Heimskra manna ráð.

Bók sem ég las einu sinni, að mig minnir eftir Einar Kárason. Og titillinn er mér ofarlega í huga þessa dagana. Ég stend mig að því að efast um allt sem ég hef haft fyrir satt áður. Mér finnst svo ótrúlegt að nútímaþekking og skipulag geti verið þegar að er gáð í besta falli byggt á sandi. Ég talaði um að bankarekstur væri glæpastarfsemi, en mig grunaði ekki að skipulag samfélagsins væri svona rækilega undir hælnum á henni. Til hvers að einkavæða bankana ef ríkið á hvort sem er að bera ábyrgð á þeim? Pabbi minn hefur alltaf haldið því fram að fólk fari í skóla til að læra að takmarka sig. Það virðist vera svo að allt það þrælmenntaða fólk í fjármálaheiminum hafi verið með menntun sinni að samræma takmörk sín. Það lærði allt að reikna og reikna og reikna og reikna...

En hvað svo?
Þá verður fátt um svör hjá frökeninni. Ég er bara pikkföst með þessa ótuktartilfinningu að ég verði að hugsa allt upp á nýtt. Ekkert aftur til fortíðar. Ég sé ekkert spennandi þar. En hvernig á ég að sætta mig við tilveruna og halda áfram?

Afhverju kenni ég nemendum mínum eins og mér var kennt? Langmestur tíminn fer í tæknileg atriði svo tónlistariðkun er að verða hálfgerð íþrótt. En hvað kemur það tónlistinni við? Þarf hún íþróttamennskuna?

Og svo allt þetta drasl og dót? Ég held það besta sem ég gæti gert er að lækna mig af því að halda að lífsgæði séu efnisleg. Eða er það kannski "mannlegt eðli" að sækjast fysrt og fremst eftir efnislegum gæðum?

Ég veit ekki hvort ég á að fara til vinstri eða hægri. Ég get ekki séð að það skipti nokkru máli. Það fer allt saman norður og niður hvort eð er.

Ummæli

Vinsælar færslur