Borgarættin

Þáttur Sigríðar Pétursdóttur um sýningu á myndinni Borgarættin í Austurbæjarbíói á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík árið 2008 var um margt sérstakur enda verkefnið sérstakt. Hljómsveitin Hjaltalín hafði tekið að sér það verkefni að semja tónlist við helming þessarar fjögurra tíma löngu myndar sem var sýnd á Íslandi árið 1921 í tveimur hlutum. Myndin var ekki bara unnin upp úr skáldsögu Gunnars Gunnarssonar heldur var þetta fyrsta myndin sem var tekin upp á Íslandi.

Í þættinum er fléttað saman umfjöllun um söguna af Borgarættinni, viðtali við Högna Egilsson söngvara Hjaltalín um tónlistina og vinnuferlið og svo sögunni af gerð myndarinnar. Límið í þættinum er tónlistin sem Hjaltalín gerði fyrir myndina. Í fyrra skiptið sem ég hlustaði á þáttinn fór ég í göngutúr um Sjálandið í Garðabæ og upplifunin var býsna skemmtileg. Þá kölluðust á ýmsar andstæður eins og hrikalega fallegur sjórinn og skýin og svo stílhreina, nútímalega og glæsibifreiðum skreytta góðærishverfið. Hjaltalín hafði ráðist í það stórverkefni að semja tónlist við stórmynd sem enginn hefur áhuga á lengur og eyða ómældum tíma í aðeins eina kvöldstund fyrir “örfáar” hræður og stórtækir verktakar höfðu byggt glæsihús næstum ofan í sjóinn. Þetta minnti mig eitthvað á bilunina í góðærinu. Í bakgrunninum er svo þessi dramatíska saga með ástríðum, átthagafjötrum, svikum, ástum, angist og dauða. Og svo til að kóróna allt saman eru lýsingar Jóns Ingva á frumstæðum aðstæðum kvikmyndagerðarfólksins og fordómum Gunnars Sommerfelt leikstjóra myndarinnar fyrir Íslendingum.

Ég veit vel að þátturinn sjálfur kallaði ekki beint á upplifun mína af óðagoti, risi og falli íslensku þjóðarinnar en það eru einmitt töfrar útvarpsins sem geta skapað marglaga upplifun. Á fimmtíu mínútum var ég búin að heyra fjórar sögur. Söguna af sýningu þöglu myndarinnar í Austurbæjarbíói, sögu Gunnars Gunnarssonar af Borgarættinni, sögu Högna Egilssonar af tónlistargerðinni við myndina og sögu Jóns Ingva af gerð myndarinnar og viðtökum hennar. Í ofanálag var ég búin í gegn um mína túlkun og skynjun að bæta við allar þessar sögur slatta af skýjum, húsum, sjó, sögum úr öðrum skáldsögum sem ég hef lesið, tilfinningunni að vera að fara til lands þar sem búa barbarar og tilfinningunni fyrir því hvað fólk er alltaf bara fólk og kemst ekki hjá því.

Ummæli

Vinsælar færslur