Morgunstund með KK

Það er yndislegt að vera samferða KK í skólann á morgnana. Ég ein í bílnum á leið inn í daginn og kaffið rétt farið að gera galdra sína. Hræringarnar í efnahagslífinu undanfarna mánuði hafa leitt til þess að nær ómögulegt er að slaka á milli fréttatíma en tónlistin sem KK velur er ábyggilega á við hálftíma nudd því hún veldur því að það slaknar á öxlunum og það hvað umferðin gengur hægt hættir alveg að skipta máli. Þátturinn hefst gjarnan á söng Hamrahlíðarkórsins og flakkar svo rólega um landið og út í heim á meðan ég rétt lulla í átt að Háskólanum.

Tónlistin er gjarnan frá miðri 20. öldinni. Tónlistarmenn eins og Vilhjálmur Vilhjálmsson, Erla Sigfúsdóttir, Adda Örnólfs og Ólafur Briem. Einnig spilar KK oft hina ástsælu Spaða sem eru sérstaklega í uppáhaldi þeirrar sem hér skrifar og svo tónlist frá ýmsum heimshornum, til dæmis Finnlandi, Noregi, Portúgal og Bandaríkjunum. Oft er tónlistin þjóðleg, blúsuð eða djössuð en í raun getur hvað sem er skotið upp kollinum. Það sem hún á samt sameiginlegt er að vekja upp eitthvað svona undarlegt æðruleysi.

Tónlistin er stundum með örlitlu suði sem minnir á gamla daga og Bella símamær minnir mig á ömmu og afa í sveitinni. Ég er í slabbinu í Öskjuhlíðinni en í huganum er ég komin út í sveit að vinna með ömmu sem er í grænum stígvélum með rauðan varalit og lúnar hendur. Með KK fer ég svo út með sjó þegar hann spilar íslenska fiskitónlist; Villi Valli spilar vals fyrir Ásgeir sem er rakari á Ísafirði. Ég hef það á tilfinningunni að við Ásgeir tröllum örlítið saman með harmonikkunni áður en við höldum sitt í hvora áttina, ég í kenningar um stjórnskipun og hann á rakarastofuna á Ísafirði. KK lætur upplýsingar um höfunda, flytjendur, upptökutíma og stað fylgja, en líka oft ótrúlega mannlegar upplýsingar eins og um hann Tom Rush sem býr í Bandaríkjunum með konu og börnum og treður enn upp. Og við Ásgeir rakari á Ísafirði nikkum til Toms og fjölskyldunnar hans…

Punktarnir mínir um þáttinn voru skrifaðir áður en KK hélt fyrirlestur og það var hálf óþægilegt að heyra hvað markmiðið með þættinum virðist komast vel til skila. KK sagði Sigrúnu Stefánsdóttur hafa beðið hann um þátt til mótvægis við morgunþrasið. Þátt sem gæfi fólki kost á að komast frá kliðnum. Og það gerir þátturinn vel fyrir mig. Ennfremur lagði KK áherslu á menningarlegt hlutverk tónlistarinnar sagðist vilja tengjast Norðurlöndunum betur og koma á samtali milli þjóða. Þó að við Ásgeir og Tom séum ekki í tölvupóstsambandi þá hefur þátturinn áhrif á tilfinningu mína fyrir fólkinu þarna úti, það eru ekki bara hinir heldur líka við. Tekist hefur verið á um hvort útvarp hafi áhrif með áróðri og ritstýringu. Hér er í það minnsta komið örlítið dæmi um áhrif útvarps sem með því að leiða fólk inn í hugarheim tónlistarinnar snertir innstu eiginleika lífsins sjálfs.

Ummæli

Fjóla Dögg sagði…
Þetta er eini útvarpsþátturinn sem ég hlusta á og ef ég missi af honum þá hlusta ég á hann á netinu í vinnunni. Hann er unaðslegur hreint út sagt.

Vinsælar færslur