Forsendur efnahagshrunsins og hugmyndafræði hagfræðinnar

Eftir að íslenska bankakerfið hrundi haustið 2008 er ekki skrýtið að orsaka þess hafi verið leitað víða. Í raun hafa skýr svör ekki fengist um orsakir hrunsins ennþá en nefnd á vegum Alþingis sem átti að rannsaka hrunið hefur fengið frest fram í febrúar að skila af sér skýrslu. Í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabanki Íslands gefur út eru raktar nokkrar ástæður hrunsins. Þar eru meðal annars þættir í alþjóðahagkerfinu eins og lágir vextir, mikill vöxtur útlána og lágt áhættuálag. Nýjungar í fjármálaþjónustu og fjármálagjörningar sem byggðu á flóknum útreikningum, færðu til áhættu og drógu úr gagnsæi. Þá var dregið úr regluverki á fjármálamarkaði og fjármálaeftirliti bæði innan og utanlands. Sumir leggja höfuðáherslu á að efnahagshrunið hafi orðið vegna utanaðkomandi þátta en aðrir benda á háskalegan rekstur bankanna og segja ábyrgðina liggja hjá stjórnendum þeirra og enn aðrir telja ábyrgðina liggja hjá ríkisvaldinu sem átti að setja leikreglurnar og sjá til þess að kerfið virkaði. Hér verða ekki skoðaðir allir þeir þættir sem urðu til þess að efnahagskerfið hrundi en gert ráð fyrir því að þeir séu bæði innlendir og erlendir. Hins vegar er umfjöllunarefnið fólkið sem mótaði efnahagskerfið og starfaði innan þess. Liggur ábyrgðin hjá þeim örfáu einstaklingum sem stjórnuðu bönkum, stórfyrirtækjum, seðlabanka og ríkinu eða liggur hún í byggingu hagkerfisins sjálfs? Hér verður gerð tilraun til að sýna fram á hvernig hugmyndir um manneskjuna og eiginleika hennar mynduðu undirstöðuna fyrir það kerfi sem hrundi. Hugmyndir sem rekja má til hagfræðinnar um hina skynsömu einstaklinga á fullkomnum markaði.

Hagfræði og hagfræðingar
Við yfirheyrslur vegna fasteignabólunnar í Bandaríkjunum viðurkenndi Alan Greenspan fyrrverandi seðlabankastjóri BNA villu í hugmyndakerfi sínu. Hann sagði það rangt að gerendur á markaði myndu alltaf haga sér þannig að það kæmi hluthöfum í þeirra umsjá best.



Þarna er hann að vísa til þeirrar mikilvægu forsendu markaðskerfisins að gerendur á markaði hámarki ávallt hlut sinn og að þeir muni komast nógu nærri þeim upplýsingum hvernig það skal gert. Að verð á markaði haldist í nokkuð stöðugu sveiflukenndu jafnvægi. Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman telur að hagfræðingar hafi látið blekkjast af fegurð reiknilíkana hagfræðinnar. Og þó að hagfræðinga hafi greint á um ýmis atriði í makróhagfræði eins og peningamálastefnu þá hafi þeir meira og minna gert ráð fyrir því að markaðskerfið væri nær fullkomið. Umræða um skynsemi gerenda á markaði var á þá leið að hinir skynsömu myndu selja þegar hinir óskynsömu myndu kaupa og öfugt og þar með var markaðurinn nægilega skynsamur. Í Fjármálastöðugleika er fjallað um þátt stjórnenda, stjórnvalda og eftirlitsaðila í efnahagshruninu og þar kemur fram að áhætta hafi stórlega verið vanmetin af öllum þessum aðilum. Um of treyst á matsfyrirtæki og getu fjármálafyrirtækja til að stýra áhættu sinni. Aðhald stjórna fjármálafyrirtækja og hluthafa með stjórnendum var ófullnægjandi og ekki ljóst að nægilegur skilningur hafi verið á eiginleikum flókinna fjármálagerninga. Þá hafi verið mikill þrýstingur á stjórnendur að stuðla að gengishækkun hlutabréfa og að greiða út arð. Hvata- og launakerfi hafi stuðlað að áhættutöku með skammtímahagnað að leiðarljósi.

Forsendur og hvatar
Forsendur þess að markaðskerfið virki skynsamlega eru að gerendur séu skynsamir. Þeir séu skipulagðir, upplýstir, eigingjarnir og úthugsaðir, og þeir nýti öll tækifæri sem bjóðast til að hámarka eigin hag. Þó hefur verið sýnt fram á að fólk stendur ekki undir þessum forsendum. Ákvarðanir hvíla á þeim upplýsingum sem auðveldast er að ná í og setja í samhengi við ákvörðunina. Þær fara eftir því hvernig forsendur eru settar fram, þannig að jafngildar forsendur leiða ekki endilega til sömu ákvörðunar. Innra samræmi riðlast auðveldlega þegar valkostir eru metnir og fleiri valkostum er bætt inn í ákvarðanatökuna. Þá á fólk erfitt með að meta tölulegar upplýsingar og líkur. Tilhneigingin er sú að meta litlar líkur sem engar líkur og miklar líkur sem vissu. Þetta gerir fólki sérstaklega erfitt fyrir að spá fyrir um atburði og horfur í framtíðinni.
Árið 2007 fengu nokkur börn lán til að kaupa hlutafé í fjárfestingabankanum Byr. Eftir að bankinn varð gjaldþrota og upp kom að það er ólöglegt að veita börnum lán varð uppi fótur og fit í fjölmiðlum og fólk agndofa yfir dómgreindarleysi foreldranna. Foreldrarnir tóku ákvörðunina þegar mikill arður af hlutafé var greiddur út. Þeir mátu líkurnar á því að bankinn færi á hausinn afskaplega litlar og er því hægt að ætla að foreldrarnir hafi verið vissir um að gróðinn myndi streyma inn á reikning barnanna án nokkurrar áhættu. Þeir skoðuðu ekki ástæður nýliðinna fjármálakreppa í Asíu og veltu því fyrir sér hvort eins gæti farið fyrir Íslandi. Bankar og fjárfestingarfélög á Íslandi voru í gríðarlegum vexti, kreppur gerðust í útlöndum. Það hefði verið rangt hjá skynsömum foreldrum að láta börnin verða af arði hlutabréfa sem þau áttu rétt á að kaupa.

Fleiri mikilvægar forsendur snúa að þátttakendum í hagkerfinu og fjalla um það hvernig megi fá fólk til að afkasta sem mest og best og tengjast því sem er kallað hvatar (e. incentives) í hagfræði. Hvatar eru lykilatriði í hagfræði og notaðir til að skýra hegðun á markaði, t.d. eru vextir lækkaðir af seðlabanka til að hvetja gerendur til að taka lán, lántakan verður ódýrari fyrir þá en hún var áður, og því hagkvæmari og skynsamlegri. Viðtekin venja er að telja að fólk skili betra verki leggi það sig mikið fram um það. Einnig er það talið að ríkuleg laun séu góður hvati til að fá fólk til að leggja sig fram og þar með að auka afköst. Forsendan er sú að aukin laun/verðlaun fyrir að standa sig vel muni auka áhuga, áhugahvöt (e. motivation) og erfiði (e. effort) og að þessi aukna áhugahvöt muni koma fram í betra vinnuframlagi. Rannsóknir styðja þetta ekki nema að hluta til. Í greininni sem hér er vísað í var fyrri hluti forsendunnar ekki dreginn í efa heldur fjallað um þann seinni sem snýr að vinnuframlaginu. Með tilraunum þar sem verkefni voru lögð fyrir með mismunandi laun í boði kom í ljós að eftir því sem launin voru hærri því verr stóð fólk sig í verkefnalausnum. Höfðu rannsakendur gert ráð fyrir því að þetta myndi frekar eiga við um verkefni sem krefðust vitsmuna og sköpunar en þau sem byggðu á vélrænum, endurteknum ferlum en í flestum verkefnum höfðu aukin laun neikvæð áhrif á vinnuframlag.

(myndbandið er ekki bein heimild heldur grein Ariely, Dan, Uri Gneezy og fl. “Large Stakes and Big Mistakes.” Skýrsla unnin fyrir Federal Reserve Bank of Boston 2005. http://www.bos.frb.org/economic/wp/wp2005/wp0511.pdf) Þessar niðurstöður eru merkilegar í samhengi við bónusgreiðslur fjármálastofnana til starfsmanna og stjórnenda. Ég held að bónusgreiðslurnar hafi ekki bara haft neikvæð áhrif á vinnuframlag heldur verið þráður í því að viðhalda þennslunni. Fólk hlýtur að hafa verið rekið áfram af ótta við að missa bónusinn. Samkvæmt kenningunni um væntingar (e. prospect theory) er fólki sérstaklega illa við töp og er áhættufælið í þeim aðstæðum sem það upplifir gróða í og áhættusækið í þeim aðstæðum þegar það upplifir tap. Að auki getur ótti valdið ástandi sem kallast hugarlokun (e. closed mindedness). Ótti er tengdur við ýmis vitsmunaleg vandamál og leiðir til þröngs sjónarhorns þar sem athyglinni er beint að því sem veldur óttanum. Þá er mikil þörf fyrir niðurstöðu og fólk grípur því til fyrstu aðgerða sem það telur að muni leysa vandann og bægja óttanum frá. Kruglanski og Webster skoðuðu þörf fyrir niðurstöðu (e. need for closure) og sögðu hana geta sprottið af mismunandi rótum eins og félagslegum normum og menningarlegum aðstæðum. Afleiðingarnar væru að fólk hefði tilhneigingu til að leysa málin strax og endanlega. Þörfin hefur áhrif á það hvernig fólk vinnur úr upplýsingum og það tekur ákvörðun með minni upplýsingar í huga og það er vissara um að hafa komist að réttri niðurstöðu. Fólk í mikilli þörf fyrir niðurstöðu sækir í að umgangast fólk sem hefur sömu skoðun og það sjálft og er neikvætt gagnvart þeim sem hafa ólíkar skoðanir og ógna þeirra hugmyndakerfi (e. consensus). Þá er það líklegt til að meta fólk á öndverðum meiði með fyrirfram gefnum, abstrakt hugmyndum fremur en með því að meta hvern og einn á sínum forsendum. Það má því með nokkrum rökum segja að stjórnandi, millistjórnandi eða sölustjóri í fjármálastofnun sem var hræddur um að verða af næstu bónusgreiðslu hafi ekki verið með hugann sérstaklega við það hvaða afleiðingar stefna stofnunarinnar í lána- og fjárfestingarmálum gæti haft. Líklegra er að hann hafi valið fyrstu og stystu leiðina að því að klára verkefni eða samninga. Hann hafi ekki ígrundað gjörðir sínar og ekki heldur verið sérlega frumlegur. Þá fundu Krulanski og Webster að hópar sem taka ákvörðun undir tímapressu eru líklegri til að halda sig við fyrri hugmyndir hópsins, komi nýjar fram, og að slíkir hópar séu vissari um að ákvörðun þeirra sé rétt. Hafi ákvörðun “hópsins” verið sú að áhættumat matsfyrirtækja hafi verið gott þá var það góð ákvörðun. Hópurinn sem hér er talað um er hópur fjárfesta í heild sinni. Skilgreiningin er ekki sú hefðbundna en þar sem fjárfestar tóku þátt í markaði þar sem samkeppni ríkti urðu þeir að bregðast við hegðun annarra. Þeir sem ekki brugðust skjótt við breytingum misstu af lestinni og voru taparar markaðarins. Væri samkeppnisaðilinn að gíra sig (e. leverage) og græða þar með margfalt væri það óskynsamlegt af hinum að sitja með hendur í skauti því fjárfestar vilja fjárfesta þar sem hlutabréfaverð hækkar. Hluthafarnir myndu selja bréfin sín og allt fara á hausinn. Og hefðu eftirlitsstofnanir ætlað að fara að setja markaðnum reglur, hvort heldur um bindiskyldu, afleiðuviðskipti eða hvað sem gróðinn hvíldi á, hefðu þær verið skotnar niður ekki bara af gerendum á markaðnum heldur líka almennum kjósendum. Hvers konar ríkisstjórn er það sem bannar fólki að græða peninga? Sú ríkisstjórn sem tapar næstu kosningum. Í Bandaríkjunum árið 1998, reyndi The Commodity Futures Trading Commission að setja reglur um afleiðuviðskipti. Alan Greenspan var andsnúinn og sagði reglurnar draga stórlega úr velmegun. Markaðir með afleiðuviðskipti áttu eins og aðrir að stilla sig af sjálfir. Formaður nefndarinnar Brooksley Born, var sögð óskynsöm og erfið en hún gaf sig ekki. Tillögur hennar voru felldar af þinginu og hún seinna látin fara úr embætti. Félagsleg drottnunargirni og hugmyndafræði hagfræðinnar Í grein skrifaðri til varnar kapítalismanum skrifar Fareed Zakaria fjármálakreppuna að stórum hluta á reikning makróhagfræði, þ.e.a.s. á lága vexti bandaríska seðlabankans og þenslunnar sem þeir ollu. Áhugaverðara er að hann, þrátt fyrir að hafa reynt að horfa fram hjá því, endar á því að segja kreppuna hvíla á siðferðilegum grunni. Hann segir það sem gerðist hafa verið löglegt en siðlaust og segir að bankamenn hafi áður litið á sig sem varðmenn fjármálanna og fundist þeir ættu að fara með fjármuni annarra af ábyrgð. Þeir hafi í seinni tíð beint sjónum sínum einkum að gróða, óvissir um framtíð sína og fyrirtækisins og sagt viðskiptavinum einfaldlega það sem þeir vildu heyra. Félagsleg drottnunargirni er persónuleikamæling sem mælir viðhorf til félagslegs veruleika, til sambanda hópa (e. intergroup relations) og hvort hópar séu almennt jafnir eða falli undir stigveldi. Þeir sem skora hátt á kvarða félagslegrar drottnunargirni telja suma hópa samfélagsins vera æðri öðrum og telja ójafnræði vera óumflýjanlegt. Þeir sækjast eftir völdum og að klífa metorðastigann. Þeir segja samfélagið stjórnast af samkeppni og að oft þurfi fólk að stíga á annarra tær til að hafa betur. Í hugum þeirra er í rauninni ekkert sem heitir rétt og rangt, það eina sem skiptir máli er hvað fólk kemst upp með. Þeir hafna siðferðilegum lögmálum. Þessar hugmyndir eru fyllilega í samræmi við hugmyndafræði hagfræðinnar. Grunnhugmyndin er komin frá Darwin, sú að hinir hæfustu lifi af en hinir verði undir. Í markaðskerfinu má orða það svo að góð fyrirtæki sem skapa gróða með sem minnstum tilkostnaði lifa af en hin slæmu sem ekki tekst að vera eins hagkvæm verða gjaldþrota. Í samkeppnisumhverfi reyna fyrirtæki að vera eins útsjónarsöm og þeim er unnt, þau reyna að ná í eins marga viðskiptavini og þau geta, jafnvel þó þau þurfi að lokka þá frá samkeppnisaðilanum. Þegar þessar hugmyndir eru svo yfirfærðar á samkeppni einstaklinga þá hika þeir ekki við að olnboga sig fram fyrir samstarfsmennina. Það sem er áhugaverðast er að sjálfshjálpin sem fylgir stjórnleysi markaðarins veldur því að fólk tapar samúð og samvirkni við náungann. Sá sem heldur að samstarfsmaðurinn muni ekki hika við að stinga hann í bakið til að komast lengra í stigveldi fyrirtækisins, mun ekki hika við að gera slíkt hið sama. Þannig verður það óskynsamlegt að hugsa um annað en eigin hag. Hugmyndakerfið elur af sér sjálfselsku. Bankamennirnir sem Zakaria talaði um stóðu sig einfaldlega vel í persónulegri samkeppni um störf og bónusa. Og það átti að vera gert til þess að bankinn yrði sá besti, stæði sig vel í samkeppninni á bankamarkaði. En eitthvað skolaðist til í kapphlaupinu, það mátti enginn vera að því að skoða hvert ferðinni var haldið, en leikurinn var spilaður að heilum hug og hörku. Hér er því ekki haldið fram að persónuleiki allra sem störfuðu innan efnahagskerfisins hafi verið markaður af félagslegri drottnunargirni. Kvarðinn er notaður til að greina einstaklinga en ekki heilt hugmyndakerfi. Ég bendi samt á að hugmyndafræði hennar rímar vel við hugmyndafræði markaðarins, sérstaklega hvað varðar stjórnleysi og samkeppni. Meðal þeirra sem tímaritið Timesonline telur upp sem blóraböggla efnahagshrunsins er Dick Fuld, fyrrum framkvæmdastjóri fjárfestingabankans Lehman Brothers. Hann var feiknalega mikils metinn í viðskiptalífinu og þótti hann sérlega harður í horn að taka. Hann aflaði bankanum gríðarlegra fjárhæða og varð sjálfur um leið afskaplega ríkur. Undirmenn hans óttuðust hann mjög og gengu langt í því að hlífa honum við því sem reitti hann til reiði. Hann er frægur fyrir að hafa sagt að sæi hann skortsala, sem ógnaði hlutabréfaverði bankans, myndi hann rífa úr honum hjartað og éta það á meðan hann væri enn á lífi svo hann þyrfti að horfa upp á það. Þeir sem skora hátt á félagslegri drottnunargirni svara því játandi að þeim líki það að annað fólk hræðist þá og að stundum þurfi fólk að sýna miskunnarleysi. Þeir segja það ekki angra sig að fólk telji þá illa og harðbrjósta. Þeir eru ósammála því að besta leiðin til að stjórna hópi sé að sýna honum góðmennsku og að umgangast hópmeðlimi eins og jafningja. Stjórnunarstíl Fulds var lýst sem skólabókardæmi um “command-and-control CEO”. Heitið á þessum stjórnunarstíl er fengið úr hernum þar sem foringinn hefur fullt vald og stjórn á sínu fólki. Þegar skoðuð voru tengsl félagslegrar drottnunargirni og stjórnunarstíls kom í ljós neikvætt samband við umhugsun (e. consideration) og það að þola óvissu og jákvætt samband við áherslu á afrakstur vinnuframlagsins (e. production emphasis). Gowers segir að á Davos ráðstefnunni 2007 þegar sá þröngi hópur viðskiptamanna og hagfræðinga kom saman og hrósaði sér fyrir gott gengi hafi Fuld heldur viljað draga úr gleðinni, hann hafi orðað áhyggjur af fasteignamarkaðnum og reynt að draga úr kokhreysti þessara konunga alheimsins (e. masters of the universe). Það var eins og hann vissi hvað var í vændum. En um svipað leyti gekk hann frá einum áhættusamasta samningi sem bankinn hafði gert á fasteignamarkaðnum, þeirri fjárfestingu sem átti eftir að vera kölluð sú versta sem bankinn hefur gert. Hegðun hans er hægt að skýra með kenningunni um væntingar. Hann sótti í áhættu þegar hann sá fram á tap. Að sama skapi bauð Landsbankinn upp á innlánsreikninga í útlöndum þegar ljóst var að endurfjármögnun yrði erfið þar sem lausafé var að þurrkast upp í heiminum. Bankinn tók áhættu, sem aldrei fyrr, þegar hann sá fram á tap. Lokaorð Í Fréttablaðinu 30. október síðastliðinn birtist grein eftir tvo nýjustu nóbelsverðlaunahafana í hagfræði, George Akerlof og Joseph E. Stiglitz. Þar fjalla þeir um þörf hagfræðinnar og hagfræðinga til að endurskoða hugmyndir sínar um hagfræðilíkön og veruleikann. Þeir, í takt við hugmyndir þessarar ritgerðar, kalla á þverfaglega nálgun hagfræðinnar og benda á að hún geti sótt í stjórnmálafræði, félagsfræði og sálfræði til að bæta hugmyndakerfi sitt. Hugmyndin um fullkomið markaðskerfi byggir á því að skynsamir, eigingjarnir, útreiknandi gerendur hafi ávallt bestu upplýsingar við ákvarðanatöku. Fólk stendur ekki undir þessum forsendum og því er óskynsamlegt að byggja hagkerfi á hugmyndum um fullkominn markað. Vegna þess að fólk bregst við hvötum, þarf að fara varlega í það að byggja upp hvatakerfi sem leiðir fólk út í að taka illa ígrundaðar, fljótfærnislegar ákvarðanir. Sé starfsumhverfi fólks sett á markað, gilda þar sömu samkeppnislögmál og á öðrum mörkuðum. Þar sem þarf að leysa flókin og yfirgripsmikil verkefni sem hafa áhrif víða í samfélaginu ætti ekki að setja fólk í ógnandi aðstæður þ.e.a.s. þar sem það þarf að keppa við samstarfsfólk um hlunnindi og starfstitla undir pressu. Óttinn um afkomu í framtíðinni hefur, öfugt við viðtekna skoðun, þau áhrif að fólk tekur ákvarðanir byggðar á minni upplýsingum, af minni yfirvegun og ígrundun og er ekki líklegt til að koma fram með ný sjónarhorn eða nújar og betri leiðir að markmiðum. Sé ætlunin að byggja fjármálakerfið á trausti þarf að tryggja að þar starfi fólk sem finnst það eiga að vera traustsins vert. Fólkið sem starfaði í fjármálakerfinu fyrir hrun hafði ekki aðeins tilhneigingu til að hugsa einungis um sinn eigin hag heldur var það beinlínis hvatt til þess af markaðsmiðuðu starfsumhverfinu. Vissulega tóku einstaklingar ákvarðanir en þeir voru fastir í viðjum hugmyndafræði hagfræðinnar. Heimildaskrá Akerlof, George og Joseph E. Stiglitz. “Markaðstorg hugmynda.” Fréttablaðið, 30 október 2009.
Altemeyer, Bob. “The other”authoritarian personality”.” Advances in Experimental Social Psychology 30 (1998): 47-92.
Andrews, Edmund L. “Greenspan Concedes Error on Regulation.” New York Times, október 2008. http://www.nytimes.com/2008/10/24/business/economy/24panel.html?_r=1(sótt í október 2009).
Ariely, Dan, Uri Gneezy og fl. “Large Stakes and Big Mistakes.” Skýrsla unnin fyrir Federal Reserve Bank of Boston 2005. http://www.bos.frb.org/economic/wp/wp2005/wp0511.pdf
Fjármálastöðugleiki 2009, I Fjármálaáfallið. http://www.sedlabanki.is/?PageID=1060
Frontline 20 október 2009 “The Warning” http://video.pbs.org/video/1302794657/(sótt í október 2009).
Gowers, Andrew. “Exposed: Dick Fuld, the man who brought the world to its knees.” Timesonline, desember 2008. http://business.timesonline.co.uk/tol/business/industry_sectors/banking_and_finance/article5336179.ece(sótt í nóvember 2009).
Jervis, Robert. “The Drunkard´s Search.” í Explorations in Political Psychology, ritstj. S. Iyengar og W. J. McGuire, 338-360. Durham, North Carolina: Duke University Press, 1993.
Krugman, Paul. “ How did Economists get it so Wrong?.” New York Times, 2. september 2009. http://www.nytimes.com/2009/09/06/magazine/06Economic-t.html(sótt í október 2009).
Kruglanski, Arie W. og Donna M. Webster. “Motivated Closing of the Mind: “Seizing and Freezing”.” Psychological Review 103 (1996): 263-283.
Mankiw, Gregory N. og Mark P. Taylor. Economics. United Kingdom: South-Western Cengage Learning, 2008.
mbl.is 31.janúar 2008. “Launagreiðslur forstjóra og stjórnarformanns 307,7 milljónir” http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2008/01/31/launagreidslur_forstjora_og_stjornarformanns_307_7_/(sótt í nóvember 2009).
McDermott, Rose. “Prospect Theory in Political Science: Gains and
Losses From the First Decade.” Political Psychology 25 (2004): 289-312.
Nicol, Adelheid A. M. “Social Dominance Orientation, Right-Wing Authoritarianism, and their relation with leadership styles.” Personality and Individual Differences 47 (2009): 657–661.
Quatrone, George A. og Amos Tversky. “Contrasting Rational and psychological analyses of Political choice.” American Political Science Review 82 (1988): 719-736.
Vilhjálmsson, Ingi Freyr. “Barnalánspabbi: “bankinn var ekkert að benda okkur á þetta”.” DV.is 3. nóvember 2009 http://www.dv.is/frettir/2009/11/3/barnalanspabbi-bankinn-var-ekkert-ad-benda-okkur-thetta/(sótt í október 2009).
Zakaria, Farreed. “The Capitalist Manifesti: Greed is Good (to a point).” Newsweek, 13. júní 2009. http://www.newsweek.com/id/201935(sótt í október 2009).
Þórisdóttir, Hulda og John T. Jost. “Closed-Mindedness Mediates the Effect of Threat on Political Conservatism.” Bíður birtingar í tímaritinu Political Psychology.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði…
hey your blog design is very nice, clean and fresh and with updated content, make people feel peace and I always like browsing your site.

- Joe

Vinsælar færslur