiningar, jafnvel þó að niðurstöður hafi sýnt mikinn mun á skoðunum borgara og kosinna fulltrúa. Þá býður internetið upp á mikla möguleika til almennrar borgaralegrar rökræðu og af slíkum tilraunum má til dæmis nefna Dnet í Kaliforníu, E- Democracy í Minesóta og Openemocracy.net í Bretlandi (Held 2006, 248-250). Á Íslandi er einnig vísir að netlýðræðisrökræðum á vef Hugmyndaráðuneytisins (http://www.hugmyndaraduneytid.is/issues). Það er þó ekki í tengslum við stjórnkerfið á Íslandi en þarna er kominn vettvangur fyrir almenning á Íslandi að æfa sig í lýðræðislegri rökræðu. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvernig Íslendingar myndu takast á við opna lýðræðislega rökræðu. Það sem hér er sagt um einkenni Íslendinga er fengið úr skýrslu sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið um ímynd Íslendinga árin 2007 til 2008. Niðurstöður voru unnar með notkun rýnihópa og því alhæfingargildið í raun lítið. Hér verður því að slá marga varnagla. Engu að síður er dregin upp býsna skýr mynd af einkennum Íslendinga í skýrslunni. Íslendingar eru kraftmiklir, frjálslegir, bjartsýnir, nýjungagjarnir, vinnusamir, sjálfbjarga, áræðnir, frekir og djarfir eiginhagsmunaseggir (sem standa með sínum þegar á reynir). Þeir aftur á móti hafa líka tilhneigingu til að vera stressaðir, sjálfumglaðir, frekir, agalausir, hrokafullir og ókurteisir keppendur í lífsgæðakapphlaupinu. Samfélagið var sagt einkennast af hraða með stuttum boðleiðum og jafnframt að Íslendingar tækju þátt í samfélaginu, þeir tækju þátt í ýmiskonar félagsstarfi eins og kórastarfi og færu á kjörstað til að taka þátt í kosningum. Annað einkenni sem kom sterkt fram var áherslan á frelsi í ýmsum myndum og trú á að allt fari vel að lokum; muni reddast. Ef eitthvað er að marka þessa mynd þá eru líkur á því að Íslendingar væru tilbúnir til að taka þátt í rökræðu. Séu þeir nýjungargjarnir, frjálslegir og sjálfbjarga er eins líklegt að þeir tækju breytingunni vel og væru tilbúnir að leggja sitt af mörkum, a.m.k. á meðan hægt væri að halda athygli þeirra. Aftur á móti er ekki góðs að vænta ef neikvæðu eiginleikarnir eru teknir til greina. Frjáls og opin rökræða þrífst ekki vel temji fólk sér frekju, agaleysi, hroka og ókurteisi. Rökræðan þarfnast líka þess að fólk gefi sér tíma til að hugsa um afleiðingar og meta kosti og slíkt fer ekki vel með fljótvirkni og hraða. Annað mikilvægt atriði sem ekki fer vel með hraða og stressi er að rökræða krefst þess að hlustað sé á ýmis sjónarmið. Gutmann og fleiri leggja áherslu á að hið borgaralega samfélag þurfi að vera búið undir að taka þátt í opinberri lýðræðislegri rökræðu (Held 2006, 251-252). Almenningur þarf ekki aðeins að vera upplýstur heldur þarf að vera trú og traust á að rökræða sé einhvers virði fyrir samfélagið. Trúi almenningur því að hið pólitíska vald hvíli í höndum pólitískrar elítu; atvinnustjórnmálamanna sem fyrst og fremst gangi erinda hagsmunahópa, mun hann ekki leggja sig fram um að taka þátt í rökræðu af opnum huga heldur reyna að staðsetja sig meðal einhverra hagsmunahópa. Trúi almenningur ekki að almannavilji sé í raun til mun hann ekki reyna að komast að því hver hann er. Þannig hvíla möguleikar lýðræðislegrar rökræðu ekki einungis á hugmyndum fólks um þekkingu, eins og Gambetta benti á, heldur einnig á hugmyndum þess um vald og pólitískt landslag.

Áhrif hópa á pólitískar skoðanir
Hér á undan var aðeins tæpt á hugmyndum Converse og Jost um áhrif hugmyndafræði á skoðanir fólks og ágreining þeirra um hlutverk hennar við skoðanamyndun fólks eftir stétt. Hugmyndir Converse voru í ætt við hugmyndir Schumpeters um getuleysi almennings en Jost sýndi fram á að hugmyndafræði gegnir miklu hlutverki í skoðanamyndun almennings. En til að rökræða þrífist þarf ekki bara skoðanir og hugmyndafræði heldur getu og vilja til að fara röklega í gegn um mismunandi sjónarmið og vinna úr upplýsingum í röklegu samhengi. Árið 2003 kom út grein Geoffrey L. Cohen um áhrif stjórnmálaflokka á skoðanamyndun. Kenning hans hvílir á þeim grundvelli að hópar skilgreini ekki bara merkingu hins félagslega veruleika heldur byggi fólk sjálfsmynd sína að töluverðu leyti á samsömun við hópa. Í röð af tilraunum var fólki komið í þær aðstæður að stefna hópsins, í þessu tilfelli stjórnmálaflokka, var látin stangast á við viðtekinn skilning á grunnhugmyndum hans. Til dæmis var hópur frjálslyndra látinn lesa stefnuyfirlýsingu sem stangaðist á við hugmyndafræði frjálslyndra, og sagt að hún væri komin frá frjálslyndum. Annar hópur las sömu yfirlýsingu en ekkert sagt til um hvaðan hún kæmi og báðir látnir mynda sér skoðun á stefnunni og segja til um hvort þeir styddu stefnuna eða ekki. Í ljós kom að fólk, eins og Jost spáði fyrir um, myndar sér skoðun eftir því hvernig stefnan samræmist pólitískri hugmyndafræði þess. Ennfremur styður fólk stefnu síns flokks þó hún sé í hróplegu ósamræmi við hugmyndafræði flokksins. Það sem er aftur á móti áhugaverðara er að fólk gerði það ekki í algerri blindni og án hugsunar. Þvert á móti lagði fólk mikið á sig til að finna leið til að samræma stefnuna gildum flokksins og finna henni réttlætingu sem ekki stangaðist á við hugmyndafræðina. Þá kannaðist það ekki við að skoðanir sínar á stefnunni hefðu nokkuð með það að gera að flokkurinn setti hana fram, en gat þó séð að annað fólk gæti hafa myndað skoðun sína vegna flokksins. Það var því tilbúð að sjá áhrif hópþrýstings á aðra, en ekki það sjálft (Choen 2003). Niðurstöður Cohen skýra hugsanlega betur varnarorð Habermas um hinn félagslega veruleika. Þær aftur á móti styðja ekki þá skoðun Schumpeters að almenningur sé ófær um að hugsa um pólitísk málefni. Það væri fróðlegt að vita hvaða áhrif það hefði ef fólk væri sett í sömu aðstæður og í tilraunum Cohens og í stað þess að gefa bara upp sína skoðun, væri það látið ræða um stefnuna við aðra áður en það myndaði sér skoðun. Það eru auðvitað líkur á því að sameiginlega kæmist fólk að sömu niðurstöðu og það gerir í einrúmi en það gæti líka verið að hópurinn stæði vörð um hugmyndafræðina sem sameinar hann og hafnaði stefnunni. Þetta væri hægt að gera innan stjórnmálaflokka og utan og fá þannig mynd af því hvernig klofningsþátturinn hefur áhrif.



Lokaorð
Lýðræðisleg rökræða hefur möguleika á því að hafa áhrif á pólitíska ákvarðanatöku en hún er háð pólitísku valdi og takmörkunum hins félagslega veruleika. Fræðimenn hafa átt í erfiðleikum með að koma rökræðulýðræði á traustan grunn þannig að ekki verði togstreita milli áhrifa rökræðunnar á lokaniðurstöðu og þeirra grunnstoða sem rökræðan þarf að hvíla á til að hún geti uppfyllt skilyrði um frjálsa og opna þátttöku allra. Þó ekki hafi verið hægt að styðja þá skoðun að rökræða leiði til ákvarðana sem einkennast af jafnræði þá kom í ljós að fari rökræða fram fyrir opnum dyrum vísi stjórnmálamenn oftar til almannahagsmuna en þegar rökræðan fer fram fyrir lokuðum dyrum. Góð rökræða stuðlar að meiri samstöðu með ákvörðunum með þeim takmörkunum þó að sé ágreiningur of mikill tekur meirihlutinn ákvörðun án samþykkis minnihlutans. Varast skildi að efast um getu almennings til að hugsa um pólitísk málefni án þess að taka tillit til samfélagsgerðar og hugarfarsins til pólitískrar þátttökku og ákvarðana. Til að skilja betur hvernig almenn rökræða getur stuðlað að betra lýðræðissamfélagi þyrfti að hafa yfirgripsmikla þekkingu á hvernig ákvarðanir eru teknar í hópum og hvernig samfélagsgerð og hugmyndafræði hefur áhrif á vilja og getu almennings til að taka þátt í rökræðu. Stjórnkerfi eru ekki byggð með það í huga að almenningur komi beint að ákvarðanatöku og því ekki fyllilega ljóst hvernig almenn rökræða felllur saman við kerfi sem byggir á hefðbundinni pólitískri valdbeitingu.


Heimildaskrá
Bächtiger o.fl. 2007. Deliberation in Legislatures: Antecents and Outcomes. Í Deliberation and Democracy, ritstj. S. Rosenberg, 82-100. Houndmills: Palgrave.
Cohen, G. 2003. Party over Policy: The dominating impact of group influence og political beliefs. Journal of Personality and Social Phychology 85: 808-822.
Converse, P.E. 1964. The Nature of Belief systems in the mass Publics. Í Ideology and its Discontent, ritstj. Apter, David E. NY: The Free Press.
Farrelly, C. 2004. Deliberative Democracy. Í An Introduction to Contemporary Political Theory, 137-156. London: Sage.
Frank, R., Gilovich, T og Regan, D. 1993. Does studying economics inhibit cooperation? Journal og Economic Perspectives 7: 159-171.
Gambetta. D. “Claro”: An Essay on Discursive Machismo. Í Deliberative Democracy, ritstj. Elster. J, 19-43. Cambridge: CUP.
Gunnar Helgi Kristinsson. 2007. Íslenska stjórnkerfið. 2.útg. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Gunnar Helgi Kristinsson. 2008. Lýðræði. Drög að greiningu. Stjórnmál og stjórnsýsla 4: 89-111.
Hague, Rod og Martin Harrop. 2007. Comparative Government and Politics. 7.útg. New York: Palgrave Macmillan.
Held, David. 2007. Models of Democracy. 3.útg. Camebridge: Polity Press.
Hugmyndaráðuneytið (http://www.hugmyndaraduneytid.is/issues).
Ímynd Íslands: styrkur, staða og stefna. 2008. Skýrsla unnin fyrir forsætisráðuneytið af Capacent Gallup. (http://www.forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/2904). Sótt 27. apríl 2010.
Jost, J. T. 2006. The end of the end of ideology. American Psycologist 61: 651-670
Mankiw, Gregory N. og Mark P. Taylor. 2008. Economics. United Kingdom: South- Westen Cengage Learning.
Schumpeter, J. 1976 [1943]. Capitalism, Socialism and Democracy, kaflar XXI og XXII, 250-283. London: George Allen & Unwin
Skirbekk, Gunnar og Nils Gilje. 1999. Heimspekisaga. Þýð. Stefán Hjörleifsson. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Sorry for my bad english. Thank you so much for your good post. Your post helped me in my college assignment, If you can provide me more details please email me.

Vinsælar færslur