Vandræðagangur
Ég hef komið mér út í það vonlausa verkefni að skrifa ritgerð um bókina Anarchy State and Utopia eftir Robert Nozick. Ég rembist við að finna eitthvað sem ég get hugsað mér að skrifa um sem snertir bókina beint en við Nozick höfum ansi ólíka sýn á heiminn svo það er erfitt fyrir mig að halda mig hjá honum. Bókin er nokkuð skemmtileg aflestrar þó að marga kafla hafi ég hrasað um og þurft að fara yfir oft til að reyna að skilja hvert höfundurinn dregur mig- lesandann. Aðra stundina svamlar maður í röklegum pælingum en hina flýgur Nozick með mann á hálfgerðu töfrateppi inn í ímyndaðar veraldir og heima svo maður verður að hafa sig allan við að halda í grunnstoðir Nozicks- frelsi og eignarrétt.
Strax á fyrstu síðunum læðist sú hugsun að manni að eins og Locke skrifaði Ritgerð um ríkisvald til að verja þingbundna stjórn fyrir einveldinu þá sé Nozick að verja eignaréttinn fyrir þingbundnu lýðræði. Hann sýnir fram á að þar sem fólk á rétt á eignum sínum þá sé skattheimta óréttlát. Hann gengur út frá náttúrurétti Lockes og nýtir sér hugmyndir hans um eignarrétt og frelsi sem útgöngupunkt réttlætisins. Hann kemst svo að því að ekkert ríkisvald sé rétttlátt nema lágmarksríkið svokallaða. Fólk ætti að hafa frelsi til að gera það sem því sýnist svo framarlega sem það brjóti ekki á rétti annarra til frelsis og umfram allt skal rétturinn til eigna vera varinn.
Valdið sprettur því af eignum manna í ríki Nozicks. Mig langar svolítið að skrifa um lýðræði en það yrði heldur daufleg ritgerð ætli ég að halda mig hjá Nozick því hann í raun gerir lýðræðið óþarft. Hann reyndar gerir tilraun til að útlista eignarréttarlýðræði í einum kafla bókarinnar þar sem hann setur allar manneskjur á hlutabréfamarkað og allir eiga hlut í öllum. Svo lendir hann í vandræðum með börn, hvernig á að koma þeim á markað?, hver á eignarréttinn á þeim?, og svo framvegis. Í hugarheimi Nozicks eru allir eins og Nenni níski- “ég á það!”
Þessi bók hefur haft gríðarleg áhrif síðan hún kom út árið 1974 og það er mér því sérstaklega erfitt að geta ekki fundið flöt sem mig langar að skrifa um. Það er vissulega af mörgu að taka því efni bókarinnar er mikið og víðfeðmt. Upplifunarvélin (e. the Experience Machine) er til dæmis mjög spennandi en hún er kannski ekki nægilega markverð fyrir stjórnmálaheimsspeki. Mig grunar að vandamál mitt snúist að miklu leiti um að ég á erfitt með að halda mig innan aðferðafræðilegs grunns Nozicks. Það sem stendur í mér er ekki aðallega skilgreining hans og skilningur á réttlæti og frelsi heldur útgangspunktur hans frá hinum skynsama einstaklingi. Hann telur sig kannski ekki þurfa að rökstyðja hugmynd sína um “val skynsamra einstaklinga” þar sem hann fékk hana líka í arf frá Locke og upplýsingunni. En það er eitthvað verulega bogið við að nota ákvörðunarfræði, leikjafræði og hagfræðigreiningu sem kenningar um mannlegt samfélag. Það er einnig líklega ekki gáfulegt að skrifa um “Hinn frjálsa vilja” fyrir Hannes Hólmstein?
Strax á fyrstu síðunum læðist sú hugsun að manni að eins og Locke skrifaði Ritgerð um ríkisvald til að verja þingbundna stjórn fyrir einveldinu þá sé Nozick að verja eignaréttinn fyrir þingbundnu lýðræði. Hann sýnir fram á að þar sem fólk á rétt á eignum sínum þá sé skattheimta óréttlát. Hann gengur út frá náttúrurétti Lockes og nýtir sér hugmyndir hans um eignarrétt og frelsi sem útgöngupunkt réttlætisins. Hann kemst svo að því að ekkert ríkisvald sé rétttlátt nema lágmarksríkið svokallaða. Fólk ætti að hafa frelsi til að gera það sem því sýnist svo framarlega sem það brjóti ekki á rétti annarra til frelsis og umfram allt skal rétturinn til eigna vera varinn.
Valdið sprettur því af eignum manna í ríki Nozicks. Mig langar svolítið að skrifa um lýðræði en það yrði heldur daufleg ritgerð ætli ég að halda mig hjá Nozick því hann í raun gerir lýðræðið óþarft. Hann reyndar gerir tilraun til að útlista eignarréttarlýðræði í einum kafla bókarinnar þar sem hann setur allar manneskjur á hlutabréfamarkað og allir eiga hlut í öllum. Svo lendir hann í vandræðum með börn, hvernig á að koma þeim á markað?, hver á eignarréttinn á þeim?, og svo framvegis. Í hugarheimi Nozicks eru allir eins og Nenni níski- “ég á það!”
Þessi bók hefur haft gríðarleg áhrif síðan hún kom út árið 1974 og það er mér því sérstaklega erfitt að geta ekki fundið flöt sem mig langar að skrifa um. Það er vissulega af mörgu að taka því efni bókarinnar er mikið og víðfeðmt. Upplifunarvélin (e. the Experience Machine) er til dæmis mjög spennandi en hún er kannski ekki nægilega markverð fyrir stjórnmálaheimsspeki. Mig grunar að vandamál mitt snúist að miklu leiti um að ég á erfitt með að halda mig innan aðferðafræðilegs grunns Nozicks. Það sem stendur í mér er ekki aðallega skilgreining hans og skilningur á réttlæti og frelsi heldur útgangspunktur hans frá hinum skynsama einstaklingi. Hann telur sig kannski ekki þurfa að rökstyðja hugmynd sína um “val skynsamra einstaklinga” þar sem hann fékk hana líka í arf frá Locke og upplýsingunni. En það er eitthvað verulega bogið við að nota ákvörðunarfræði, leikjafræði og hagfræðigreiningu sem kenningar um mannlegt samfélag. Það er einnig líklega ekki gáfulegt að skrifa um “Hinn frjálsa vilja” fyrir Hannes Hólmstein?
Ummæli