Hvert ertu eiginlega að hlaupa?

Mér tókst loksins að lesa What I Talk about when I Talk about Running eftir Murakami. Bókin fór með mér til New York í fyrra en mér tókst aldrei að lesa hana. Kannski hefði ég bara átt að skilja hana eftir þar. Ég hef reynar aldrei skilið fólk sem skilur bækurnar sínar eftir þegar það hefur lesið þær. Ef ég á bækurnar sem ég les þá set ég þær í bókahilluna og hef þær hjá mér þangað til þær verða að fara niður í geymslu því það er allt orðið fullt af bókum. Ég set þær ekki í hendur bara einhvers sem ég hitti og hefur ekki rænu á að afþakka hana. Nei, ég vil hafa þær hjá mér, kannski er ég bara hrædd um að ég gleymi þeim, ég veit ekki. Eða að þetta sé arfleið frá því þegar bækur voru innbundnar og kostuðu formúgu. Nú les enginn innbundnar bækur nema um jólin.

En aftur að Murakami. Bókin er eins konar sjálfsævisaga sem hann kýs að láta hanga saman á þerri iðju sinni að hlaupa. Ég hefði svo sem getað sagt mér það að ég hefði ekki gaman af því að lesa um vegalengdir, hjartslátt, sinadrátt og örmögnun en ég hélt að hann myndi nú gera þetta eitthvað aðeins meira spennandi. Skemmtilegu kaflarnir eru þeir fáu sem fjalla ekki þurrkuntulega um hlaup. Hann segir örlítið frá því hvernig hann skrifar og það fannst mér áhugavert og svo eru svona örfáir skemmtilegir útúrdúrar. Ég varð strax vonsvikin í byrjun bókarinnar þegar hann segist ekki hugsa neitt þegar hann hleypur. Þá vissi ég að ekki var von á góðu. Hann var þó eitthvað að plata þar því hann segir svo aðeins frá því sem hann hugsaði einhversstaðar á köldum morgni í Boston með harðsperrur og blablabla...

Það versta er að hann hljómar ekki mjög skemmtilega. Hann er trúlega frekar einfaldur og óáhugaverður maður. Ég heyrði eitt sinn útvarpsþætti um William Faulkner sem Eiríkur Guðmundsson gerði og ég fékk svakalega löngun til að hitta Faulkner. Auðvitað var bara í boði að lesa bækurnar hans en ég er viss um að hefði hann skrifað bók um hlaup hefði hún verið miklu skemmtilegri. Ástríðufyllri. Reyndar grunar mig að Eirkíkur Guðmundsson gæti líka skrifað ástríðufullabók um hvað sem er, en ég hef ekki lesið það sem hann hefur skrifað. Bara heyrt það í útvarpinu. Hann kemst ekki á leslistann minn að þessu sinni því ég var að byrja á skáldsögu sem er tæpar sexhundruð blaðsíður, og þetta segi ég eins og ég sé að halda fram hjá, því óskáldaði leslistinn er svo óviðráðanlega langur að ég bara verð að fá breik!

Mér finnst alveg dásamlegt að vera komin inn á sóðalega búllu í Mexíkó og enginn er að reyna að sannfæra mig um neitt, enginn að færa rök fyrir einu eða neinu. Ég er bara að fylgjast með stráklingum sem einhverntíma fyrir löngu, með byltinguna hangandi yfir sér, að rífast stórkarlalega um skáldskap. Af hita eins og að heimurinn hangi uppi á skáldskap og hugmyndum en ekki hagvexti og framleiðni. Klíkan þeirra er kennd við innyfli og realisma og þeir ætla sér að breyta heiminum með ljóðum. En eftir þær þrjátíu blaðsíður sem ég hef lesið hafa þeir í raun bara drukkið kaffi, bjór, tekíla, og runkað sér. Hvursu safarík sem Rannsóknarskýrslan er þá runkar sér enginn þar. Já ég veit, ég var óeðlilega glöð þegar strákfíflið runkaði sér yfir ljóðinu. Ég kenni skólabókum og fræðigreinum um. Þið svo bara dæmið mig eins og ykkur lystir.

Sannleikurinn er sá að núna þegar ég er búin að skrifa þetta er ég að fara í World Class. Og ég er ekki einu sinni að fara að hlaupa heldur að skíða. Ég er svo hrædd um að skemma hnén á mér! Svo ég skil Murakami voða vel þegar hann röflar um það að hlaupin haldi honum í fromi og séu mótvægið við kyrrsetuna. Við Murakami erum bara að gera eins og allt annað venjulegt fólk gerir. Ég velti því samt fyrir mér hvort honum finnist stundum líka hann vera að lifa lífi sem einhver annar ákvað að yrði leiðinlegasta skáldsaga sem nokkur gæti skrifað. Hann skrifaði jú bók þar sem persónan er lokuð ofan í brunni mörg hundruð blaðsíður. Kannski væri bara gaman að fara út að hlaupa með Murakami. Ef ég hefði hnén í það...

Ummæli

Vinsælar færslur