Arcitectural Digest
Einhverra hluta vegna velti ég alltaf fyrir mér hvort fólkið búi raunverulega þarna. Það er eitthvað sem vantar til að ég trúi því að þetta séu raunveruleg heimili, með öllu dótinu sem lífið kallar á að upptekið fólk hafi í kring un sig. Auðvitað er bara allt inni í bílskúr. Fyrir “heimsóknina” hafa ekki bara gestgjafarnir séð til þess að ekkert sé ófullkomið heldur hefur heilt teymi á vegum tímaritsins farið um hvert horn og hvern kima og raðað upp og þrifið. Þess vegna er þetta yfirleitt svona gervilegt. En hvað um það. Kannski finnst frægðarmennunum erfitt að fá milljónir forvitinna andlita inn á heimili sín og fjarlægja allt sem þau vilja heldur hafa fyrir sig.
Fólkið sem tekur á móti heimsóknum á youtubesíðu Arcitectural Digest er frægðarfólk í Ameríku og þó ég kunni alls ekki deili á öllu þessu fólki þá finnst mér ferlega gaman að fá að sjá hvernig það býr. Ég fer að nálgast það að hafa horft á allar heimsókninar á YouTube frá upphafi. En þetta fólk hefur flest þurft að kljást við það að hafa fullt af peningum sem skapar alls konar vandamál þannig að heimilin eru oft á tíðum allt of stór og útbúin alls konar rándýrum óþarfa. Sérstaklega eru algeng gríðarstór eldhús heima hjá fólki sem lítur út fyrir að borða afskaplega sjaldan og lítið og viðurkennir oft að kunna ekkert að elda. Fataherbergi troðfull af flíkum og dóti sem fólki hefur verið gefið til að auglýsa. Mjög vandræðalegt. Oft á tíðum held ég að það sé ekki bara vegna þeirrar hugsanavillu sem hrjáir peningaveruleikann allan að meira, stærra og fleira sé betra í sjálfu sér, heldur líka vegna þess að oft hefur þetta fólk ekki haft hæfni til að útbúa heimili sitt sjálft heldur hefur það leitað til ráðgjafa sem hanna allt frá a til ö og þeir virðast vera hámenntaðir í því að eyða peningum. Og ég gapi á sóunina og flæmið af mannlausum herbergjum sem íbúarnir fara yfir í lýsingum á eldgömlum innfluttum viði frá Spáni og eelska alla birtuna í herberginu. Svo kemur að herberginu sem sjónvarpinu þar sem kemur fram að fjölskyldan eyði mestum tíma í. Hlakkar í mér af yfirlætisfullri staðfestu um ég búi nú ekki í svo miklu hófleysi og prjáli?
Mörg heimili eru þó afskaplega smekkleg hvort sem þau séu heimilisleg eður ey og mig langar sérstaklega að nefna heimili Lenny Kravitz í París. Kravitz er auðvitað fáránlega töff og tekur munúðarfullur á móti myndavélinni, berfættur í níðþröngum blárænum leðurjakka. Hann hefur ótrúlega ómþýða rödd þar sem hann býður okkur velkomin í Hotel de Roxy sem hann segir vera nefnt til heiðurs móður sinnar. Krawitz hefur líka eytt mikilli orku og fjármunum í að gera heimili sitt eins og hann vill hafa það. Hann lýsir fyrir okkur hvernig allt er honum mikilvægt, vísar í arfleiðina og samveru með fólki. Hann hvíslar, líklega til að vekja ekki upp bergmálið í gríðarstórri höllinni.
Ég er sérstaklega hrifin af borðstofunni með þessum dökku umvefjandi veggjum. Hann kallar stólana afríkustóla og ég man eftir að hafa séð þá áður, já ég er að verða menntuð í þessu en svo gaman að sjá gömlu bóhemísku baststólana líka við borðið. Og síðast en ekki síst kristalsljósakrónan. Ég óska þess að hafa svo mikið staðfest dálæti á eigin mikilvægi til þess að geta verið með álíka krisalsljósakrónu í svefnherberginu mínu og Kravitz hefur í sínu. Ég er að vinna í því með uppspunnum sögum um betri svefn, Viva la vida, man þarf ekki að hafa snefil af kynþokka Kravitz til að eiga skilið að vakna í glyskenndri litadýrð. Man má. Á.
Myndi ég þrífast í höll Kravitz. Það mætti bæta bókum í bókaherbergið sem er gullfallegt en inniheldur ekki nógu margar bækur.
Johns Batiste og Suleika Jaouad taka á móti okkur með melódiku á tröppunum. Batiste leikur fyrir myndavélina en íbúðin er ekki gríðarstór og ein af þeim fáu sem ég væri virkilega til í að búa í. Meira að segja fataherbergið þykir mér fallegt. Fyrst það þarf endilega að vera óhóf, hvernig væri þá að hafa selestu í fataherberginu?
Það eru ekki nógu margar bækur í íbúðinni að mínu mati en eldhúsið er eitthvað það fallegasta sem ég hef séð. Blámálaður flísar og skáparnir í þessum dásamlega ljósbleiku lit sem Batiste segir vera mannlegan.
Það sem við fáum ekki að sjá er stúdíóið í kjallaranum. Kravitz fer líka með okkur niður í kjallara. Hann finnur greinilega mikla tengingu við fólk í gegnum föt þar sem þau eru uppstoppuð í glerkössum eins og á safni. Í lok heimsóknarinnar verð ég þó aðeins ringluð. Er Lenny Krawitz með skemmtistað í kjallaranum?
Ummæli