Kaupthinking

Soloman Asch og Irving Janis fengust við rannsóknir á möguleikum einstaklinga til að hafa áhrif innan hóps og hvernig hópur getur haft áhrif á getu einstaklinga til að fylgja eigin sannfæringu.
Asch gerði frægar tilraunir þar sem hann fékk viðföng til að bera saman lengd lína.



Asch komst að því að stór hluti fólks sem stóð í þeim sporum að þurfa að velja milli þess að fylgja vali hópsins eða eigin sannfæringu, fylgdi frekar hópnum. Jafnvel þó hópurinn hefði augljóslega rangt fyrir sér. Það má því segja að fólk tekur ekki þá ákvörðun að standa með eigin sannfæringu og þar með rengja niðurstöður hópsins jafnvel þó hann samanstandi af ókunnu fólki. Hvað gerist þá þegar einstaklingar standa frammi fyrir því að þurfa að segja skoðanir sínar frammi fyrir einstaklingum sem þeir líta upp til, t.d. kennara eða yfirmanna?
Groupthink


Janis lýsir því sem svo að þegar hópur einstaklinga sem hafa svipaða sýn og koma úr svipuðu umhverfi, kemur saman að ákvörðunum, er eins og þankagangur hópsins taki sjálfur stjórnina og hópmeðlimir missi þá hæfileikann til að meta aðstæðurnar rétt. Janis setur þetta fram þannig að þessir einstaklingar séu fórnarlömb hópþrýstings og dregur fram hvernig ákvarðanir sem teknar eru í hóp, geta haft skelfilegar afleiðingar.
Janis heldur því fram að hópar með eftirfarandi einkenni séu líklegir til að falla í gryfju hóphugsunar:
• Hópurinn kærir sig ekki um utanaðkomandi ráðleggingar.
• Hópurinn er undir ákveðnum og skoðanasterkum leiðtoga.
• Vöntun á kerfisbundnum vinnuferlum.
• Meðlimir hópsins eru með svipaðan bakgrunn og áþekka hugsun.
• Stöðugt álag hvílir á hópnum.
• Tímabundið lágt sjálfstraust.
Hópar með þessi einkenni geta dottið í það ferli að sjá ekki eigin veikleika, hópmeðlimir draga úr aðvörunarorðum annarra og endurmeta ekki forsendurnar sem þeir gefa sér. Þeir trúa því að þeir séu að fara siðferðislega réttar leiðir og sjá ekki siðferðislegar afleiðingar gjörða sinna. Ímynd þeirra sem ekki eru í hópnum er máluð dökkum litum. Meðlimir hópsins eru undir þrýstingi að standa með hugmyndum hópsins og hætta því að orða þann efa sem þeir kunna að hafa um ákvarðanir hópsins. Því lítur hópurinn út fyrir að standa saman að ákvörðunum einróma þó í raun efist einstaka meðlimir hópsins. Þá taka sumir að sér, af sjálfsdáðum, það hlutverk að verja hugmyndir hópsins og leiðtoga hans út á við.
Þegar bankarnir komust í einkaeign þá komu inn í bankann leiðtogar og starfsmenn, sem höfðu allt aðra sýn á rekstur bankans en áður hafði verið. Bankarnir áttu að vera reknir með það fyrir augum fyrst og fremst að græða peninga. Her nýútskrifaðra viðskiptafræðinga voru ráðnir inn í hinar ýmsu stöður til að uppfylla gróðamarkmið bankanna undir gríðarlegu álagi. Það var tröllatrú á að þessar nýju aðferðir myndu virka og miklar áhættur voru teknar. Atgervi og snilli stjórnenda bankanna var hafin upp til skýjanna. Þær efasemdaraddir sem heyrðust voru hafðar að engu og sölumennska var aðalatriðið. Kjarni vinnuferlanna var sá að í viðskiptum væri í raun ekkert ómögulegt, allt sem væri hægt að hugsa sér að gera væri hægt að gera. Og að þarna væri kominn hópur sem hefði einstaklega mikla hæfni til að hugsa og framkvæma.



Gróðasiðferðið var fengið að láni frá frægum viðskiptaháskólum og samanstóð af þeirri grunnreglu að tilgangur viðskipta væri að hámarka hagnað eigenda fyrirtækja næstum óháð því hvaða aðrar afleiðingar þau hefðu. Þannig voru starfsmenn brottrækir hefðu þeir önnur sjónarmið en þau sem augljóslega væru gróðavænleg. Þetta var byggt á blöndu af hugmyndum um markaðsumhverfið þar sem slæm fyrirtæki verða gjaldþrota en góð fyrirtæki lifa af og einhverskonar félagslegum Darwinisma (hugsanlega hægt að rekja til óþekktari forvera hans Herberts Spencer). Ákvarðanir starfsmanna og stjórna eru því aðeins góðar að þær skapi hagnað fyrir eigendurna. Svo var þeim starfsmönnum sem stóðu sig vel umbunað með bónusum sem enginn vildi missa og því voru þeir undir álagi að halda áfram án þess að skoða nokkrar forsendur gjörða sinna. Það var því þrátt fyrir fjöldamargar viðvaranir að bankakerfið var keyrt í kaf á fullri ferð. Í heimatilbúnum björgunaraðgerðum voru bankareikningar boðnir til útlána í útlöndum og það látið í veðri vaka að íslenskur innistæðutryggingasjóður stæði bak við þá.
Þegar fella á víðfeðma og flókna atburði inn í einfalt skema þá gerist það sjálfkrafa að það sem fellur að skemanu er tekið fram en litið fram hjá því sem ekki passar eins vel. Til að mynda passar forsenda Janis um tímabundið lágt sjálfstraust ekki við bankahrunið. Þvert á móti virðist sem sjálfstraust þessara manna hafi verið mikið, kannski of mikið? Einnig er það auðvitað skýring á hegðun bankastjóranna rétt fyrir hrunið að þeir vissu að segðu þeir sannleikann myndi það að öllum líkindum hafa þau áhrif að hrunið hefði gerst fyrr. Það breytir þó ekki því hvernig bankakerfið hafði verið blásið út, íslenska leiðin var sú að fá allt að láni, og áttu þeir einstaklingar sem unnu í bankakerfinu að hafa vit á því að hugsa út í það hvað það hefur í för með sér.

Ummæli

Gonzo sagði…
Ég er alveg sammála þér.
... eða ... er ég það...?

Vinsælar færslur